Fréttasafn

Sannarlega tími til að gleðast í Reykjanesbæ

 

Þann 6. maí var fyrsta skóflstungan tekin að stækkun hjúkrunarheimilis Hrafnistu Nesvöllum í Reykjanesbæ um 3.200 fermetra sem reistir verða á þremur hæðum á lóðinni við núverandi heimili. Í viðbyggingunni verða herbergi fyrir 60 íbúa og með tilkomu þeirra verður hjúkrunarheimilið Hlévangur aflagt. Þar eru íbúar þrjátíu og flytjast þeir yfir til Nesvalla í kjölfar stækkunarinnar. Hjúkrunarrýmum í Reykjanesbæ mun því fjölga um þrjátíu við stækkunina. „Nýbyggingin verður kærkomin viðbót í öldrunarþjónustu fyrir íbúa á Suðurnesjum og landsmenn alla. Sjómannadagsráð mun stýra framkvæmdum fyrir hönd Reykjanesbæjar og verður hönnun heimilisins á allan hátt til fyrirmyndar með aðbúnað og lífsgæði íbúa og starfsfólks að leiðarljósi. Við erum afar stolt af því trausti sem Reykjanesbær sýnir okkur með því að fela okkur umsjón með þessu byggingarverkefni fyrir hönd bæjarins“ segir Aríel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs.

Í ávarpi sem forstjóri Hrafnistu, María Fjóla Harðardóttir, flutti við tímamótin í Reykjanesbæ föstudaginn 6. maí, sagði hún sannarlega ástæðu til að gleðjast enda væri skóflustungan til marks um nýtt skref sem tekið væri til að bæta aðbúnað og lífsgæði íbúa á svæðinu sem þurfa á sólarhringsumönnun að halda.

Lýsir miklum metnaði sveitarfélagsins 

„Það lýsir að mínu mati miklum metnaði hjá bæjarstjórn Reykjanesbæjar og vilja til að gera vel við íbúa Reykjanesbæjar að núverandi stjórn leitaði til Sjómannadagsráðs og Hrafnistu sem sérfræðinga í byggingu hjúkrunarheimilis og reksturs. Vegna okkar sterka starfsmannahóps búum við yfir gríðarlegri þekkingu og reynslu á sviði byggingar og reksturs hjúkrunarheimila með það í huga að veita íbúum og starfsmönnum besta mögulegan aðbúnað hverju sinni. Við höfum einnig þeirri gæfu að fagna að vita að við vitum ekki allt og munum aldrei vita allt og erum því stöðugt að leita okkur upplýsinga um það sem betur mætti fara með samtali við íbúa heimilanna, starfsfólk og stjórnendur. Þannig náum við að gera stöðugt betur í dag en í gær,“ sagði María Fjóla m.a. í ræðu sinni.

Sé ávallt leiðandi í þjónustu við aldraða 

Hrafnista fylgir framtíðarsýn Sjómannadagsráðs sem hefur það að markmiði að vera leiðandi aðili í þjónustu og umönnun aldraðra. Stækkun Nesvalla er nýr áfangi á þeirri vegferð sem bæta mun verulega alla þjónustu og aðbúnað íbúa Hrafnistu í Reykjanesbæ. Tilkoma viðbyggingarinnar mun einnig leiða til þess að öll starfsemi Hrafnistu í sveitarfélaginu færist undir einn hatt sem veitir kærkomin tækifæri til hagræðingar í rekstri, ásamt því að bæta þjónustu við íbúa og vinnuumhverfi starfsfólks. Stækkun Nesvalla hefur lengi verið meðal helstu áherslumála í sveitarfélaginu og fór því vel á því að skóflustunguna af heimilinu tækju, ásamt Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra, þær Guðrún Eyjólfsdóttir formaður Félags eldri borgara á Suðurnesjum og Betsý Ásta Stefánsdóttir, formaður Ungmennaráðs Reykjanesbæjar.

