Fréttasafn

Fjölbreytt dagskrá á Sjómannadaginn 12. júní

 

Það verður margt um að vera í kringum Reykjavíkurhöfn á Sjómannadaginn. Tvö útisvið verða sett upp. Annað sviðið er við Brim og hitt á Grandagarði. Þar stíga tónlistarmenn og leikarar á stokk milli kl. 13.00 – 16.00 og ættu flestir að finna eitthvað við sitt hæfi.

Að auki er fjölbreytt dagskrá allan daginn og nær hátíðarsvæðið frá Hörpu að útilistaverkinu Þúfunni. Meðal þess sem boðið veður upp á er sigling með varðskipinu Þór kl. 11.00, 13.00 og 15.00. Heiðrun sjómanna verður í Hörpu kl. 14.00.

Margt annað skemmtilegt verður í boði, t.d. koddaslagur, reipitog, kraftakeppni, andlitsmálning, Sirkus Íslands, fiskisúpusmakk og margt fleira.

 

Nánari upplýsingar um dagskrá á Sjómannadaginn má finna HÉR

 

Lesa meira...

Heimir Einarsson 20 ára starfsafmæli á Hrafnistu

F.v. Ólafur Haukur, Heimir og Oddgeir.

Heimir Einarsson, kokkur í framleiðslueldhúsi Hrafnistu í Laugarási,  hefur starfað á Hrafnistu í 20 ár.

Um leið og við óskum honum til hamingju með áfangann er honum þakkað fyrir gott starf og þá tryggð sem hann hefur sýnt heimilinu.

Heimir fékk venju samkvæmt afhenta starfsafmælisgjöf frá Hrafnistu af þessu tilefni og var meðfylgjandi mynd tekin við það tækifæri.

Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: Ólafur Haukur Magnússon, yfirmaður eldhúsa Hrafnistu, Heimir og Oddgeir Reynisson framkvæmdastjóri rekstrarsvið Hrafnistuheimilanna. 

 

 

 

 

 

Lesa meira...

Aðalfundur Sjómannadagsráðs 2022

 

Aðalfundur Sjómannadagsráðs 2022 var haldinn þriðjudaginn 10. maí í Helgafelli, Hrafnistu Laugarási. Á fundinum fóru fram hefðbundin aðalfundarstörf. Aríel Pétursson, frá Félagi skipstjórnarmanna, var kjörinn nýr formaður, en hann hefur gengt embætti formanns síðan Hálfdan Henrysson lét af störfum á síðasta ári. Aríel tók þá við sem varaformaður. Nýr varaformaður er Árni Sverrisson, frá Félagi skipstjórnarmanna. Oddur Magnússon, frá Sjómannafélagi Íslands, var endurkjörinn varagjaldkeri. Eins var Sigurður Ólafsson, frá Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, endurkjörinn ritari. Árni Bjarnason, frá Félagi skipstjórnarmanna var kjörinn í varastjórn. Í skipulagsnefnd var Andrés Hafberg, frá Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, kosinn í stað Þorsteins Hjálmarssonar. Í skipulagsnefnd sitja þá, auk Andrésar þeir Oddur Magnússon, Friðrik Höskuldsson, frá Félagi skipstjórnarmanna, Jón Rósant Þórarinsson, frá Sjómannafélagi Íslands og Gunnar Bergmann Gunnarsson, frá Félagi vélstjóra og málmtæknimanna.

Á fundinum var samþykkt lagabreyting. Þeim félögum sem standa að Sjómannadagsráði hefur fækkað um tvö. Félag loftskeytamanna hefur verið lagt niður og Félag bryta sameinaðist Sjómannafélagi Íslands. Því eru nú þrjú félög sem standa að ráðinu: Félag vélstjóra og málmtæknimanna hefur nú 9 fulltrúa, Sjómannafélag Íslands með 16 fulltrúa og Félag skipstjórnarmanna með 9 fulltrúa.

 

Lesa meira...

