Fréttasafn

Árlegur haustfagnaður á Hrafnistu Hraunvangi Hafnarfirði

 

Árlegur haustfagnaður Hrafnistu Hraunvangi í Hafnarfirði var haldinn hátíðlegur í hádeginu fimmtudaginn 7. október sl. Um veislustjórn sáu þeir Björgvin Franz og Þorgeir Ástvaldsson.

Aríel Pétursson, nýkjörinn formaður Sjómannadagsráðs, flutti erindi og Dansbandið sá um að halda uppi fjöri á ballinu sem fram fór eftir borðahaldið.

Mikil gleði var við völd enda langþráður draumur orðinn að veruleika að mega loksins koma saman og skemmta sér. Meðfylgjandi myndir voru teknar á haustfagnaðinum og eins og sjá má á myndunum skemmtu allir sér vel.

 

Lesa meira...

Árlegur haustfagnaður á Hrafnistuheimilunum

 

Þessa dagana fer hinn árlegi haustfagnaður fram á Hrafnistuheimilunum þar sem boðið er upp á kótilettur í raspi með öllu tilheyrandi og ís í eftirrétt. Í gær var haustfagnaður haldinn hátíðlegur í hádeginu á Hrafnistu Hlévangi í Reykjanesbæ, Hrafnistu Skógarbæ, Boðaþingi, á Ísafold, Sléttuvegi og í Hraunvangi.

Meðfylgjandi myndir eru frá haustfagnaði sem haldinn var á Hrafnistu Hlévangi og í Skógarbæ.

Á Hlévangi hélt Hjörleifur Már úr bandinu Heiður uppi góðri stemningu og spilaði og söng fyrir íbúa og margir tóku undir í söng.

Á Hrafnistu í Skógarbæ spilaði Guðrún Árný og söng fyrir íbúa á meðan skálað var í sherry og baileys.

 

Lesa meira...

Saliha Lirache 15 ára starfsafmæli á Hrafnistu

F.v. Ólafur, Særún, Saliha og Oddgeir.

 

Saliha Lirache, starfsmaður í eldhúsi á Hrafnistu í Laugarási,  hefur starfað á Hrafnistu í 15 ár. Um leið og við óskum henni til hamingju með áfangann er henni þakkað fyrir gott starf og þá tryggð sem hún hefur sýnt heimilinu.

Saliha Lirache fékk afhenta starfsafmælisgjöf frá Hrafnistu að þessu tilefni og var meðfylgjandi mynd tekin við það tækifæri.

Á myndinni eru frá vinstri: Ólafur Haukur Magnússon yfirmaður eldhússins, Særún Embla Kristmannsdóttir, Saliha Lirache og Oddgeir Reynisson framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Hrafnistu.

Særún Embla átti 3 ára starfsafmæli og fékk einnig afhenta starfsafmælisgjöf samkvæmt venju hér á Hrafnistu.

 

Lesa meira...

Ólöf Erna Arnardóttir 25 ára starfsafmæli á Hrafnistu

Ólöf Erna Arnardóttir, sjúkraliði á Ölduhrauni Hrafnistu Hraunvangi,  hefur starfað á Hrafnistu í 25 ár. Um leið og við óskum henni til hamingju með áfangann er henni þakkað fyrir gott starf og þá tryggð sem hún hefur sýnt heimilinu.

Ólöf Erna fékk afhenta starfsafmælisgjöf frá Hrafnistu að þessu tilefni og var meðfylgjandi mynd tekin við það tækifæri.

Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: Árdís Hulda Eiríksdóttir forstöðumaður Hrafnistu Hraunvangi, Hrönn Önundardóttir hjúkrunardeildarstjóri á Ölduhrauni, Ólöf Erna, Hrefna Ásmundsdóttir hjúkrunardeildarstjóri á Báruhrauni og María Fjóla Harðardóttir forstjóri Hrafnistu.

 

Lesa meira...

Frelsi til að velja

 

Í gær, miðvikudaginn 22. september, birtist í Fréttablaðinu grein eftir þau Sigurð Garðarsson framkvæmdastjóra Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins og Maríu Fjólu Harðardóttur forstjóra Hrafnistuheimilanna. Greinin ber yfirskriftina Frelsi til að velja og má lesa hér fyrir neðan.

Frelsi til að velja

Það er mikið fagnaðarefni að heilbrigðismálin skuli fá það vægi sem raun ber vitni í aðdraganda kosninga. Og það er líka fagnaðarefni að á því sviði skuli málefni öldrunarþjónustu fá sinn verðuga sess. Og ekki síst ber að fagna því að engum virðist lengur dyljast að blása þarf til stórsóknar á öllum vígstöðvum til þess að mæta þeim miklu áskorunum sem bíða okkar vegna lengri lífaldurs og um leið lengra ævikvölds. Það er bæði brýnt og ögrandi verkefni og þar mun vonandi sannast sem svo oft áður að margar hendur vinna létt verk.

Hjúkrunarheimilin og önnur öldrunarþjónusta sem Sjómannadagsráð og Hrafnistuheimilin reka vilja í þessum efnum leggja öflugt lóð á vogarskálarnar. Tilgangur allrar okkar starfsemi snerist strax í árdögum hennar um velferð og öryggisnet sjómanna og síðar almennings þegar hallaði að kveldi í lífi þeirra. Þar erum við enn í dag með rekstur hjúkrunarheimila okkar auk annarra búsetuúrræða og fjölbreyttrar þjónustu.

Nýafstaðið heilbrigðisþing dró upp skýra mynd af nýjum tímum, nýrri tækni, nýjum möguleikum og nýjum viðfangsefnum í þjónustu við aldraða. Sannindin voru e.t.v. ekki ný en þeim var safnað saman af vandvirkni og urðu um leið að enn einu þjóðarverkefninu sem enga bið þolir að ráðist verði í. Í því verki viljum við sem fyrr leggja allt sem við getum af mörkum.

Verðmætasta framlag okkar er vitaskuld sú reynsla og þekking sem safnast hefur upp í þá tæpu öld sem við höfum starfað. Þá erum við ekki að meina uppbyggingu og rekstur fasteigna, sem við þó sannarlega þekkjum, né heldur faglega þekkingu á þjónustu við aldraða og veika sem við höfum líka. Við eigum nefnilega í þriðja lagi falinn fjársjóð sem brennur í skinninu af löngun til þess að gera enn meira og enn betur: Starfsfólkið okkar. Það er reiðubúið til að takast á við fleiri viðfangsefni.

Enda þótt það kunni að þykja skrýtið í hraða og lífsgæðakapphlaupi nútímasamfélagsins þá er nefnilega sem betur fer til fólk sem á sér köllun í lífinu og fylgir henni. Ein slík er t.d. að vinna með börnum. Önnur að styðja við, hjúkra og líkna öldruðum á ævikvöldi þeirra. Þessu fólki fáum við seint fullþakkað – en vonandi fullborgað einn góðan veðurdag vegna þess að þetta eru störf sem í sjálfum sér beinlínis krefjast þess að vera metin að verðleikum. Engum getur dulist að við eigum þessu fólki skuld að gjalda.

Hjúkrunarheimili Hrafnistu eru með um 1.700 starfsmenn sem gefa sig af lífi og sál í verkefni sín á hverjum degi. Þeir hinir sömu hafa hlaupið hraðar síðustu ár til þess að halda uppi öryggi í þjónustu og þeir hafa líka komið út úr endalausum erfiðleikum og mótvindi Covid-faraldursins sem glæstir sigurvegarar. Við erum óendanlega stolt af þessu fólki og vitum bæði af þakklæti og aðdáun heimilismanna okkar og aðstandenda þeirra.

Einn af mörgum hornsteinum velferðarsamfélags okkar er frelsið til þess að leita sér menntunar og velja sér ævistarf við hæfi. Nákvæmlega hið sama á að gilda um ævikvöldið okkar. Enginn ágreiningur er um að fjölga þurfi heilsu- og búsetutengdum úrræðum fyrir aldraða og að kappkosta þurfi með öllum tiltækum ráðum að varðveita andlega heilsu þeirra og líkamlega ásamt því að tryggja þeim efnahagslegt heilbrigði. Þetta þrennt eru grunnþarfirnar – ofan á þær getum við svo töfrað fram fjölbreyttar lausnir nánast eins og á hlaðborði.

Og þá erum við komin að kjarna málsins. Hrafnista og Naustavör, dótturfélög Sjómannadagsráðs, vilja með öllum tiltækum ráðum koma að og styðja við aukna fjölbreytni í heilsu- og búsetuvalkostum aldraðra á ævikvöldi sínu. Við höfum í þeim efnum rutt ýmsum nýjungum braut í meira en fjóra áratugi og fjölgað búsetuúrræðum eldra fólks. Við viljum einfaldlega að hver og einn hafi frelsi til að velja það sem best hentar honum. Þann rétt má ekki taka af nokkrum manni og síst af öllu þeim sem komnir eru á efri ár.