 

Á meðfylgjandi mynd eru f.v.: Oddur Magnússon, stjm. í Sjómannadagsráði, Árni Sverrisson, stjm. í sjómannadagsráði, Jónas Garðarsson stjm. í sjómannadagsráði, Aríel Pétursson, form. Sjómannadagsráðs, Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, Þuríður I. Elísdóttir, forstöðumaður Hrafnistu Nesvöllum, María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistu, Sigurður Garðarsson, framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs, Sigurður Hreinsson, verkefnisstjóri hjá Sjómannadagsráði og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar. 

 

 

Lesa meira...

Origo og Hrafnista undirrita samstarfssamning

 

Origo og Hrafnista hafa undirritað samstarfssamning sem snýr að því hvernig megi nýta stafrænar lausnir til að halda sem best utan um starfsemi hjúkrunarheimila.

Þetta er liður í því að bæta umönnun íbúa Hrafnistu og samskipti við aðstandendur, ásamt því að ná fram hagkvæmni í vinnu og rekstri heimilanna. Origo hefur verið framarlega í þróun á heilbrigðislausnum og hefur meðal annars þróað app-ið Smásaga fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Með notkun á Smásögu geta starfsmenn heilbrigðisþjónustu skráð upplýsingar um skjólstæðinga sína í rauntíma og gegnum snjallsíma.

Nánar má lesa um samstarfsverkefni Hrafnistu og Origo HÉR

 

 

Lesa meira...

Nýr aðstoðadeildarstjóri hjúkrunar á Fossi Hrafnistu Sléttuvegi

 

Lilja Björk Bjarnadóttir hefur verið ráðin aðstoðardeildarstjóri hjúkrunar á Fossi á Hrafnistu Sléttuvegi frá 9. maí 2022. Lilja Björk útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur B.Sc. frá Háskóla Íslands árið 2017. Lilja hóf störf á Hrafnistu Hraunvangi árið 2012 þar sem áhuginn á hjúkrun kviknaði. Hún vann þar með námi og síðan sem hjúkrunarfræðingur eftir útskrift. Lilja hóf störf á Sléttuvegi sem hjúkrunarfræðingur við opnun heimilisins í febrúar 2020. Síðastliðið ár hefur hún leyst af sem aðstoðardeildarstjóri á Hrafnistu Sléttuvegi.

 

Lesa meira...

Nýr deildarstjóri hjúkrunar á Mánateig Hrafnistu Laugarási

 

Elsa Björg Árnadótttir hefur verið ráðin deildarstjóri hjúkrunar á Mánateig Hrafnistu í Laugarási frá 9. maí 2022.

Elsa Björg útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur B.Sc. frá Háskóla Íslands árið 2017. Hún hóf fyrst störf á Hrafnistu í Hraunvangi og vann þar sem nemi með hjúkrunarnáminu. Eftir útskrift starfaði hún svo á Hraunvangi sem hjúkrunarfræðingur. Við opnun á Hrafnistu við Sléttuveg í febrúar 2020 tók Elsa Björg við starfi aðstoðardeildarstjóra á hjúkrunardeildinni Fossi. Síðastliðið ár hefur hún starfað sem deildarstjóri í afleysingu á Hrafnistu við Sléttuveg.

 

Lesa meira...

Sjómannadagsráð og Hrafnista taka formlega við stjórn Skógarbæjar frá og með 1. maí 2022

Hrafnista Skógarbær

Sjómannadagsráð og Hrafnista, sem hafa frá því í maí 2019 annast stjórn hjúkrunarheimilisins Skógarbæjar í samstarfi við Reykjavíkurborg, taka formlega að fullu við stjórn heimilisins þann 1. maí næstkomandi.

Í mars 2019 undirritaði sjálfseignastofnunin Skógarbær, sem átti og rak samnefnt hjúkrunarheimili við Árskóga, skammt frá Mjódd í Reykjavík, samning við Sjómannadagsráð, eiganda Hrafnistu, um að Hrafnista tæki við rekstri hjúkrunarheimilisins þann 2. maí 2019. Rekstur og skuldbindingar starfseminnar hvíldu áfram hjá Skógarbæ, en Hrafnista tók yfir stjórn og rekstur.

