Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Starfsfólk Hrafnistu er lykillinn að farsælum rekstri Hrafnistu. Sem leiðandi aðili í þjónustu og umönnun aldraðra er stjórnendum og starfsfólki annt um velferð allra þeirra sem starfað er fyrir og með. Metnaður, þekking, reynsla, frumkvæði og ánægja starfsfólks Hrafnistu tryggir gæði þeirrar þjónustu sem veitt er. Markmið mannauðsstefnunnar er að móta starfsumhverfi og aðstæður sem stuðla að vellíðan starfsfólks og hvetja það til aukins árangurs í starfi. Í sameiningu skapar starfsfólk jákvætt og hvetjandi vinnuumhverfi. Með því að stuðla að góðum starfsanda og vellíðan starfsfólks mótar Hrafnista eftirsóknarverðan vinnustað.
 
Starfsmannaval og móttaka nýliða 
 
Hrafnista leggur áherslu á að fá til liðs við sig öflugt, traust og metnaðarfullt starfsfólk með fjölbreyttan bakgrunn. Við ráðningu nýrra starfsmanna er horft til jafnréttis, færni, menntunar og reynslu umsækjanda og hæfni í mannlegum samskiptum. Við ráðningar er unnið eftir skilgreindu og faglegu verklagi til að tryggja faglega ráðningu. Mannauðssvið heldur utan um ráðningar og tryggir að faglegu verklagi sé fylgt. Lögð er áhersla á að taka vel á móti nýju starfsfólki. Með því er tryggt að starfsfólk komist hratt og örugglega inn í starfið, viti til hvers er ætlast af þeim og læri á þau verkfæri og vinnubrögð sem þarf til að ná árangri. Áhersla er lögð á að hverjum starfsmanni sé ljóst hvert sé hans hlutverk og ábyrgðarsvið samkvæmt starfslýsingu.
 
Starfsumhverfi og heilsa 
 
Leitast er við að bjóða starfsfólki Hrafnistu upp á öruggt og heilbrigt vinnuumhverfi sem uppfyllir grundvallarkröfur til vinnuverndar og vellíðunar. Áhersla er lögð á hvetjandi starfsumhverfi, að góður starfsandi, góð samvinna, opin samskipti og gagnkvæmt traust sé á meðal starfsfólks. Jafnframt er lögð áhersla á að starfsfólk sýni hvert öðru fyllstu tillitssemi og virðingu í öllum samskiptum. Einelti, áreitni og ofbeldi er ekki liðin á Hrafnistu. Markmið Hrafnistu er að stuðla að heilsusamlegu líferni starfsfólks, bæði andlegu og líkamlegu. Stutt er við markmiðið með fjölbreyttum hætti, s.s. með ávöxtum á öllum deildum fyrir starfsfólk og veitingu heilsuræktar- og samgöngustyrkja. Einnig leggur Hrafnista sitt af mörkum við að halda uppi góðu félagslífi með því að taka þátt í ýmsum viðburðum á borð við Lífshlaupið og Hjólað í vinnuna til að styrkja samstöðu starfsmanna.
 
Starfsþróun og fræðsla 
 
Hrafnista leggur áherslu á að starfsfólk fái tækifæri til starfsþróunar og er það hvatt til að sækja sér símenntun. Mikil áhersla er lögð á að bjóða nýtt starfsfólk velkomið með öflugri nýliðafræðslu og rafrænu fræðslukerfi Hrafnistu „Hrafnistuskólinn“. Boðið er upp á vinnuumhverfi sem stuðlar að því að hæfileikar hvers starfsmanns fái notið sín og tækifæri eru til að vaxa og þroskast í starfi. Starfsmenn fá tækifæri og eru hvattir til að tileinka sér nýjar hugmyndir, tækni og aðferðir sem tengjast starfsvettvangi þeirra. Stuðlað er að markvissri símenntun og öflugu fræðslustarfi.
 
Jafnrétti 
 
Áhersla er lögð á jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Auk þess skal gæta jafnréttis allra starfsmanna án mismunar á grundvelli kynferðis, aldurs, kynhneigðar, trúarbragða, skoðana, þjóðernis, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti sem lítilsvirðir eða misbýður einstaklingi sem fyrir henni verður. Hrafnista stuðlar að jafnrétti og vinnur eftir jafnréttisstefnu og aðgerðaráætlun jafnréttismála. Samkvæmt lögum á slík áætlun að fjalla um launajafnrétti, laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og kynbundið ofbeldi, kynbundið áreiti og kynferðislega áreitni. Stjórnendur Hrafnistu fylgja jafnréttisstefnu og vinna stöðugt að jafnrétti innan stofnunarinnar.
 
Upplýsingaflæði 
 
Starfsemi Hrafnistu byggir á skilvirku upplýsingaflæði og stuðst er við möguleika upplýsingatækninnar í eins ríkum mæli og unnt er. Starfsfólk ber einnig sjálft ábyrgð á að leita sér upplýsinga eftir þörfum hverju sinni. Miðlun upplýsinga og þekkingar er skilvirk og það er á ábyrgð alls starfsfólks að miðla viðeigandi upplýsingum og þekkingu sín á milli. Stefnt skal að því að allt starfsfólk hafi aðgengi að upplýsingum í gegnum innri vef Hrafnistu og Workplace sem er þáttur í því að stytta boðleiðir á milli starfsmanna.
 
