Mikilvægur þáttur í ánægjulegu ævikvöldi er að hugað sé að einstaklingsþörfum heimilismanna. Þarfir aldraðra fyrir þjónustu eru jafn misjafnar eins og þeir eru margir og hlúa þarf vel að þeim. Margvísleg þjónusta er í boði fyrir aldraða á Hrafnistuheimilunum sem hentar mismunandi þörfum þeirra. Þeir fá jafnframt margvíslega félagslega hvatningu og aðstoð til þess að takast á við lífið. Einnig er boðið upp á margvíslega endurhæfingu. Heimilin bjóða upp á mjög fjölbreytta þjónustu og hér má sjá þjónustuframboð heimilanna:
Hrafnista Laugarási, Reykjavík
Hrafnista Hraunvangi, Hafnarfirði
Hrafnista Nesvöllum, Reykjanesbæ
Hrafnista Hlévangi, Reykjanesbæ
Hrafnista Sléttuvegi, Reykjavík
Hjúkrunar- og læknisþjónusta
Hjúkrun
Á Hrafnistu starfa hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og starfsfólk við hjúkrun og umönnun allan sólarhringinn. Markmið hjúkrunar á Hrafnistu er að veita hjúkrun og umönnun eftir þörfum hvers og eins. Það er mikilvægt að styrkja heimilisfólk til sjálfshjálpar og auðvelda því að aðlagast breyttum aðstæðum. Markmið hjúkrunar er að tryggja vellíðan og öryggi heimilismanna og standa vörð um sjálfsímynd þeirra og sjálfsvirðingu. Einnig er mikilvægt að efla samvinnu og stuðning við fjölskyldur þeirra en þannig er stuðlað að ánægjulegu ævikvöldi.
Læknaþjónusta
Læknar eru á vakt á Hrafnistuheimilunum allan sólarhringinn. Almenn læknisþjónusta felur í sér eftirlit og móttöku á deildum ásamt því að sinna bakvakt allan sólarhringinn. Aðgengi að sérhæfðari læknisþjónustu er veitt innan eða utan heimilanna með tilvísun lækna. Hjúkrunarfræðingur á viðkomandi deild Hrafnistu annast milligöngu ef óskað er eftir að ná samband við lækni. Læknar Hrafnistu sinna öllum átta Hrafnistuheimilunum:
Hrafnistu Laugarási, Reykjavík
Hrafnistu Hraunvangi, Hafnarfirði
Hrafnistu Boðaþingi, Kópavogi
Hrafnistu Ísafold, Garðabæ
Hrafnistu Skógarbæ, Reykjavík
Hrafnistu Hlévangi, Reykjanesbæ
Hrafnistu Nesvöllum, Reykjanesbæ
Hrafnistu Sléttuvegi, Reykjavík
Veitt er fagleg þjónusta sem tekur mið að þörfum íbúanna og hefur jákvæð áhrif á lífsgæði fólks. Markmið læknisþjónustunnar er að stuðla að sem bestri líkamlegri og andlegri heilsu íbúa. Megin áhersla er lögð á að auka færni, sjálfstæði og lífsgæði einstaklingsins eftir leiðum læknisfræðinnar. Sú stefna og þau markmið eru í samræmi við markmið Hrafnistu um að vera leiðandi aðili í þjónustu og umönnun aldraðra.
Læknisþjónusta á Hrafnistuheimilunum á höfuðborgarsvæðinu er framkvæmd í samvinnu við Heilsuvernd.
Læknisþjónusta á Hrafnistuheimilunum í Reykjanesbæ er framkvæmd í samvinnu við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Eldhús
Hrafnista rekur tvö eldhús. Annað er á Hrafnistu Nesvöllum Reykjanesbæ sem þjónar Hrafnistu Nesvöllum og Hrafnistu Hlévangi, hitt er á Hrafnistu í Laugarási og þjónar það Hrafnistuheimilunum á höfuðborgarsvæðinu. Eldhúsið í Laugarási er eitt stærsta framleiðslueldhús landsins eftir viðamiklar endurbætur og stækkun upprunalega eldhússins á Hrafnistu í Laugarásnum í nóvember árið 2019. Upprunalega eldhúsið í Laugarásnum tók til starfa við vígslu heimilisins á Sjómannadaginn árið 1957.