Auðvitað verða hjúkrunarheimilin, í sinni stöðugu þróun, áfram til staðar og standa öldruðum opin sem örugg höfn. Það er ekki sjálfgefið að aldraðir eigi sér þann eina draum heitastan að dveljast sem lengst í eigin húsnæði og því þurfa að vera til aðrir valmöguleikar. Margir nýta sér nú þegar fjölbreyttari húsnæðiskosti á borð við þá sem Sjómannadagsráð býður, s.s. eignar eða leiguíbúðir í nágrenni þjónustukjarna hjúkrunarheimilanna, sérstakar stúdíóíbúðir, rúmgóð rými innan hjúkrunarheimilanna o.s.frv.

Á sama hátt þarf að virða og verja frelsi hvers og eins til þess að ákveða hversu mjög hann vill sinna færniþjálfun sinni, hreyfigetu o.s.frv. og sömuleiðis hvort félagslegir þættir á borð við að umgangast jafnaldra sína og jafningja, taka með þeim í spil og njóta samveru og samskipta við fólk í svipuðum aðstæðum skipti máli. Þar eigum við að hvetja alla til dáða en virða um leið ákvörðunarrétt þeirra gagnvart sínu eigin lífsmynstri. Sumir vilja e.t.v. aðallega fá að hvíla sig. Og stundum getur það líka verið bara fínt

 

Lesa meira...

Októberfest á Hrafnistu Hraunvangi

 

Hægt og rólega hefur félagslífið á Hrafnistuheimilunum verið að taka við sér eftir því sem Covid hefur látið undan. Til vitnis um það var Októberfest haldið hátíðlegt á Hrafnistu Hraunvangi sl. föstudag. Íbúar og starfsfólk skemmtu  sér konunglega og nutu þess að mega skemmta sér saman eftir krefjandi höft undanfarna mánuði. Hjördís Geirs og Dasbandið sáu um að halda fjörinu uppi. Boðið var upp á bjór og saltkringlur á barnum og starfsfólk klæddi sig upp í stíl við þemað eins og sjá má á meðfygjandi myndum.

 

Lesa meira...

Rafkisurnar Nói, Hlýja, Valli og félagar bæta mannlífið á Hrafnistu

 

Svokallaðar rafkistur eða meðferðarkisur hafa verið til staðar á Hrafnistuheimilunum nú um nokkurt skeið og hafa þær notið mikilla vinsælda meðal íbúa á Hrafnistu. Þessar kisur eru sérstaklega hannaðar fyrir einstaklinga með heilabilun. Þær mjálma, mala, lyfta loppunni, velta sér yfir á bakið og elska að láta klappa sér.

Kötturinn Valdimar, sem búið hefur á Hrafnistu í Boðaþingi frá árinu 2013 í góðu yfirlæti, hefur einnig tekið vel á móti rafkisunum sem búa með honum í Boðaþinginu. Hann kúrir oft með þeim eins og íbúar Hrafnistu gera jafnan einnig.

RÚV heimsótti Hrafnistu á Sléttuvegi í gær og ræddi við Elsu Björgu, deildarstjóra á Fossi sem sagði að rafkisurnar veittu íbúum mikla ánægju og góða nærveru. Sýnt var frá heimsókninni í fréttatímanum á RÚV í gærkvöldi. Hægt er að spila fréttina með því að smella HÉR

 

Nói, Hlýja, Valli og félagar bæta mannlífið á Hrafnistu

Tíu rafkettir eru til húsa á hjúkrunarheimili Hrafnistu á Sléttuvegi. Deildarstjóri segir að þeir séu góð viðbót á heimilið, þeir gleðji íbúa og veiti mikilvæga nærveru, einkum þeim sem eru með heilabilanir.

Elsa Björg Árnadóttir deildarstjóri á Fossi á Hrafnistu á Sléttuvegi segir rafkettina hafa vakið mikla lukku hjá heimilisfólki.  „Sérstaklega hjá þeim sem eru með heilabilun,“ segir Elsa. „Þetta veitir þeim svo mikla nærveru. Margir eru að glíma við félagslega einangrun.“

Rafkisurnar mjálma, hreyfa sig og mala þegar þeim er strokið. Þær eru í nokkrum litum og hafa allar fengið nöfn, fimm stráka- og fimm stelpunöfn. Í þessum fríða flokki eru Njáll, Tómasína, Valli, Tómas, Káta, Vigdís, Hlýja, Snjólfur, Snælda og Nói.