Á samningstímabilinu, sem var til að byrja með til ársloka 2020, var Skógarbær sjálfstæður hluti rekstrarsamstæðu Sjómannadagsráðs. Í samningnum fólst einnig nýting og rekstur á hluta af húsnæði félagsmiðstöðvarinnar Árskóga, sem samtengd er hjúkrunarheimilinu og rekin er af Reykjavíkurborg.

Farsælt samstarf við borgina

Hjúkrunarheimilið og sjálfseignarstofnunin Skógarbær var stofnsett árið 1997 af Reykjavíkurborg, Rauða Krossinum í Reykjavík og Eflingu stéttarfélagi. Á heimilinu er 81 hjúkrunarrými og m.a. sérstök þjónusta fyrir unga hjúkrunaríbúa. Við þau tímamót sem nú eru fram undan eru fulltrúum Sjómannadagsráðs og Hrafnistu fyrst og fremst þakklæti efst í huga í garð Reykjavíkurborgar fyrir það traust sem borgin sýnir Sjómannadagsráði og Hrafnistu með þeirri ákvörðun að fela þeim alfarið rekstur Skógarbæjar með áframhaldandi umönnun íbúa ásamt umsjón með rekstri fasteignarinnar. „Samstarfið við Reykjavíkurborg hefur verið gríðarlega gott og nýjasta afurð þessa farsæla samstarfs er lífsgæðakjarninn við Sléttuveg í Fossvogi sem tók til starfa í febrúar árið 2020,“ segir María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistu.

Nýr lífsgæðakjarni fyrirhugaður

Sjómannadagsráð og Hrafnista eru full tilhlökkunar fyrir komandi tímum og hyggjast ráðast í stórhuga framtíðaruppbyggingu á svæðinu fyrir fjölþætta þjónustu við aldraða með fulltingi Reykjavíkurborgar, sem hefur margsýnt áhuga sinn á málefnum eldri borgara í verki. Eins og ávallt verður lögð áhersla á að veita íbúum í Skógarbæ góða þjónustu eftir gildum og hugsjónum Sjómannadagsráðs og Hrafnistu, með þeim dýrmæta mannauði sem starfar í Skógarbæ. „Það eru sannarlega spennandi tímar framundan og framtíð Skógarbæjar er björt. Það er mikið tilhlökkunarefni að gera Skógarbæ að enn betra heimili í samráði og samvinnu við íbúa Skógarbæjar, aðstandendur og starfsfólk,“ segir Aríel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs.

 

Meðfylgjandi mynd var tekin í dag þegar núverandi og fráfarandi stjórn Skógarbæjar stilltu sér upp fyrir ljósmyndara. Á myndinni eru f.v. Ari Karlsson, stjm. í sjálfseignarstofnuninni Skógarbæ, Heiða Björk Hilmisdóttir, form. velferðarráðs Rvk.borgar, Ellý Alda Þorsteindsdóttir, stjform. Skógarbæjar, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Örn Þórðarson, stjm. í Skógarbæ, Aríel Pétursson, form. Sjómannadagsráðs, María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistu, Rebekka Ingadóttir, forstm. Hrafnistu Skógarbæ, og Oddur Magnússon, stjm. í Sjómannadagsráði.

 

Lesa meira...

Sjómannadagsráð og Hrafnista eru í viðræðum við Kópavogsbæ um að Hrafnista taki yfir rekstur þjónustumiðstöðvarinnar Boðans í Boðaþingi frá haustmánuðum 2022

 

Þjónustumiðstöðin Boðinn hefur frá árinu 2010 verið rekin af Kópavogsbæ. Viðræður standa yfir milli Sjómannadagsráðs/Hrafnistu og Kópavogsbæjar um að frá og með haustinu muni Hrafnista reka þjónustumiðstöðina Boðann. Sjómannadagsráð og Hrafnista munu að sjálfsögðu starfa áfram í góðri samvinnu við Kópavogsbæ og eldri borgara í Kópavogi sem hafa nýtt sér þjónustumiðstöðina.