Gæða og umbótastarf
 
Lögð er áhersla á að efla gæði og öryggi þjónustunnar sem veitt er á Hrafnistu. Heilbrigðissvið Hrafnistu tryggir að á Hrafnistu sé stöðugt verið að vinna eftir ströngustu gæðakröfum ásamt því að fagleg þróun sé viðvarandi. Jafnframt styður sviðið við faglegt starf á Hrafnistu í þeim tilgangi að efla fagþekkingu starfsmanna og styðja frumkvæði í gæðastarfi. Heilbrigðissvið Hrafnistu heldur einnig utan um gæðahandbók Hrafnistu sem inniheldur stefnur og verklagsreglur sem tryggja bestu mögulegu þjónustu við annars vegar íbúa Hrafnistu og hins vegar gesti í skammtímarýmum. Auk þess tryggja verklagsreglurnar rétt viðbrögð á réttum tíma og eru því mikilvægur stuðningur við starfsmenn. Á Hrafnistu er notast við gæðaviðmið frá Embætti landlæknis sem koma fram í gæðavísum í RAI-mati og gefa þeir vísbendingu um þá þjónustu sem Hrafnistuheimilin veita sínum íbúum. Á Hrafnistu er unnið markvisst með ofangreinda gæðavísa í þeim tilgangi að veita íbúum bestu mögulegu þjónustu. Heilbrigðissvið Hrafnistu starfrækir 19 gæðahópa og teymi en tilgangur þeirra er að efla gæði og öryggi á Hrafnistu. Mannauðsdeild Hrafnistu gerir reglulega vinnustaðagreiningar, markmið þeirra er að kortleggja núverandi stöðu svo bregðast megi við og nýta niðurstöður til framfara og aukins árangurs. Með vinnustaðagreiningu eru könnuð viðhorf starfsfólks til lykilþátta í starfseminni eins og miðlun upplýsinga, samskipti á vinnustað, tækifæri til starfsþróunar, starfsánægju, stjórnunarhætti og ímynd vinnustaðarins út á við.
 
Stjórnun og forysta 
 
Stjórnskipulag Hrafnistu einkennist af stuttum og skýrum boðleiðum. Starfað er samkvæmt samþykktu skipuriti og starfslýsingum, þannig að hver og einn þekkir hlutverk og ábyrgðarsvið sitt. Lögð er áhersla á skýra verkferla og virka upplýsingagjöf til allra starfsmanna og að starfsfólk hafi gott aðgengi að stjórnendum. Stjórnendur þurfa að búa yfir leiðtogahæfni og sýna fagmennsku í starfi sínu. Stjórnendum ber að tileinka sér vandaða og nútímalega stjórnunarhætti. Mikilvægt er að skipuleggja og stjórna eftir aðstæðum, þróa með sér jákvætt viðhorf, virkja starfsfólk, hvetja, veita stuðning og dreifa ábyrgð og verkefnum til að ná árangri. Stjórnendafræðsla er í boði fyrir alla stjórnendur og er stjórnendahandbók aðgengileg á innri vefnum.
 

 

Jafnlaunastefna 

Það er stefna Hrafnistu að vinna stöðugt að jafnrétti innan fyrirtækisins og að laun og önnur kjör séu samkeppnishæf við sambærileg störf á markaði. Forsendur launaákvarðana eru að þær séu í samræmi við kjara- og stofnanasamninga og stefnu Hrafnistu í launamálum. 
 
Hrafnista skuldbindur sig til þess að innleiða, skjalfesta og viðhalda jafnlaunakerfi í samræmi við kröfur ÍST 85:2012 staðalsins. Hrafnista hefur innleitt verklag og skilgreint launaviðmið til að tryggja að starfsfólk fái greitt fyrir störf sín út frá verðmæti starfa óháð kyni eða öðrum ómálefnalegum sjónarmiðum.
 
Hrafnista skuldbindur sig til að fara eftir viðeigandi lögum, reglum og kjarasamningum sem gilda á hverjum tíma.
 
Stefna þessi er kynnt starfsmönnum og er þeim aðgengileg í Gæðahandbók.
 

Jafnréttisstefna

Jafnréttisstefna Hrafnistu er unnin í samræmi við lög um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla nr. 10/2008. Hrafnista leggur mikla áherslu á að konur og karlar njóti jafnréttis innan fyrirtækisins og að starfsmenn hafi jöfn tækifæri óháð kyni. Með þessu nýtir Hrafnista mannauðinn á sem bestan hátt og fer eftir lögum.
 
Hrafnista stuðlar að jafnrétti og vinnur eftir meðfylgjandi jafnréttisstefnu og aðgerðaráætlun jafnréttismála. Samkvæmt lögum á slík áætlun að fjalla um launajafnrétti, laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og kynbundið ofbeldi, kynbundið áreiti og kynferðislega áreitni. Stjórnendur Hrafnistu fylgja jafnréttisstefnu þessari og vinna stöðugt að jafnrétti innan fyrirtækisins.
 
1. Karlar og konur sem starfa hjá Hrafnistu fá greidd sömu laun og sömu kjör fyrir sömu störf.
2. Allir eiga jafna möguleika til starfa hjá Hrafnistu, óháð kyni.
3. Allir starfsmenn, sama hvaða störfum þeir gegna hjá Hrafnistu, eiga jafna möguleika til endurmenntunar, símenntunar og þeirrar starfsþjálfunar sem þeir þarfnast til að auka færni sína í starfi.
4. Stjórnendur skulu skipuleggja störf og verkefni þannig að starfsmenn geti sem best samræmt vinnu og einkalíf.
5. Einelti, fordómar og kynbundin eða kynferðisleg áreitni eru ekki liðin innan Hrafnistu.
 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur