Fréttasafn

Barnakór Vídalínskirkju í heimsókn á Hrafnistu

 

Barnakór Vídalínskirkju söng fyrir íbúa og starfsfólk á Hrafnistu í Hraunvangi í Hafnarfirði og á Hrafnistu Ísafold í Garðabæ þann 16. júní. Börnin sungu dásamlega og lagavalið var skemmtilegt. Þau Jóhanna Guðrún og Davíð leiddu kórinn og í lokin söng Jóhanna „Heyr mína bæn“ og vakti það mikla ánægju meðal áhorfenda. Við þökkum þeim kærlega fyrir komuna.

 

 

Lesa meira...

Kartöflurækt, sumrablóm og listsköpun á Hrafnistu

 

Lífið er farið að ganga sinn vanagang á Hrafnistu. Söngstundir og útivist eru daglegir viðburðir og listahópur, tálgun og æfingasalur fastir liðir. Kartöflur voru settar niður á Hrafnistu í Boðaþingi óvenju seint í ár og veðrið lék ekki beint við kartöfluræktendur. Lundin var hins vegar létt og handbragðið gott.

Á Nesvöllum og á Hlévangi hafa íbúar og starfsólk plantað sumarblómum og eins nýttu íbúar í Skógarbæ tækifærið í blíðviðrinu um daginn og settu niður sumarblómin hjá sér. 

Á Hrafnistu Hraunvangi er listahópurinn kominn á fullt í að sinna sínum verkefnum í listinni.

 

Lesa meira...

Tónlistarfólk tíðir gestir á Hrafnistuheimilunum

 

Við á Hrafnistu erum svo lánsöm að reglulega kíkir til okkar tónlistarfólk sem léttir okkur lund. Á dögunum söng Valdimar Guðmundsson ásamt Erni Eldjárn nokkur hugljúf lög fyrir íbúa og starfsfólk á Hrafnistu í Boðaþingi. Einn íbúi okkar sagði frá því að hún væri búin að vera aðdáandi Valdimars lengi en átti ekki von á því að ná tónleikum hjá honum héðan af! Það er ekki slæmt að ná að uppfylla drauma á hvunndags eftirmiðdegi. Við þökkum þeim Valdimar og Erni kærlega fyrir komuna og tónlistarflutninginn.

Á Hrafnistu í Reykjanesbæ kíkti bandið Heiður í heimsókn og Bragi Fannar kom við og lék á nikkuna af sinni alkunnu snilld. Kærar þakkir fyrir ykkar framlag við að gleðja íbúa og starfsfólk Hrafnistu.

 

Valdimar og Örn syngja fyrir íbúa og starfsfólk á Hrafnistu í Boðaþingi

Bandið Heiður í heimsókn á Hrafnistu Nesvöllum og Hlévangi í Reykjanesbæ 

Lesa meira...

Nýr mannauðsstjóri Hrafnistuheimilanna

 

Jakobína H. Árnadóttir hefur verið ráðin í starf mannauðsstjóra Hrafnistuheimilanna og mun hún hefja störf um miðjan ágúst. Jakobína er með BA gráðu í sálfræði, meistaragráðu í heilsusálfræði ásamt diplóma í mannauðsstjórnun.

Jakobína hefur víðtæka reynslu af mannauðsmálum og stjórnun. Hún starfaði m.a. sem mannauðsstjóri Fjármálaeftirlitsins og sem sviðsstjóri og ráðgjafi hjá Capacent með áherslu á mannauðsmál. Hún hefur jafnframt sinnt kennslu á sviði vinnuheilsusálfræði.

Við hlökkum til að vinna með Jakobínu og bjóðum hana hjartanlega velkomna í fjöruga hópinn hér á Hrafnistu.

 

Lesa meira...

Guðrún Helgadóttir rifjar upp fyrsta sjómannadaginn árið 1938

 

Öllum hátíðarhöldum í tilefni sjómannadagsins var aflýst á höfuðborgarsvæðinu í ár vegna COVID-19. Vísir ræddi við Guðrúnu Helgadóttur í dag í tilefni dagsins en Guðrún var gift Helga Guðmundssyni sjómanni og eignuðust þau sex börn. 

 

Viðtal við Guðrúnu Helgadóttur: Hin 100 ára Guðrún rifjar upp fyrsta sjómannadaginn

Hin 100 ára Guðrún rifjar upp fyrsta sjómannadaginn

Sjómannadagurinn fer fram með óhefðbundnum hætti í dag vegna kórónuveirunnar. Engin hátíðarhöld eru í Reykjavík en á landsbyggðinni eru hátíðarhöld víðast hvar minni en alla jafna. Dagurinn hófst á sjómannamessum víða um land. Meðal annars í Víðistaðakirkju þar sem séra Bragi Ingibergsson þjónaði fyrir altari. Víðast hvar hefur hátíðarhöldum verið aflýst vegna faraldurs kórónuveirunnar. Í Hrísey fóru hátíðarhöld þó fram með heldur óbreyttu sniði.