Sannarlega tími til að gleðast í Reykjanesbæ

 

Þann 6. maí var fyrsta skóflstungan tekin að stækkun hjúkrunarheimilis Hrafnistu Nesvöllum í Reykjanesbæ um 3.200 fermetra sem reistir verða á þremur hæðum á lóðinni við núverandi heimili. Í viðbyggingunni verða herbergi fyrir 60 íbúa og með tilkomu þeirra verður hjúkrunarheimilið Hlévangur aflagt. Þar eru íbúar þrjátíu og flytjast þeir yfir til Nesvalla í kjölfar stækkunarinnar. Hjúkrunarrýmum í Reykjanesbæ mun því fjölga um þrjátíu við stækkunina. „Nýbyggingin verður kærkomin viðbót í öldrunarþjónustu fyrir íbúa á Suðurnesjum og landsmenn alla. Sjómannadagsráð mun stýra framkvæmdum fyrir hönd Reykjanesbæjar og verður hönnun heimilisins á allan hátt til fyrirmyndar með aðbúnað og lífsgæði íbúa og starfsfólks að leiðarljósi. Við erum afar stolt af því trausti sem Reykjanesbær sýnir okkur með því að fela okkur umsjón með þessu byggingarverkefni fyrir hönd bæjarins“ segir Aríel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs.

Í ávarpi sem forstjóri Hrafnistu, María Fjóla Harðardóttir, flutti við tímamótin í Reykjanesbæ föstudaginn 6. maí, sagði hún sannarlega ástæðu til að gleðjast enda væri skóflustungan til marks um nýtt skref sem tekið væri til að bæta aðbúnað og lífsgæði íbúa á svæðinu sem þurfa á sólarhringsumönnun að halda.

Lýsir miklum metnaði sveitarfélagsins 

„Það lýsir að mínu mati miklum metnaði hjá bæjarstjórn Reykjanesbæjar og vilja til að gera vel við íbúa Reykjanesbæjar að núverandi stjórn leitaði til Sjómannadagsráðs og Hrafnistu sem sérfræðinga í byggingu hjúkrunarheimilis og reksturs. Vegna okkar sterka starfsmannahóps búum við yfir gríðarlegri þekkingu og reynslu á sviði byggingar og reksturs hjúkrunarheimila með það í huga að veita íbúum og starfsmönnum besta mögulegan aðbúnað hverju sinni. Við höfum einnig þeirri gæfu að fagna að vita að við vitum ekki allt og munum aldrei vita allt og erum því stöðugt að leita okkur upplýsinga um það sem betur mætti fara með samtali við íbúa heimilanna, starfsfólk og stjórnendur. Þannig náum við að gera stöðugt betur í dag en í gær,“ sagði María Fjóla m.a. í ræðu sinni.

Sé ávallt leiðandi í þjónustu við aldraða 

Hrafnista fylgir framtíðarsýn Sjómannadagsráðs sem hefur það að markmiði að vera leiðandi aðili í þjónustu og umönnun aldraðra. Stækkun Nesvalla er nýr áfangi á þeirri vegferð sem bæta mun verulega alla þjónustu og aðbúnað íbúa Hrafnistu í Reykjanesbæ. Tilkoma viðbyggingarinnar mun einnig leiða til þess að öll starfsemi Hrafnistu í sveitarfélaginu færist undir einn hatt sem veitir kærkomin tækifæri til hagræðingar í rekstri, ásamt því að bæta þjónustu við íbúa og vinnuumhverfi starfsfólks. Stækkun Nesvalla hefur lengi verið meðal helstu áherslumála í sveitarfélaginu og fór því vel á því að skóflustunguna af heimilinu tækju, ásamt Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra, þær Guðrún Eyjólfsdóttir formaður Félags eldri borgara á Suðurnesjum og Betsý Ásta Stefánsdóttir, formaður Ungmennaráðs Reykjanesbæjar.

 

Á meðfylgjandi mynd eru f.v.: Oddur Magnússon, stjm. í Sjómannadagsráði, Árni Sverrisson, stjm. í sjómannadagsráði, Jónas Garðarsson stjm. í sjómannadagsráði, Aríel Pétursson, form. Sjómannadagsráðs, Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, Þuríður I. Elísdóttir, forstöðumaður Hrafnistu Nesvöllum, María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistu, Sigurður Garðarsson, framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs, Sigurður Hreinsson, verkefnisstjóri hjá Sjómannadagsráði og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar. 

 

 

Lesa meira...