Með því að samnýta aðstöðu hjúkrunarheimilis, þjónustumiðstöðvar og leiguíbúða er mögulegt að auka framboð af þjónustu og afþreyingu fyrir eldra fólk í hverfinu. Stefnt er að því að gefa eldra fólki tækifæri til að blómstra með þátttöku í félagslífi um leið og því gefst kostur á fjölbreyttri þjónustu í nánasta umhverfi sínu. Takmarkið er að lífsgæðakjarninn Boðinn verði að akkeri í hverfinu, þangað sem fólk getur sótt sér þjónustu, félagsskap og afþreyingu af ýmsu tagi. Þjónustumiðstöðin verður opin öllum og í boði verður fjölbreytt dagskrá og viðburðir þar sem leitast verður eftir því að sníða starfið að áhugasviði sem flestra.

 

Lesa meira...

Málþing - Framtíð velferðarþjónustunnar

 

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu boða til 20 ára afmælismálþings samtakanna, þar sem fjallað verður um framtíð velferðarþjónustunnar.

Málþingið verður haldið þriðjudaginn 26. apríl kl. 14:30, Hrafnistu Sléttuvegi 27.  Sjá auglýsingu HÉR

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra ávarpar málþingið eftir að Björn Bjarki Þorsteinsson formaður SFV hefur opnað þingið. Í framhaldi af því verður boðið upp á þrjú spennandi erindi og pallborðsumræður um framtíðarsýn velferðarþjónustunnar:

- María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistuheimilanna

- Sandra Bryndísardóttir Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands

- Vilborg Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Alzheimersamtakanna

Pallborðsumræður.

 

Fundarstjóri er Gísli Einarsson.

 

Lesa meira...

Þrautseigja sjómanna

Í Morgunblaðinu föstudaginn 8. apríl sl. birtist eftirfarandi grein eftir Aríel Pétursson formann Sjómannadagsráð.

Þrautsegja sjómanna

Íslensk þjóð varðveitir nánast endalausar sögur um þrautseigju sjómanna sinna. Þær tengjast sjávarháska og björgunarstörfum jafnt sem veiðum og verðmætasköpun og öllu þar á milli. Hin aldna ímynd sjómannsins er gjarnan tengd hörkutólum sem kölluðu ekki allt ömmu sína, dugnaðarforkum sem sóttu björg í bú af harðfylgi og tefldu öryggi sínu jafnvel í tvísýnu með því að róa í vályndum veðrum.

Þessi hrjúfa mynd á sér þó aðra mýkri, rétt eins og að tvær hliðar eru á hverjum peningi. Þar hef ég í huga ríflega áttatíu ára sögu Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins og þá ákvörðun þess að hefja uppbyggingu dvalarheimilis fyrir aldraða sjómenn, eiginkonur þeirra og ekkjur. Þjóðin öll fylkti sér að baki verkefninu frá fyrsta degi og afrakstur þessa mikla hugsjónastarfs er vafalítið orðinn margfalt meiri en jafnvel bjartsýnustu frumkvöðlarnir létu sig dreyma um.

Þrautseigja sjómanna í þessu brýna þjóðþrifaverkefni hefur nefnilega ekki verið minni en í sókn þeirra á sæ í gegnum aldirnar. Að baki eru ófáir brimskaflar sem brotist hefur verið í gegnum en starfið engu að síður einkennst af því að stöðugt meira hefur verið færst í fang. Aldraðir njóta góðs af langt út fyrir raðir sjómanna og óháð fyrri störfum sínum eða stöðu. Í dag rekur Sjómannadagsráð höfuðborgarsvæðisins starfsemi sína á 96 þúsund fermetrum, veitir um 800 íbúum skjól á hjúkrunarheimilum sínum, þjónustar um 350 aðra íbúa í leiguíbúðum SDR og að auki mikinn fjölda fólks í eigin íbúðum í nágrenni þjónustukjarnanna. Félagið veitir um 1.500 manns atvinnu og veltir u.þ.b. 13 milljörðum króna á ári. Að baki Sjómannadagsráði standa stéttarfélög sjómanna á höfuðborgarsvæðinu. Það trausta eignarhald hefur aldrei í hinni löngu sögu félagsins greitt sér út arð heldur nýtt allan afgang frá rekstri í áframhaldandi uppbyggingu. Ekkert bendir til annars en að svo muni verða áfram um langa framtíð.