Kisurnar fá gjarnan að kúra í rúmum íbúa og þegar fer að hægjast á þeim er einfaldlega skipt um rafhlöðu. Þær eru meðfærilegri en gengur og gerist með ketti, hvorki klóra né fara á flakk. „Og enginn er með ofnæmi fyrir þeim, sem er stór kostur,“ segir Elsa.

Hún segir að með því að handfjatla rafkisurnar og heyra þær mala fái margir nauðsynlega örvun. „Þetta er þessi nærvera sem vantar oft. Það er alveg ótrúlegt að sjá marga, sem eru kannski að tjá sig lítið og sitja í hjólastólnum, að fá þessar kisur í fangið. Þá bara lifnar yfir þeim. Það er svo fallegt að sjá það.“

Þannig að kisurnar eru að gera gagn? „Algerlega. Við erum mjög lukkuleg með þessar tíu sem við eigum hér á Sléttuveginum.“

 

Lesa meira...

Heimsóknartakmörkunum aflétt á Hrafnistuheimilunum frá og með 15. september

 

Í ljósi stöðunnar í samfélaginu hefur Neyðarstjórn Hrafnistu ákveðið að létta verulega á þeim takmörkunum sem settar voru á í sumar. Bréf til íbúa og aðstandenda varðandi þessa afléttingu hefur verið sent út og má lesa HÉR

 

Kæru íbúar og aðstandendur.                                                                

Flestir íbúar Hrafnistu hafa fengið þriðja skammtinn af bóluefni við Covid-19. Samkvæmt sóttvarnaryfirvöldum er staðan á Íslandi varðandi heimsfaraldur Covid-19 á réttri leið. Þetta eru gleðifréttir og hefur Neyðarstjórn Hrafnistu ákveðið að aflétta allverulega þeim heimsóknartakmörkunum sem settar voru á í sumar.

Frá og með 15. september verða heimilin opnuð að nýju. Ekki verða takmarkanir á fjölda heimsóknargesta og aðstandendur hafa heimild til að vera í sameiginlegum rýmum deilda með íbúum og starfsfólki.

ATHUGIÐ að óbólusettir / hálfbólusettir starfsmenn, gestir og gangandi þurfa að vera með andlitsgrímur.

Hafið ávallt í huga:

Alls ekki koma í heimsókn ef:

  • Þú ert í sóttkví.
  • Þú ert í einangrun eða að bíða eftir niðurstöðu úr sýnatöku.
  • Þú hefur verið í einangrun og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift.
  • Þú ert með COVID-19 lík einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang, uppköst o.fl.).
  • Þú ert með einhver önnur almenn einkenni um veikindi.

Nú, sem ávallt þarf að muna að sýna ýtrustu varkárni og virða sóttvarnaráðstafanir í heimsóknum. Við þurfum öll að hafa í huga persónulegar sýkingavarnir s.s. handþvott og handsprittun.

Eins og áður er mikilvægt að vera meðvitaður um að veiran er enn til staðar í samfélaginu og verðum við öll að vera áfram á varðbergi. Ef smitum fjölgar í samfélaginu gæti Neyðarstjórn Hrafnistu þurft að grípa aftur til ákveðinna aðgerða og takmarkana.

Það er með gleði í hjarta sem við fögnum þessum áfanga.

 

Kær kveðja,

Neyðarstjórn Hrafnistu

 

Lesa meira...

Grímuskylda bólusettra afnumin á Hrafnistuheimilinum frá og með deginum í dag

 

Grímuskylda er afnumin á Hrafnistuheimilunum frá og með deginum í dag,

 13. september 2021.

 

ATHUGIÐ:

Þeir sem eru óbólusettir þurfa þó áfram að bera andlitsgrímur inn á heimilunum. Það á við um:

  • Starfsfólk
  • Ættingja
  • Gesti
  • Verktaka
  • Alla þá aðra sem hafa erindi inn á heimilin s.s. með vörur, póst.

Íbúar / hvíldargestir / gestir dagdvala og dagþjálfunar Hrafnistuheimilanna eru undanþegnir grímuskyldu þótt þeir séu ekki bólusettir, nema í undantekningartilfellum.

 

Bestu kveðjur,

Neyðarstjórn Hrafnistu

 

Lesa meira...

Síða 9 af 161

Til baka takki