Guðrún Helgadóttir er 100 ára og man vel eftir fyrsta sjómannadeginum sem haldinn var árið 1938. „Þetta var yndislegur dagur, það var gott veður og það voru allir svo kátir og hlæjandi,“ sagði Guðrún Helgadóttir. „Það voru heilmikil hátíðarhöld en skal ég segja þér ég er bara farin að gleyma því. Ég man svo vel þegar ég skokkaði niður Hverfisgötuna í gula kjólnum og við vorum svo ánægð,“ sagði Guðrún. Hún var gift Helga Guðmundssyni sjómanni og man hún hve stoltur hann var af deginum. „og þá sagði hann: Nú eigum við sjómennirnir dag. Það var svolítið stolt í þessum orðum,“ sagði Guðrún. Þau Helgi Guðmundsson eignuðust sex börn. Hennar hlutverk var að sjá um heimilið á meðan hann var á sjó. „Ég var heima bara og hugsaði um börn og buru og sá um heimilið þegar maðurinn minn var úti á sjó,“ sagði Guðrún. „Hvað ætlar þú að gera í dag, í tilefni dagsins? Ekkert sérstakt. Ég er búin að borða hér fínan hádegismat. Ég veit ekkert hvort við Ellý dóttir mín spilum kannski Marías,“ sagði Guðrún. Hún óskar sjómönnum til hamingju með daginn. „Ég vil óska þeim öllum til hamingju. Nú á ég færri ættingja á sjónum en áður. Pabbi minn átti bara árabát þegar ég man fyrst eftir mér svo ég hef vaxið upp með ýmsu,“ sagði Guðrún.

 

Lesa meira...

Margrét Unnur Ólafsdóttir ráðin sem aðstoðardeildarstjóri hjúkrunar í afleysingu á Hrafnistu Ísafold

 

Margrét Unnur Ólafsdóttir hefur verið ráðin sem aðstoðardeildarstjóri hjúkrunar í afleysingu fyrir Rannveigu Hafsteinsdóttur sem bráðlega fer í fæðingarorlof. Margrét útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2003.

Með námi vann hún á Hrafnistu Laugarási og á sjúkrahúsinu á Hvammstanga. Eftir útskrift vann hún á Barnaspítala Hringsins og hefur starfað á Hrafnistu Ísafold frá árinu 2013. Frá árinu 2018 hefur Margrét verið hluti af RAI-teymi Hrafnistu.

Bjóðum Margéti Unni velkomna í stjórnendahópinn.

 

Lesa meira...

Sjómannadagsblaðið komið út þótt dagskrá hafi verið aflýst

 

Útgáfa Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins á Sjómannadagsblaðinu helst óslitin þótt skipulagðri dagskrá á sjómannadaginn, sunnudaginn 7. júní, hafi verið aflýst í ár vegna heimsfaraldurs Covid-19. Blaðinu er dreift til viðtakenda í dag, föstudaginn 5. júní, en um er að ræða 83. árgang Sjómannadagsblaðsins. Útgáfa blaðsins hófst samhliða skipulagðri dagskrá í Reykjavík árið 1938.

„Að mati stjórnar Sjómannadagsáðs er það huggun harmi gegn að blaðið fái komið út þó svo að hátíðardagskrá falli niður í fyrsta sinn í áttatíu og þriggja ára sögu ráðsins,“ segir Sigurður Garðarsson, framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs.

Í síðasta mánuði var frá því greint að dagskrá Hátíðar hafsins, sem halda átti 6. og 7. júní við Gömlu höfnina, félli niður. Sjómannadagsráð höfuðborgarsvæðisins hefur allt frá árinu 1938 gengist fyrir skipulagðri dagskrá á sjómannadaginn með minningarathöfn um drukknaða sjómenn, skrúðgöngu að Dómkirkjunni, þar sem árleg sjómannamessa fer fram auk heiðrunar sjómanna.

Þá hefur Sjómannadagsráð jafnframt gengist fyrir fjölskylduhátíð á sjómannadaginn við Gömlu höfnina í Reykjavík með ýmsum leikjum og þrautum. Undanfarin sautján ár hefur sá hluti hátíðarhaldanna verið efldur með samstarfi við Faxaflóahafnir og Brim með veglegri tveggja daga hátíðarhöldum undir merki Hátíðar hafsins á gamla hafnarsvæðinu við Grandagarð. Þó svo að í ár verði ekki af hátíðinni vegna takmarkana sem nú gilda af heilbrigðisástæðum um návígi fólks eru aðstandendur hennar staðráðnir í að taka upp þráðinn á ný að ári með veglegri dagskrá á hafnarsvæðinu.

Í Sjómannadagsblaðinu í ár er að venju að finna fjölda vandaðra greina þar sem fjallað er um margvísleg málefni tengd sjósókn og fjölbreyttri starfsemi Sjómannadagsráðs. Meðal annars er rætt við Trausta Jónsson veðurfræðing um líkurnar á því að yfir landið gangi önnur hamfaraveður á borð við Básendaflóðið. Í máli hans kemur meðal annars fram að hlýnun á Íslandi hafi almennt verið í takti við þróunina annars staðar í heiminum. „Hins vegar fór að hlýna hér hraðar upp úr aldamótum en heimsþróunin segir til um. Við væntum þess að það hægi á henni og að hún komist í samræmi við heimsþróunina. Ef það gerist ekki má segja að illt sé í efni,“ segir hann.