Starfsemi Hrafnistuheimilanna og annarrar þjónustu sem út frá henni hefur sprottið hefur þess vegna vaxið og dafnað jafnt og þétt. Velvild og traust landsmanna hefur í þeim efnum skipt miklu máli og sömuleiðis öflugur stuðningur sveitarfélaganna sem ávallt hafa lagt sitt af mörkum til þessarar mikilvægu starfsemi. Fyrir allt það góða samstarf verður seint fullþakkað.

En betur má ef duga skal. Á biðlistum eftir plássi á hjúkrunarheimili eru hundruðir aldraðra og veikra einstaklinga. Það er þjóðarskömm og fyrrnefndir brimskaflar hafa því miður oft tengst skilningsleysi eða forgangsröðun stjórnvalda. Margt bendir sem betur fer til þess að um þessar mundir blási fremur byrlega í sölum Alþingis hvað þann þátt varðar og það lag hyggjumst við nýta til hins ítrasta við frekari uppbyggingu og stækkun lífsgæðakjarna Sjómannadagsráðs.

Upphaflegt markmið sjómanna um örugga höfn á ævikvöldinu er óbreytt og verður án vafa áfram hið sama um langa framtíð. Valkostirnir hafa hins vegar breyst. Fjölbreytni er meiri en var og fullvíst má telja að sú þróun haldi áfram í krafti aukinnar þekkingar heilbrigðissviðsins í þjónustu við aldraða og ekki síður ráðstöfun frekara fjármagns til málaflokks aldraðra. Ekki veitir af enda öllum ljóst hve öldruðum á eftir að fjölga mikið á næstu árum vegna hækkandi lífaldurs landsmanna.

Í þessum efnum mun SDR ekki láta sitt eftir liggja. Hugsjónir sjómanna um áhyggjulaust ævikvöld að löngum og ströngum vinnudegi loknum hafa ekki breyst. Þeir eru staðráðnir í því að standa áfram í stafni fyrsta flokks þjónustu við aldraða Íslendinga og heita á þjóðina til áframhaldandi samstarfs og stuðnings. Í þeim efnum leika 63 þjóðkjörnir einstaklingar stórt hlutverk og full ástæða er til að eggja þá til dáða með öllum tiltækum ráðum.

Höfundur er formaður Sjómannadagsráðs.

 

Lesa meira...

