Top header icons

COVID spurt og svarað Hrafnista á Facebook
 


Upplýsingar

Markmið mannauðsdeildarinnar er að veita starfsmönnum og stjórnendum Hrafnistu stuðning og þjónustu í mannauðstengdum málum ásamt því að veita utanaðkomandi aðilum upplýsingar um ýmis starfsmannamál. Túlkun kjarasamninga, ráðningar og fræðslumál eru meginverkefni deildarinnar. Mannauðsdeildin er opin frá kl. 13:00 - 14:00 alla virka daga. Hægt er að vera í sambandi við starfsmenn deildarinnar í gegnum skiptiborð 585 9500 eða í gegnum netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Á deildinni starfa mannauðsstjóri og sérfræðingar í mannauðsmálum.

Mannauðsstjóri er Jakobína H. Árnadóttir. 

Að vinna á Hrafnistu

Á Hrafnistuheimilunum starfa um 1500 manns, 50 - 300 manns á heimili (misjafnt eftir stærð heimila), og algengt er að á heimilunum starfi tvær eða þrjár kynslóðir starfsmanna. Talsvert er um að ungt fólk hefji störf í sumarafleysingum og vinni með skóla á veturna og fari síðan í heilbrigðistengt nám. Þekking, reynsla, frumkvæði og ánægja starfsmanna Hrafnistu tryggir gæði þeirrar þjónustu sem veitt er. Í sameiningu skapa starfsmenn og heimilið opið og hvetjandi umhverfi. 

Lögð er áhersla á heilsurækt starfsmanna og  heimilin styrkja starfsmenn um kr. 10.000,- á ári til heilsuræktar. Mikil samkennd er meðal starfsmanna og starfsmannafélagið er öflugt. Hrafnista styrkir starfsmannafélögin myndarlega til þess að auka ánægju starfsmanna. Starfsmannafélagið býður upp á reglulega dagskrá allan ársins hring. Má þar nefna gönguferðir, jólabingó, jólamat auk þess sem starfsmönnum er boðið í Laugarásbíó tvisvar á ári. 

 

Störf í boði

Smelltu hér til að sjá störf í boði.

 
 
 

Mannauðsstefna 

Sem leiðandi aðili í þjónustu og umönnun aldraðra er stjórnendum og starfsmönnum Hrafnistu annt um velferð allra þeirra sem starfað er fyrir og með. Þekking, reynsla, frumkvæði og ánægja starfsmanna Hrafnistu tryggir gæði þeirrar þjónustu sem veitt er. Í sameiningu skapa starfsmenn og heimilið opið og hvetjandi starfsumhverfi. 

Ráðningar og val

Störf við Hrafnistu skulu vera eftirsóknarverð. Val nýrra starfsmanna Hrafnistu tekur ávallt mið af færni, menntun og reynslu umsækjanda og hæfni í mannlegum samskiptum. Leitast skal við að tryggja þann mannafla sem er nauðsynlegur hverju sinni. Starfsmönnum er ekki mismunað eftir kyni, aldri, kynþætti eða öðrum þáttum við ráðningu, í starfi eða öðrum samskiptum við Hrafnistu.

Starfsþroski

Boðið er upp á vinnuumhverfi sem stuðlar að því að hæfileikar hvers starfsmanns fái notið sín. Starfsmenn eru hvattir til góðra verka, njóta góðs af virkri þátttöku og fá tækifæri til að vaxa og þroskast í starfi.

Skipulag

Stjórnskipulag Hrafnistu einkennist af stuttum og skýrum boðleiðum og starfað er samkvæmt samþykktu skipuriti og starfslýsingum, þannig að hver og einn þekkir hlutverk og ábyrgðarsvið sitt.

Símenntun

Starfsmönnum er tryggð viðunandi þjálfun og kynning í upphafi nýs starfs. Starfsmenn fá tækifæri og eru hvattir til að tileinka sér nýjar hugmyndir, tækni og aðferðir sem tengjast starfsvettvangi þeirra. Stuðlað er að markvissri símenntun og öflugu fræðslustarfi.