Eins er í blaðinu rætt við Georg Lárusson, forstjóra Landhelgisgæslunnar, um þann búnað sem hér þarf að vera til staðar til að sinna eftirliti og aðstoð við sjófarendur. Fram kemur að í langtímaáætlunum Landhelgisgæslunnar sé gert ráð fyrir tveimur fullbúnum nútímalegum varðskipum á sjó, en í dag hafa Íslendingar aðeins yfir að ráða einu slíku skipi, Þór, sem kom til landsins árið 2011. Georg ræðir einnig mikilvægi alþjóðlegs samstarfs, þar á meðal vegna aukinnar skipaumferðar. Fram kemur að ólíklegt megi telja að Landhelgisgæslan muni nokkurn tímann ráða yfir búnaði til að sinna stórslysum á hafi úti ein og sér, svo sem vegna elds í skemmtiferðaskipi eða ef yrði stórt mengunarslys. „Það eru fá ríki sem hafa getu og búnað til að sinna slíkum málum ein,“ segir Georg í Sjómannadagsblaðinu. Í ritnefnd Sjómannadagsblaðsins eru Björn Finnbogason, Hjálmar Baldursson og Vilbergur Magni Óskarsson. KOM ehf., kynning og markaður, hefur umsjón með útgáfunni fyrir Sjómannadagsráð höfuðborgarsvæðisins. Ritstjóri blaðsins er Óli Kristján Ármannsson.

Sjómannadagsblaðið 2020 má nálgast á vef Sjómannadagsráðs: https://sjomannadagurinn.is/sjomannadagsbladid/

Nánari upplýsingar veitir Sigurður Garðarsson, framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs, í síma 892-1771 og tölvupósti This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Um Sjómannadagsráð

Sjómannadagsráð var stofnað 25. nóvember 1937. Það sinnir í dag velferðarmálum sjómanna og er jafnframt leiðandi aðili í öldrunarþjónustu á landinu. Ásamt og með dótturfélögum sínum; Hrafnistu, Naustavör, Happdrætti DAS og Laugarásbíói, veitir Sjómannadagsráð á annað þúsund manns í fimm sveitarfélögum daglega öldrunarþjónustu. Frá stofnun Sjómannadagsráðs til dagsins í dag hafa 1.329 sjómenn farist við störf sín og er sjómannadagurinn meðal annars tileinkaður minningu þeirra. Sjá nánar á www.sjomannadagsrad.is

 

 

Lesið Sjómannadagsblaðið 2020 – Smellið hér!

 

 

Lesa meira...

Hrafnista í þriðja sæti í átakinu Hjólað í vinnuna

Hrafnista hafnaði í þriðja sæti yfir fyrirtæki með 800 starfsmenn eða fleiri í átakinu, Hjólað í vinnuna sem fram fór dagana 6. – 26. maí 2020.

Oddgeir Reynisson rekstarstjóri Hrafnistu og Gígja Þórðardóttir deildarstjóri sjúkraþjálfunar á Hrafnistu í Laugarási, veittu verðlaununum viðtöku hjá ÍSÍ. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd voru þau hæstánægð með árangurinn, eins og við öll!

Hrafnista safnaði saman fjölda aukavinninga og voru vinningshafar dregnir út í gær. Í pottinum voru allir þeir sem skráðir voru til leiks í átakinu.

Vinningarnir samanstóðu af bíómiðum, mánaðarkortum frá World Class, dekur í Laugar Spa, aukabúnaði á reiðhjól, mittisveski, sokkum, hönskum og ennisböndum.

Eftirfarandi aðilar voru dregnir út. Vinningunum verður komið til þeirra á næstu dögum:

Alexis Mae Leonar
Anielyn Adlawan
Björg Snjólfsdóttir
Dagbjört Ingibergsdóttir
Diljá Mjöll Aronsdóttir
Diljá Rut Guðmundsdóttir
Erna Signý Daníelsdóttir
Fríða Karen Gunnarsdóttir
Guðlaug Dagmar Jónasdóttir
Guðrún Ragna Einarsdóttir
Hanna Kjartansdóttir
Jóhanna B. Guðmundsdóttir
Karen Sif Jónsdóttir
Katrín Heiða Jónsdóttir
Kristín María Autrey
Lena Sædís Kristinsdóttir
Margrét Unnur Ólafsdóttir
Maria Sosniak
Sara Pálmadóttir
Signe Reidun Skarsbö
Sigríður Inga Eysteinsdóttir
Sigrún Skarphéðinsdóttir
Svanhildur Ósk Halldórsdóttir
Svanhvít Guðmundsdóttir
Urður Ýr Þorsteinsdóttir

 

Lesa meira...

Síða 11 af 141

Til baka takki