Með stækkun eldhússins fóru framleiðsluafköst úr 850 í 1.800 skammta á sólarhring fyrir Hrafnistuheimilin sex á höfuðborgarsvæðinu. Gólfflötur eldhússins er í dag alls 1.050 fermetrar eftir tæplega 400 fermetra stækkun. Auk stækkunar og skipulagsbreytinga á nýtingu rýmisins voru nær öll tæki til starfseminnar endurnýjuð eins og nauðsynlegt var vegna aukinna framleiðsluafkasta.
Í eldhúsum Hrafnistuheimilanna er matreiddur fjölbreyttur heimilsmatur. Flest allt sérfæði sem þörf er á er eldað á Hrafnistu og leitast er við að maturinn henti sem flestum
Dagendurhæfing
Í dagendurhæfingu er áherslan lögð á markvissa endurhæfingarþjálfun hjá sjúkraþjálfurum og/eða iðjuþjálfa. Þjálfunin er veitt í samræmi við mismunandi þarfir einstaklinganna og stendur í mismunandi langan tíma. Dagendurhæfing er eingöngu í boði á Hrafnistu Laugarási í Reykjavík. Sjá nánar.
Dagþjálfun fyrir einstaklinga með heilabilun
Tilgangurinn með dagþjálfun fyrir einstaklinga með heilabilun er að styðja fólk til þess að geta búið sem lengst heima, viðhalda og/eða auka færni, rjúfa félagslega einangrun og létta undir með aðstandendum. Dagþjálfun felst m.a. í samverustundum, þar sem boðið er upp á upplestur, söng, félagsstarf ýmis konar, göngutúra, leikfimisæfingar, handavinnu og máltíðir svo að eitthvað sé nefnt. Starfsfólk deildarinnar leggur mikla áherslu á að eiga gott samband við aðstandendur skjólstæðinga sinna.
Á Hrafnistu Laugarási í Reykjavík er dagþjálfun fyrir 30 einstaklinga og á Hrafnistu Ísafold í Garðabæ er dagþjálfun fyrir 4 einstaklinga. Nánari upplýsingar má finna undir hvoru heimili fyrir sig.
Dagdvöl
Boðið er upp á dagdvöl á Hrafnistu Hraunvangi í Hafnarfirði, Hrafnistu Boðaþingi í Kópavogi, Hrafnistu Ísafold í Garðabæ og á Hrafnistu Sléttuvegi. Markmið dagdvalar er að viðhalda sjálfstæði einstaklingsins og rjúfa félagslega einangrun aldraðra. Með dagdvölinni er mögulegt að lengja þann tíma sem aldraðir geta búið heima. Einstaklingar koma að morgni og fléttast inn í það skipulagða starf sem fram fer á Hrafnistu og fara síðan aftur heim að kvöldi. Mismunandi þarfir einstaklinganna ráða mestu um hversu mikið þeir nýta dagdvölina.
Hvíldarinnlögn
Með hvíldarinnlögn er átt við tímabundna dvöl sem getur staðið í allt að 6 vikur á tólf mánaða tímabili. Markmið þjónustunnar er að gera öldruðum kleift að búa lengur á eigin heimili með því að viðhalda og auka lífsgæði þeirra með markvissu starfi og með því að veita aðstandendum stuðning og ráðgjöf. Meðan á hvíldarinnlögn stendur er lögð rík áhersla á styrkingu líkamlegra, andlegra og félagslegra þátta. Í hvíldarinnlögn njóta gestir allrar almennrar þjónustu sem Hrafnista býður íbúum heimilisins, þar með talið að taka þátt í almennu félagsstarfi og þeim viðburðum sem í boði eru.
Sjúkraþjálfun
Á Hrafnistuheimilunum er sjúkraþjálfun með tækjasal og þar starfa sjúkraþjálfarar, íþróttakennarar og aðstoðarfólk.
