Fréttasafn

Undirbúningur fyrir bólusetningar á Hrafnistuheimilunum í fullum gangi

 

Bréf til íbúa og aðstandenda á Hrafnistu föstudaginn 18. desember 2020.

 

Ágætu íbúar og aðstandendur.

 

Það er okkur sönn ánægja að tilkynna ykkur að nú  hyllir vonandi undir betri tíma hjá íbúum okkar. Von er á bóluefni við Covid til landsins og stefnt er að því að bólusetningar íbúa Hrafnistuheimilanna verði á milli hátíðanna, miðað við þær upplýsingarnar sem við höfum í dag. Undirbúningur fyrir bólusetningar á heimilunum er í fullum gangi.

Hjúkrunarfræðingar heimilanna munu fara í það að taka samtal við íbúa varðandi bólusetningar og veita þeim allar upplýsingar varðandi þær á næstu dögum.

Hver einstaklingur fær tvær bólusetningar og verður seinni bólusetningin 19-23 dögum eftir þá fyrri. Fylgjast verður með heilsufarsástandi íbúa eftir bólusetningu.

Þá daga sem íbúar heimilanna verða bólusettir verða heimilin lokuð fyrir heimsóknum og biðjum við aðstandendur að fylgjast vel með nánari upplýsingum á heimasíðu Hrafnistu (hrafnista.is) eða Facebook síðum deilda frá 28. desember, en þá ættu nákvæmar dagsetningar að liggja fyrir.

Með einlægri von um góða tíma yfir hátíðirnar.

 

Kærar þakkir fyrir samstöðuna.

Með kærri kveðju,

Neyðarstjórn Hrafnistu

 

 

Lesa meira...

Jocelyn A. Maglangit 10 ára starfsafmæli á Hrafnistu

F.v. Árdís Hulda, Jocelyn og Ronald.

 

Jocelyn A. Maglangit, starfsmaður í ræstingu Hrafnistu Hraunvangi í Hafnarfirði, hefur starfað á Hrafnistu í 10 ár. Um leið og við óskum henni til hamingju með áfangann er henni þakkað fyrir gott starf og þá tryggð sem hún hefur sýnt heimilinu.

 

Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: Árdís Hulda Eiríksdóttir forstöðumaður Hrafnistu Hraunvangi, Jocelyn og Ronald Andre deildarstjóri ræstingar í Hraunvangi.

 

Lesa meira...

Íbúar Hrafnistu þakklátir að heimilin séu varin yfir jólin

 

Rætt var við Maríu Fjólu Harðardóttur forstjóra Hrafnistu á vísir.is í dag en þar segir María Fjóla að íbúar Hrafnistu eru almennt þakklátir fyrir að þeir verði varðir yfir hátíðirnar eftir að yfirvöld mældu gegn því að íbúar hjúkrunarheimila dvelji hjá ættingjum yfir hátíðirnar.

Viðtalið í heild sinni  má lesa hér fyrir neðan:

Íbúar Hrafnistu þakklátir að heimilin séu varin yfir jólin

 

Einnig var rætt við Maríu Fjólu í kvöldfréttum RÚV nú í kvöld.

 

Lesa meira...

Þetta eru þung skref sem enginn vill í raun þurfa að taka, en eru nauðsynleg

 

Í dag birtist grein á visir.is eftir þær Önnu Birnu Jensdóttur framkvæmdastjóra Sóltúns, Eybjörgu Hauksdóttur framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja  í velferðarþjónustu og Maríu Fjólu Harðardóttur forstjóra Hrafnistu.

Í greininni er m.a. rætt um þær leiðbeiningar sem samstarfshópur Sóttvarnarlæknis, Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og heilbrigðisráðuneytisins hefur gefið út um að einungis sé opið fyrir heimsóknir frá einum til tveimur aðstandendum á dag á hjúkrunarheimilum um hátíðirnar. Þessar aðgerðir miðast allar fyrst og fremst við að vernda viðkvæman hóp íbúa hjúkrunarheimilanna. Einnig er mælt gegn því að íbúar hjúkrunarheimila fari í boð heim til ættingja á þessum tíma. „Þetta eru þung skref sem enginn vill í raun þurfa að taka, en eru nauðsynleg.“

Greinina í heild sinni má lesa hér fyrir neðan:

Hjúkrunar­heimilin og heim­sóknir um jólin

 

 

Lesa meira...

Auður Adólfsdóttir og Ína Skúladóttir hafa haldið tryggð við Hrafnistu í 35 ár

 

Þær Auður Adólfsdóttir og Ína Skúladóttir, sjúkraliðar á Bylguhrauni Hrafnistu Hraunvangi Hafnarfirði, hafa hvor um sig starfað á Hrafnistu í hvorki meira en minna en 35 ár! Um leið og við óskum þeim til hamingju með áfangann er þeim þakkað fyrir gott starf og þá tryggð sem þær hafa sýnt heimilinu.