Origo og Hrafnista undirrita samstarfssamning

 

Origo og Hrafnista hafa undirritað samstarfssamning sem snýr að því hvernig megi nýta stafrænar lausnir til að halda sem best utan um starfsemi hjúkrunarheimila.

Þetta er liður í því að bæta umönnun íbúa Hrafnistu og samskipti við aðstandendur, ásamt því að ná fram hagkvæmni í vinnu og rekstri heimilanna. Origo hefur verið framarlega í þróun á heilbrigðislausnum og hefur meðal annars þróað app-ið Smásaga fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Með notkun á Smásögu geta starfsmenn heilbrigðisþjónustu skráð upplýsingar um skjólstæðinga sína í rauntíma og gegnum snjallsíma.

Nánar má lesa um samstarfsverkefni Hrafnistu og Origo HÉR

 

 

Lesa meira...

Nýr aðstoðadeildarstjóri hjúkrunar á Fossi Hrafnistu Sléttuvegi

 

Lilja Björk Bjarnadóttir hefur verið ráðin aðstoðardeildarstjóri hjúkrunar á Fossi á Hrafnistu Sléttuvegi frá 9. maí 2022. Lilja Björk útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur B.Sc. frá Háskóla Íslands árið 2017. Lilja hóf störf á Hrafnistu Hraunvangi árið 2012 þar sem áhuginn á hjúkrun kviknaði. Hún vann þar með námi og síðan sem hjúkrunarfræðingur eftir útskrift. Lilja hóf störf á Sléttuvegi sem hjúkrunarfræðingur við opnun heimilisins í febrúar 2020. Síðastliðið ár hefur hún leyst af sem aðstoðardeildarstjóri á Hrafnistu Sléttuvegi.

 

Lesa meira...

Nýr deildarstjóri hjúkrunar á Mánateig Hrafnistu Laugarási

 

Elsa Björg Árnadótttir hefur verið ráðin deildarstjóri hjúkrunar á Mánateig Hrafnistu í Laugarási frá 9. maí 2022.

Elsa Björg útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur B.Sc. frá Háskóla Íslands árið 2017. Hún hóf fyrst störf á Hrafnistu í Hraunvangi og vann þar sem nemi með hjúkrunarnáminu. Eftir útskrift starfaði hún svo á Hraunvangi sem hjúkrunarfræðingur. Við opnun á Hrafnistu við Sléttuveg í febrúar 2020 tók Elsa Björg við starfi aðstoðardeildarstjóra á hjúkrunardeildinni Fossi. Síðastliðið ár hefur hún starfað sem deildarstjóri í afleysingu á Hrafnistu við Sléttuveg.

 

Lesa meira...

Sjómannadagsráð og Hrafnista taka formlega við stjórn Skógarbæjar frá og með 1. maí 2022

Hrafnista Skógarbær

Sjómannadagsráð og Hrafnista, sem hafa frá því í maí 2019 annast stjórn hjúkrunarheimilisins Skógarbæjar í samstarfi við Reykjavíkurborg, taka formlega að fullu við stjórn heimilisins þann 1. maí næstkomandi.

Í mars 2019 undirritaði sjálfseignastofnunin Skógarbær, sem átti og rak samnefnt hjúkrunarheimili við Árskóga, skammt frá Mjódd í Reykjavík, samning við Sjómannadagsráð, eiganda Hrafnistu, um að Hrafnista tæki við rekstri hjúkrunarheimilisins þann 2. maí 2019. Rekstur og skuldbindingar starfseminnar hvíldu áfram hjá Skógarbæ, en Hrafnista tók yfir stjórn og rekstur.

Á samningstímabilinu, sem var til að byrja með til ársloka 2020, var Skógarbær sjálfstæður hluti rekstrarsamstæðu Sjómannadagsráðs. Í samningnum fólst einnig nýting og rekstur á hluta af húsnæði félagsmiðstöðvarinnar Árskóga, sem samtengd er hjúkrunarheimilinu og rekin er af Reykjavíkurborg.