Sjúkraþjálfun
Markmið endurhæfingardeilda er að þjálfa, örva og viðhalda líkamlegri færni heimilisfólks. Einnig að endurhæfa eftir sjúkdóma og brot. Endurhæfingardeildir vinna að forvörnum með útvegun hjálpartækja og veita fræðslu um skófatnað, húsbúnað, o.fl. Íþróttakennarar sjá um hópleikfimi fyrir heimilisfólk og aðra sem nýta sér þá þjónustu. Þeir skipuleggja gönguferðir utandyra og hafa umsjón með púttæfingum og púttmótum.
Iðjuþjálfun og félagsstarf
Á Hrafnistu er öflugt og fjölbreytt félagsstarf. Fastir liðir eru m.a. upplestur, bingó, söngur og dans. Haldnar eru kvöldvökur, þorrablót og ýmsar aðrar skemmtanir. Margir góðir gestir koma í heimsókn með fræðslu og skemmtanir. Heimilismönnum er einnig boðið upp á lengri og skemmri ferðir, auk leikhúsferða. Markmið félagsstarfsins er að auka virkni heimilismanna og koma í veg fyrir einangrun. Einnig að örva samskipti og létta lund þeirra. Á vinnustofum heimilanna er mögulegt að leggja stund á margvísleg handverk undir handleiðslu leiðbeinenda.
Iðjuþjálfun
Flestum er það mikilvægt að hafa eitthvað fyrir stafni. Á Hrafnistu leitast iðjuþjálfar við að starfa einstaklingsmiðað þannig að þarfir hvers og eins séu hafðar að leiðarljósi, að viðkomandi hafi hlutverk og fái tækifæri til að njóta iðju sem hann hefur áhuga á hverju sinni. Þannig hefur þátttakan jákvæð áhrif á heilsu og vellíðan einstaklingsins. Markmið iðjuþjálfa er að efla færni einstaklinga og viðhalda þátttöku þeirra í því sem skiptir þá máli. Einnig að bjóða uppá fjölbreytta þjónustu við iðju og félagsstarf svo flestir geti fundið eitthvað við sitt hæfi og innan síns áhugasviðs. Áhersla er lögð á að aldraðir fái tækifæri til þess að taka þátt með því að aðlaga umhverfið, afþreyinguna eða með því að veita endurhæfingu í gegnum þá tómstundaiðju sem þeir hafa áhuga á.
Önnur þjónusta
Tannlæknaþjónusta
Öllum nýjum íbúum Hrafnistu á höfuðborgarsvæðinu og Reykjarnesi býðst að fara í skoðun á Tannlæknastofum sem Hrafnista er í samstarfi við. Einnig býðst öllum þeim sem ekki hafa tök á að sækja tannlæknaþjónustu utan heimilis að fá tannlæknaþjónustu inni á heimilinu. Eftir tannlæknatímann verða útbúnar leiðbeiningar um munnhirðu íbúans og mun starfsfólk á hjúkrunardeild fylgja þeim eftir. Einnig mun koma fram hvenær íbúinn þarf næst að koma í eftirlit og hvort þörf sé á meðferð. Umboðsmenn íbúa og aðstandenda og verkefnastjóri á heilbrigðissviði sjá til þess að kynna tannlæknaþjónustuna fyrir nýjum íbúum og aðstandendum. Verkefnastjóri heilbrigðissviðs sér um tímabókanir og veitir frekari upplýsingar. Senda skal fyrirspurnir á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Þeir íbúar sem eru í reglulegu eftirliti hjá sínum tannlækni halda því að sjálfsögðu áfram.
Hársnyrting
Hárgreiðslustofur eru reknar á öllum Hrafnistuheimilunum og hafa heimilismenn aðgengi að allri almennri hárþjónustu.
Fótaaðgerð
Á öllum Hrafnistuheimilunum eru reknar fótaaðgerðarstofur.
Verslunar og þjónustubor
Verslanir og þjónustuborð eru rekin á Hrafnistu Laugarási í Reykjavík, Hrafnistu Hraunvangi í Hafnarfirði og í þjónustumiðstöðinni Sléttunni Hrafnistu Sléttuvegi.
Bankaþjónusta
Á Hrafnistu Laugarási, Hraunvangi og á Sléttuvegi er hraðbanki.