Hrönn Ljótsdóttir kveður Hrafnistu eftir 37 fórnfús ár

Hrönn Ljótsdóttir, forstöðumaður Hrafnistu Ísafold í Garðabæ, líkur formlega störfum fyrir Sjómannadagsráð þann 1. maí eftir 37 ára fórnfúst og gott starf í forystusveit Hrafnistuheimilanna. Stjórn Sjómannadagsráðs kvaddi Hrönn með virktum á dögunum áður en hún brá sér í stutt en langþráð frí með eiginmanni sínum. „Undanfarin tvö ár hafa verið geysilega þung vegna veirunnar og satt að segja hélt ég að við ættum aldrei eftir að upplifa þann dag að loka yrði heimilunum fyrir gestum og í raun setja íbúa okkar í einangrun frá ástvinum og aðstandendum eins og gert var þegar verst lét og margt fólk veiktist. Því miður reyndist þetta nauðsynlegt,“ segir Hrönn sem hóf störf hjá Hrafnistu við Hraunvang í Hafnarfirði árið 1985, þá nýútskrifuð sem sjúkraliði frá Sjúkraliðaskóla Íslands. „Við áttum þá tvær dætur sem báðar fengu inni í leikskólanum Krummakoti sem Hrafnista rak innan veggja heimilisins og það var yndislegt. Andinn þar var eins og börnin væru í pössun hjá ömmu. “Hrönn segir að mjög sterk liðsheild hafi einkennt starfsandann á heimilinu enda starfsmannavelta þar lítil sem engin. „Þetta var mjög þéttur og góður hópur sem leiddi til mikillar vináttu meðal margra starfsmanna. Við erum til að mynda tíu konur sem höfum haldið saman í vinkvennahópi alla tíð síðan 1985 og við gerum reglulega eitthvað skemmtilegt saman. Það gera eiginmenn okkar líka, þeir fara árlega saman í kallaferð í sumarbústað. “Hrönn segist aldrei hafa ætlað að starfa í öldrun og séð sjúkraliðanámið sem leið til annarra verka. „En ég var í átján ár á Hrafnistu í Hafnarfirði og hef æ síðan starfað við málaflokkinn. Ég hefði ekki gert það hefði þetta ekki verið góður vinnustaður,“ segir Hrönn sem lauk fjögurra ára námi í félagsráðgjöf vorið 1996. „Ég var á meðan í íhlaupavinnu á Hrafnistu, m.a. í ráðningum sumarstarfsfólks og fleira og kom svo aftur í fullt starf að lokinni útskrift þegar formlega var stofnuð staða félagsráðgjafa þar sem ég fékk frjálsar hendur um þróun þess. Við settum m.a. á stofn starfsmannaskólann Öldubrjót þar sem fjölbreytt störf á hjúkrunarheimili voru kynnt. Einnig vorum við með samfélagskennslu sem einkum var sniðin að erlendu starfsfólki, þar sem Mímir sá m.a. um íslenskukennslu. Þetta var á þeim tíma sem mjög erfitt var að fá starfsfólk til starfa. Við auglýstum skólann og fengum mjög margar umsóknir. Skólinn starfaði um tíma og sú hugmynd hefur komið upp að endurvekja hann enda vakti Öldubrjótur mikla athygli og hlaut fleiri en eina viðurkenningu. Við settum einnig á fót dagendurhæfingu, endurhæfingarrými með innlögn, hvíldarendurhæfingu á Hrafnistuheimilunum fjórum sem þá voru við Brúnaveg í Reykjavík, Hafnarfirði, Víðinesi og Vífilsstöðum. Tveimur síðast töldu heimilunum var svo lokað þegar Hrafnista tók við rekstri nýs hjúkrunarheimilis í Boðaþingi í Kópavogi í mars árið 2010, þar sem Hrönn var ráðin forstöðumaður. „Ég var þar í fjögur ár, eða þar til Hrafnista tók að sér rekstur Nesvalla í Reykjanesbæ og tók í kjölfarið við rekstri Hlévangs. Þar var ég í þrjú ár og tók þá við rekstri Ísafoldar 2017 þegar samið var við Sjómannadagsráð um að Hrafnista tæki að sér reksturinn,“ segir Hrönn sem telur góðan tíma til að staldra við og hægja aðeins á. „Ég lofaði mér því eiginlega fyrir nokkrum árum að ég skyldi gera það þegar ég yrði sextug sem ég varð 6. apríl, en við Ísafold deilum sama afmælisdegi. “Hrönn segir alls óráðið hvað hún taki sér fyrir hendur að loknu fríi. „Ég ætla alla vega að byrja á því að taka það rólega í sumar, sinna barnabörnunum, kannski garðinum og svona. Þetta kemur allt í ljós, en svo mikið er víst að Ísafold er í góðum höndum. Hér er mjög heilsteyptur og lausnamiðaður starfsmannahópur sem ég dáist af, þar á meðal arftaka mínum hér, Söru Pálmadóttur. “

 

Meðfylgjandi mynd var tekin þegar stjórn Sjómannadagsráðs þakkaði Hrönn fyrir óeigingjarnt og fórnfúst starf í gegnum tíðina í þágu Sjómannadagsráðs og Hrafnistu. Með Hrönn á myndinni eru frá vinstri Guðmundur Helgi Þórarinsson, Sigurður Ágúst Sigurðsson, Árni Sverrisson, Sigurður Ólafsson, Aríel Pétursson og Jónas Garðarsson.

 

Lesa meira...

Síða 2 af 161

Til baka takki