Vinnuumhverfi

Leitast er við að bjóða starfsmönnum Hrafnistu upp á öruggt og heilbrigt vinnuumhverfi sem uppfyllir grundvallarkröfur til vinnuverndar og vellíðunar.

Upplýsingamiðlun

Starfsemi Hrafnistu byggir á skilvirku upplýsingaflæði og stuðst er við möguleika upplýsingatækninnar í eins ríkum mæli og unnt er. Starfsmenn bera einnig sjálfir ábyrgð á að leita sér upplýsinga eftir þörfum hverju sinni. 

Gæða- og umbótastarf

Starfsmenn eru hvattir til að taka virkan þátt í mótun starfsumhverfis Hrafnistu og eiga frumkvæði að umbótum. Krafa er gerð til starfsmanna um að hámarka gæði þjónustunnar. Lögð er áhersla á samvinnu starfshópa, opin samskipti og gagnkvæmt traust.

 

Jafnlaunastefna 

Jafnlaunastefna þessi nær til alls starfsfólks Hrafnistuheimilanna og ber mannauðsstjóri Hrafnistu ábyrgð á jafnlaunastefnunni. Hrafnista gætir fyllsta jafnréttis við ákvörðun launa og annarra starfskjara. Allir starfsmenn fá greidd jöfn laun og njóta sambærilegra starfskjara fyrir jafnverðmæt störf. Forsendur launaákvarðana eru að þær séu í samræmi við kjara- og stofnanasamninga og stefnu Hrafnistu í launamálum. Það er stefna Hrafnistu að laun og önnur kjör séu samkeppnishæf við sambærileg störf á markaði.

Hrafnista skuldbindur sig til þess að innleiða, skjalfesta og viðhalda jafnlaunakerfi í samræmi við kröfur ÍST 85:2012 staðalsins. Hrafnista hefur innleitt verklag og skilgreint launaviðmið til að tryggja að starfsfólk fái greitt fyrir störf sín út frá verðmæti starfa óháð kyni eða öðrum ómálefnalegum sjónarmiðum.

Markmið Hrafnistu er að hæfir starfsmenn veljist til starfa og þeir hafi metnað til að takast á við þau verkefni sem bíða úrlausnar.

Til þess að framfylgja jafnlaunastefnunni skuldbindur Hrafnista sig til að:

 • Innleiða, skjalfesta og viðhalda jafnlaunakerfi í samræmi við kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012 og öðlast vottun í samræmi við lög nr. 56/2017 um jafnlaunavottun
 • Vinna að stöðugum umbótum, eftirliti og viðbrögðum í samræmi við kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012
 • Fylgja öllum viðeigandi lögum, reglum og kjarasamningum sem gilda á hverjum tíma og staðfesta hlítingu við lög
 • Framkvæma innri úttektir og rýni stjórnenda árlega
 • Framkvæma launagreiningu að minnsta kosti árlega þar sem jafnverðmæt störf eru borin saman til að tryggja að kynbundinn launamunur sé ekki til staðar. Helstu niðurstöður skulu kynntar fyrir starfsfólki
 • Bregðast við óútskýrðum launamun með stöðugu eftirliti og umbótum þar sem þess er þörf
 • Kynna jafnlaunastefnu fyrir starfsfólki og hafa hana aðgengilega

Forstjóri Hrafnistu ber ábyrgð á jafnlaunakerfi Hrafnistu og að það standist lög og alþjóðlegar skuldbindingar varðandi jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Mannauðsstjóri er ábyrgur fyrir innleiðingu og viðhaldi jafnlaunakerfis í samræmi við ÍST 85:2012 staðalins. Einnig er mannauðsstjóri ábyrgur fyrir að stjórnendur sem koma að launaákvörðunum hjá Hrafnistu séu vel upplýstir um jafnlaunakerfið, verklagsreglur því tengdu sem og lögum og reglum sem gilda í jafnlaunamálum.

Stefna þessi er kynnt starfsmönnum og er þeim aðgengileg inn á innri og ytri vef Hrafnistu.

Samþykkt í framkvæmdaráði Hrafnistu. 

                                                                                                                                                                                                                                                               Reykjavík 8. janúar 2020.