 

Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: Árdís Hulda Eiríksdóttir forstöðumaður Hrafnistu Hraunvangi, Eyrún Pétursdóttir hjúkrunardeildarstjóri á Bylgjuhrauni, Auður og Ína ásamt Maríu Fjólu Harðardóttur forstjóra Hrafnistu.

 

Lesa meira...

Heimsóknarreglur Hrafnistu um jól og áramót

 

Ágætu íbúar og aðstandendur,

Það er eindregin ósk okkar að allir virði þær reglur sem hafa verið settar varðandi jól og áramót á Hrafnistuheimilunum, þessi ákvörðun er okkur þungbær en er tekin í kjölfar tilmæla sem Embætti landlæknis og sóttvarnaryfirvöld gáfu út til hjúkrunarheimila landsins í morgun.

Við sendum ykkur öllum okkar bestu óskir um gleðilega jólahátíð og horfum með bjartsýni til nýs árs með von um fleiri samverustundir á nýju ári.

Kærar þakkir fyrir samstöðuna.

Með kærri kveðju,

Neyðarstjórn Hrafnistu

 

HÉR má lesa bréfið sem sent var út til íbúa og aðstandenda í dag.

Lesa meira...

Aðventuvagn Þjóðleikhússins heimsótti íbúa á Hrafnistu Sléttuvegi

 

Aðventuvagn Þjóðleikhússins heimsótti íbúa á Hrafnistu Sléttuvegi síðastliðinn föstudag og flutti skemmtidagskrá sem nefnist „Samt koma jólin“. Er þetta eitt af þeim verkefnum sem Þjóðleikhúsið hefur boðið upp á nú í desember og felst í því að svokallaður aðventuvagn Þjóðleikhússins, ferðast um og færir fólki jólaandann.

Eins og segir á heimasíðu Þjóðleikhússins er það hópur listamanna Þjóðleikhússins sem keyrir um á sér útbúnum bíl og heimsækir staði þar sem fólk býr við einangrun vegna faraldursins. Fyrir utan húsin er flutt tuttugu mínútna skemmtidagskrá sem yljar og hlýjar á erfiðum tímum. Sungin eru jólalög úr ýmsum áttum, flutt eru jólakvæði og stuttur leikþáttur. Dagskrárinnar má njóta utan húss, á svölum og úr gluggum, en henni er jafnframt streymt fyrir þá sem ekki geta farið út, og geta þeir þá notið hennar af skjám innan dyra um leið og hún fer fram.

Aðventuvagninn hefur heimsótt meðal annars dvalarheimili, hjúkrunarheimili, þjónustuíbúðir og félagsmiðstöðvar aldraðra.

Hrafnistuheimilin eru meðal þeirra sem hafa þegið þetta höfðinglega boð Þjóðleikhússins og þökkum við leikhópnum kærlega fyrir þá skemmtun sem íbúar okkar hafa notið nú í desember.

Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar leikhópurinn heimsótti Hrafnistu Sléttuveg fyrir helgi.

Lesa meira...

Jólaundirbúningur á Hrafnistuheimilunum á aðventunni

 

Jólaundirbúningur er í fullum gangi á Hrafnistuheimilunum þessa dagana. Smákökubakstur með lokkandi ilm úr eldhúsinu, föndur, jólabingó, spil, heitt súkkulaði með rjóma, sherrýtár og notalegar samverustundir. Aðventuvagn Þjóðleikhússins hefur verið á ferðinni á milli Hrafnistuheimilanna og glatt íbúa okkar með jólasögum, söng og gleði.

Hrafnista er svo lánsöm að eiga marga ómetanlega velgjörðarmenn. Má þar m.a. nefna  Lionsmenn sem mættu galvaskir og  settu upp jólatré á Hrafnistu Hlévangi í Reykjanesbæ í lok nóvember. 

Hrafnista Ísafold í Garðabæ hefur átt farsælt samstarf við leikskólann Sjáland og á dögunum komu leikskólabörnin í heimsókn í garðinn á Ísafold og skreyttu jólatréð í garðinum með föndri sem þau voru sjálf búin að útbúa.

Í vikunni var svo Rauður dagur þar sem ölllum var boðið upp á jólamat og jólagjöfum var dreift til starfsmanna.

 

Meðfylgjandi myndir, sem teknar hafa verið á aðventunni á Hrafnistuheimilunum, tala sínu máli.

Lesa meira...

Óbreyttar heimsóknarreglur munu gilda á Hrafnistuheimilunum enn um sinn

 

Ágætu íbúar og aðstandendur,

Neyðarstjórn Hrafnistu* er þessa dagana að leggja lokahönd á heimsóknarreglur sem munu gilda um jól og áramót. Þær upplýsingar verða kynntar um leið og þær liggja fyrir.

 

 

 Neyðarstjórn Hrafnistu sitja aðilar úr Framkvæmdaráði Hrafnistu. Kallað er eftir ráðgjöf frá sérfræðingum og fleiri aðilum sem sitja fundi Neyðarstjórnar ef þörf þykir hverju sinni. Netfang neyðarstjórnar er neydarstjorn@hrafnista.is

 

 

Lesa meira...

Síða 11 af 153

Til baka takki