Farsælt samstarf við borgina

Hjúkrunarheimilið og sjálfseignarstofnunin Skógarbær var stofnsett árið 1997 af Reykjavíkurborg, Rauða Krossinum í Reykjavík og Eflingu stéttarfélagi. Á heimilinu er 81 hjúkrunarrými og m.a. sérstök þjónusta fyrir unga hjúkrunaríbúa. Við þau tímamót sem nú eru fram undan eru fulltrúum Sjómannadagsráðs og Hrafnistu fyrst og fremst þakklæti efst í huga í garð Reykjavíkurborgar fyrir það traust sem borgin sýnir Sjómannadagsráði og Hrafnistu með þeirri ákvörðun að fela þeim alfarið rekstur Skógarbæjar með áframhaldandi umönnun íbúa ásamt umsjón með rekstri fasteignarinnar. „Samstarfið við Reykjavíkurborg hefur verið gríðarlega gott og nýjasta afurð þessa farsæla samstarfs er lífsgæðakjarninn við Sléttuveg í Fossvogi sem tók til starfa í febrúar árið 2020,“ segir María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistu.

Nýr lífsgæðakjarni fyrirhugaður

Sjómannadagsráð og Hrafnista eru full tilhlökkunar fyrir komandi tímum og hyggjast ráðast í stórhuga framtíðaruppbyggingu á svæðinu fyrir fjölþætta þjónustu við aldraða með fulltingi Reykjavíkurborgar, sem hefur margsýnt áhuga sinn á málefnum eldri borgara í verki. Eins og ávallt verður lögð áhersla á að veita íbúum í Skógarbæ góða þjónustu eftir gildum og hugsjónum Sjómannadagsráðs og Hrafnistu, með þeim dýrmæta mannauði sem starfar í Skógarbæ. „Það eru sannarlega spennandi tímar framundan og framtíð Skógarbæjar er björt. Það er mikið tilhlökkunarefni að gera Skógarbæ að enn betra heimili í samráði og samvinnu við íbúa Skógarbæjar, aðstandendur og starfsfólk,“ segir Aríel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs.

 

Meðfylgjandi mynd var tekin í dag þegar núverandi og fráfarandi stjórn Skógarbæjar stilltu sér upp fyrir ljósmyndara. Á myndinni eru f.v. Ari Karlsson, stjm. í sjálfseignarstofnuninni Skógarbæ, Heiða Björk Hilmisdóttir, form. velferðarráðs Rvk.borgar, Ellý Alda Þorsteindsdóttir, stjform. Skógarbæjar, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Örn Þórðarson, stjm. í Skógarbæ, Aríel Pétursson, form. Sjómannadagsráðs, María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistu, Rebekka Ingadóttir, forstm. Hrafnistu Skógarbæ, og Oddur Magnússon, stjm. í Sjómannadagsráði.

 

Lesa meira...

Sjómannadagsráð og Hrafnista eru í viðræðum við Kópavogsbæ um að Hrafnista taki yfir rekstur þjónustumiðstöðvarinnar Boðans í Boðaþingi frá haustmánuðum 2022

 

Þjónustumiðstöðin Boðinn hefur frá árinu 2010 verið rekin af Kópavogsbæ. Viðræður standa yfir milli Sjómannadagsráðs/Hrafnistu og Kópavogsbæjar um að frá og með haustinu muni Hrafnista reka þjónustumiðstöðina Boðann. Sjómannadagsráð og Hrafnista munu að sjálfsögðu starfa áfram í góðri samvinnu við Kópavogsbæ og eldri borgara í Kópavogi sem hafa nýtt sér þjónustumiðstöðina.

Með því að samnýta aðstöðu hjúkrunarheimilis, þjónustumiðstöðvar og leiguíbúða er mögulegt að auka framboð af þjónustu og afþreyingu fyrir eldra fólk í hverfinu. Stefnt er að því að gefa eldra fólki tækifæri til að blómstra með þátttöku í félagslífi um leið og því gefst kostur á fjölbreyttri þjónustu í nánasta umhverfi sínu. Takmarkið er að lífsgæðakjarninn Boðinn verði að akkeri í hverfinu, þangað sem fólk getur sótt sér þjónustu, félagsskap og afþreyingu af ýmsu tagi. Þjónustumiðstöðin verður opin öllum og í boði verður fjölbreytt dagskrá og viðburðir þar sem leitast verður eftir því að sníða starfið að áhugasviði sem flestra.

 

Lesa meira...

Síða 15 af 175

Til baka takki