 

Jafnréttisstefna

Jafnréttisstefna Hrafnistu er unnin í samræmi við lög um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla nr. 10/2008. Hrafnista leggur mikla áherslu á að konur og karlar njóti jafnréttis innan fyrirtækisins og að starfsmenn hafi jöfn tækifæri óháð kyni. Með þessu nýtir Hrafnista mannauðinn á sem bestan hátt og fer eftir lögum.

Hrafnista stuðlar að jafnrétti og vinnur eftir meðfylgjandi jafnréttisstefnu og aðgerðaráætlun jafnréttismála. Samkvæmt lögum á slík áætlun að fjalla um launajafnrétti, laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og kynbundið ofbeldi, kynbundið áreiti og kynferðislega áreitni. Stjórnendur Hrafnistu fylgja jafnréttisstefnu þessari og vinna stöðugt að jafnrétti innan fyrirtækisins.

 1. Karlar og konur sem starfa hjá Hrafnistu fá greidd sömu laun og sömu kjör fyrir sömu störf.
 2. Allir eiga jafna möguleika til starfa hjá Hrafnistu, óháð kyni.
 3. Allir starfsmenn, sama hvaða störfum þeir gegna hjá Hrafnistu, eiga jafna möguleika til endurmenntunar, símenntunar og þeirrar starfsþjálfunar sem þeir þarfnast til að auka færni sína í starfi.
 4. Stjórnendur skulu skipuleggja störf og verkefni þannig að starfsmenn geti sem best samræmt vinnu og einkalíf.
 5. Einelti, fordómar og kynbundin eða kynferðisleg áreitni eru ekki liðin innan Hrafnistu.

Framkvæmdaráð Hrafnistu ber ábyrgð á framgangi jafnréttismála innan Hrafnistu. Ráðið ber ábyrgð og staðfestir að árleg endurskoðun jafnréttisstefnu og aðgerðaráætlunar í jafnréttismálum hafi farið fram. Framkvæmd aðgerðaráætlunar er á ábyrgð mannauðsstjóra og stjórnenda. Framkvæmdaráð veitir mannauðsstjóra og stjórnendum aðhald í vinnu þeirra við áætlunina þannig að farið sé eftir markmiðum hennar.

Hlunnindi

 • Hrafnista styrkir starfsmenn um kr. 10.000,- á ári til heilsuræktar
 • Hrafnistuhátíð er haldin á vorin. Þá halda starfsmannafélög allra heimila og Hrafnista sameiginlega skemmtun með mat og dansleik.
 • Hrafnista styrkir starfsmannafélögin verulega.  Þar er eitthvað í gangi allan ársins hring.  Má þar nefna gönguferðir, frítt í Laugarásbíó tvisvar á ári, jólabingó og jólamatur, haustfagnað o.fl.
 • Starfsmenn eru heiðraðir fyrir starfsaldur hjá Hrafnistu, fyrst eftir þriggja ára starfsaldur, því næst eftir fimm ára starfsaldur og svo á fimm ára fresti.
 • Lögð er áhersla á að mennta starfsmenn og boðið er upp á öfluga innanhússfræðslu, styrki til náms og stutt leyfi.
 • Deildirnar fá ákveðna upphæð á hverju ári til að efla starfsmannahópinn.

 

Starfsafmælisgjafir Hrafnistu

3 ára - Konfektkassi (800 gr)

5 ára - Gjafakort í leikhús fyrir tvo

10 ára - Út að borða gjafabréf að upphæð kr. 25.000

15 ára - Gjafakort í Kringluna 30.000

20 ára - Gjafakort í Kringluna 35.000

25 ára - Gjafakort í Kringluna 40.000

30 ára - Gjafakort í Kringluna 60.000

35 ára - Gjafakort í Kringluna 70.000

40 ára - Gjafabréf fyrir utanlandsferð 110.000

45 ára - Gjafabréf fyrir utanlandsferð kr. 350.000

50 ára - Gjafabréf fyrir utanlandsferð kr. 350.000

 

Á stórafmælum starfsfólks er gefið 10.000 kr. gjafabréf (30 ára – 40 ára – 50 ára – 60 ára og 70 ára).

 

 

 

 

 
 
 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur