Fréttasafn

Þörf umræða um málefni aldraðra

 

Í vikunni birtist grein á visir.is eftir Björn Bjarka Þorsteinsson þar sem hann bendir á þörfina fyrir umræðu um málefni aldraðra. Björn Bjarki er framkvæmdastjóra Brákahlíðar og formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.

Grein á visir.is: Þörf umræða um málefni aldraðra

 

Þörf umræða um málefni aldraðra

Heilbrigðisþing var haldið fyrir skömmu. Umræðuefnið var nýútkomin skýrsla varðandi aðbúnað og þjónustu við aldraða. Umræðan er tímabær og í raun löngu tímabær, um það hvaða aðstæður og aðbúnað við viljum veita þeim sem eru orðnir aldraðir og þurfa þjónustu með einum eða öðrum hætti sökum breytinga á heilsufari.

Höfum hugfast að sem betur fer búa fleiri en færri aldraðir við góða heilsu og eru sjálfum sér nægir um allar þarfir daglegs lífs. Það hefur mikil fjölgun átt sér stað í þeim hópi sem teljast aldraðir og ljóst miðað við allar spár og tölfræði að það á enn eftir að fjölga hlutfallslega í þeim hópi.

Á fyrrnefndu heilbrigðisþingi var rætt um möguleika sem felast í aukinni þjónustu heim til þeirra sem þurfa aðstoð af einhverju tagi og að aukin þjónusta heim til fólks drægi úr þörf á fjölgun hjúkrunarrýma. Það er von undirritaðs að svo sé og verði, að samfélagið allt, ríki og sveitarfélög, komi sér saman um hvernig eigi að byggja upp þjónustunet, um allt land, þannig að öldruðum sé gert kleift að vera sem lengst heima hjá sér og halda sitt eigið heimili. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd, því miður vil ég segja, að það er og verður alltaf ákveðið hlutfall aldraðra sem mun eiga við alvarlegan heilsubrest að ræða af einhverju tagi og þá getur það verið besta lausnin fyrir viðkomandi einstakling að fá inni á hjúkrunarheimili í nærsamfélagi viðkomandi. Þar fær einstaklingurinn aðstoð og skapar sér þar notalega aðstöðu og á vonandi áhyggjulaust ævikvöld.

Það vantar millistig frá því að vera búandi heima og geta verið sjálfbjarga á allan hátt og yfir í þá stöðu að vera kominn í þörf fyrir að flytja inn á hjúkrunarheimili. Það er um þetta sem umræðan þarf að snúast, ekki að beina spjótum sínum að starfssemi hjúkrunarheimila og því frábæra starfsfólki sem á heimilunum starfar landið um kring. Það voru afar mikil vonbrigði og olli í raun sárindum á meðal starfsmanna hjúkrunarheimila að umræðan á heilbrigðisþingi og ekki síst í kjölfar þess skyldi beinast í þá átt að hjúkrunarheimilin væru geymslurými. Það er óvirðing við heimilisfólk heimilanna og óvirðing við frábært starfsfólk hjúkrunarheimilanna.

Höldum okkur á veginum í umræðunni, annað veldur mögulega óþarfa slysum, leiðindum og miskilningi sem skapað getað sárindi, óverðskulduð og þarflaus með öllu.

Höfundur er framkvæmdastjóri Brákarhlíðar og formaður stjórnar Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.

 

 

Lesa meira...

Lionsklúbburinn Æsa færir íbúum á Hrafnistu Hlévangi veglega gjöf

 

Íbúum á Hrafnistu Hlévangi hefur borist höfðingleg gjöf frá Lionsklúbbnum Æsu í Njarðvík en það er Sara Stedy standlyfta sem við köllum jafnan „skutla“. Við þökkum Lionsklúbbnum Æsu innilega fyrir þessa frábæru gjöf og hlýhuginn sem þær sýna íbúum okkar.

Meðfylgjandi mynd var tekin þegar Þuríður I. Elísdóttir forstöðumaður Hrafnistu í Reykjanesbæ (lengst til hægri) tók á móti gjöfinni fyrir hönd íbúa á Hrafnistu Hlévangi.

 

Lesa meira...

Katrín Heiða íþróttafræðingur á Hrafnistu Ísafold hyggst ganga 150 ferðir upp á Esjuna á árinu

 

Katrín Heiða Jónsdóttir, íþróttafræðingur á Hrafnistu Ísafold, hefur sett sér það markmið að ganga 150 ferðir upp á Esjuna á árinu. Hundruðustu ferðina á þessu ári hyggst hún ganga í lok vikunnar.

Morgunblaðið tók skemmtilegt viðtal við Katrínu sem birtist á baksíðu blaðsins í dag, þriðjudaginn 17. ágúst: Hyggst ganga 150 ferðir upp á Esjuna á árinu

 

Lesa meira...

Nýr aðstoðardeildarstjóri hjúkrunar á Sjávar- og Ægishrauni Hrafnistu Hraunvangi

 

Sólveig Hlín Sigurðardóttir hefur verið ráðin aðstoðardeildarstjóri hjúkrunar á Sjávar- og Ægishrauni frá 1. september 2021.

Sólveig lauk B.Sc námi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 2020 og hefur starfað síðan sem hjúkrunarfræðingur á Sjávar- og Ægishrauni, ásamt því að starfa þar sem hjúkrunarnemi á meðan hún var í námi.

Sólveig er einnig með B.Sc próf í líffræði og diplómanám í kennslufræðum til kennsluréttinda.

 

Lesa meira...

Nýr deildarstjóri iðjuþjálfunar og félagsstarfs Hrafnistu Hraunvangi

 

Magnfríður Sigríður Sigurðardóttir hefur verið ráðin deildarstjóri iðjuþjálfunar/félagsstarfs á Hrafnistu Hraunvangi.

Magnfríður er iðjuþjálfi að mennt. Hún lauk B.Sc. prófi frá Háskólanum á Akureyri 2007. Hún leggur nú stund á M.Sc. nám í stjórnun heilbrigðisþjónustu við Háskólann á Bifröst. Auk þess er Magnfríður menntaður leiðsögumaður og hefur starfað við það undanfarin sumur, ásamt því að vera fótaaðgerðar- og snyrtifræðingur.

Magnfríður hefur m.a. starfað hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands og sem umsjónarkennari iðjuþjálfanema við Háskólann á Akureyri.

Við bjóðum Magnfríði velkomna í Hrafnistuhópinn.

 

Lesa meira...

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu segja aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar boða grundvallarbreytingar til hins verra

Lesa meira...

 

Frá þessu er greint á visir.is: Segja að­gerða­pakka ríkis­stjórnarinnar boða grund­vallar­breytingar til hins verra

 

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, SFV, lýsa stuðningi við markmið stjórnvalda að styðja við Landspítalann í því ástandi sem þar er uppi vegna faraldurs Covid-19. Hins vegar segja samtökin að hluti aðgerðanna feli í sér grundvallarbreytingar til hins verra á getu hjúkrunarheimila landsins til að tryggja öryggi og heilsu íbúa sinna.

Í fréttatilkynningu lýsa samtökin yfir andstöðu sinni við breytingu á reglugerð um færni og heilsumat vegna dvalar og hjúkrunarrýma, og kalla eftir því að hún verði dregin til baka. 

Sú breyting felur í sér að hjúkrunarheimilin hafa ekki lengur tækifæri til að leggja faglegt mat á hvort að hægt sé að tryggja nauðsynlega þjónustu við þá einstaklinga sem fá úthlutað rými á hjúkrunarheimili. 

Sjúklingum verði „sjálfkrafa úthlutað rými"

Eftir breytingu stendur nú í reglugerðinni að hafi sami einstaklingur verið tilnefndur af færni- og heilsumatsnefnd sem annar tveggja í dvalar- eða hjúkrunarrými á stofnun en ekki verið úthlutað rými, skuli viðkomandi sjálfkrafa vera úthlutað rými á þeirri stofnun í þriðja sinn sem hann er tilnefndur.

SFV segja að þegar færa eigi einstakling af sjúkrahúsi inn á hjúkrunarheimili sé algerlega nauðsynlegt að mat sé lagt á hvort að mönnun og aðstæður á ákveðnu hjúkrunarheimili séu til þess fallin að mögulegt sé að tryggja fullnægjandi umönnun og þannig öryggi og heilsu þess einstaklings. Með nýrri reglugerð sé slíkt faglegt mat tekið út úr ferlinu.

Segja ekki tekið tillit til hjúkrunarheimila

Samtökin gera alvarlega athugasemd við að ekkert tillit sé tekið til áhrifa breytinganna á hjúkrunarheimilin, sem eru þegar í sérstaklega viðkvæmri stöðu vegna faraldursins. Eins og vel hefur komið fram í fjölmiðlum ríkir á sumum heimilunum neyðarástand. Við slíkar aðstæður mótmæla samtökin því að auka eigi stórlega álagið á hjúkrunarheimilin, og það án nokkurs samráðs og raun í andstöðu við heimilin.

Hjúkrunarheimilin leggja áherslu á að forgangurinn þurfi alltaf að vera á heilsu og öryggi skjólstæðinga kerfisins. Starfsfólk heimilanna standi nú í eldlínunni í baráttunni við Covid-19 og því sé mikilvægt að aðgerðir stjórnvalda, án samtals og samráðs, geri baráttuna ekki erfiðari en þörf er á.

 

 

Lesa meira...

Tilkynning 5. ágúst

Lesa meira...

Kæru íbúar og aðstandendur.  


Eins og þið vitið er mikil aukning á fjölda Covid-smita í samfélaginu. Vegna þess eru mjög margir að lenda í sóttkví, þar á meðal fjöldi starfsmanna sem starfa á Hrafnistuheimilunum.  Miklir erfiðleikar geta skapast tengt því að manna vaktir og því hafa hjúkrunarheimilin fengið heimild hjá sóttvarnarsviði Embættis landlæknis til að sækja um svokallaða vinnusóttkví B fyrir ákveðinn hóp starfsmanna, þótt þeir séu í sóttkví í samfélaginu.

Ströng skilyrði eru fyrir því að starfsmaður fái að starfa í vinnusóttkví B og fer Hrafnista eftir þeim reglum og leiðbeiningum sem sóttvarnarsvið Embættis landlæknis setur.

Neyðarstjórn Hrafnistu vill því upplýsa um, að til þess getur komið að starfsmaður á þinni deild komi á vakt í vinnusóttkví B.  


Kær kveðja,

 Neyðarstjórn Hrafnistu

Bréf til íbúa og aðstandenda Hrafnistu

Lesa meira...

 Kæru íbúar og aðstandendur.

Áfram eru Covid-smit í samfélaginu í miklum vexti og óvissa um hvernig staðan tengt smitum verður á næstu 1-2 vikum. Neyðarstjórn Hrafnistu þarf því að halda áfram með þær aðgerðir sem gripið var til í síðustu viku. Áfram verður dregið úr hópastarfi/samkomum og stórum samverustundum næstu 1-2 vikurnar. Einnig verður gerð ein breyting tengt fyrri reglu um andlitsgrímunotkun inn á herbergi íbúa frá því sem áður var.
 

Neyðarstjórn biðlar áfram til ættingja að sami aðili komi í heimsóknir nokkra daga í röð og skipti svo við annan. Því færri sem ganga um heimilin því betra.
 

4. ágúst 2021: Breyting tengt andlitsgrímuskyldu gesta á herbergjum íbúa
• ALLIR gestir þurfa að bera andlitsgrímu við komu á heimilin.
• Bólusettir gestir: EINGÖNGU má taka niður grímu inn á herbergi íbúa ef hægt er að halda 2ja metra nándarregluna.
• ATHUGIÐ að óbólusettir / hálfbólusettir gestir þurfa að vera með andlitsgrímur inn á herbergi íbúa.
• Ekki er heimilt að vera með margnota grímur.
 

Reglum um heimsóknartíma hefur ekki verið breytt, en við biðjum alla að lesa vel og fylgja eftirfarandi:

1. Aðstandendur og gestir á aldrinum 0-30 ára – Neyðarstjórnin biðlar til aðstandenda og gesta í þessum aldurshópi að koma ekki í heimsókn. Börn eru flest ekki bólusett og meiri hluti Covid smita í samfélaginu í dag eru að greinast í aldurshópnum 18-29 ára.
2. Ekki er heimilt að nýta setustofur og borðstofur eininga/deilda til heimsókna né önnur alrými á heimilunum s.s. borðsali.
3. Virða þarf 2ja metra regluna í samskiptum við starfsfólk.
4. Íbúum er áfram heimilt að fara út í garð og í gönguferðir með sínum nánustu, en einnig er heimilt að fara með íbúa út af heimilinu í bílferðir eða heimsóknir. Neyðarstjórnin biðlar til íbúa, aðstandenda og annarra gesta að fara ekki í mannfagnaði eða aðrar samkomur með íbúa.
5. Fullbólusettir aðstandendur sem dvalið hafa erlendis – eins og áður mega þeir koma í heimsókn að höfðu samráði við stjórnendur deilda og að því tilskyldu að þeir séu með öllu einkennalausir. Neyðarstjórn Hrafnistu vill samt biðla til þeirra og jafnframt benda á mikilvægi þess, að fara í skimun eftir að þeir koma til landsins og að niðurstaða liggi fyrir áður en þeir koma í heimsókn
6. Óbólusettir aðstandendur sem eru að koma erlendis frá mega ekki koma í heimsókn inn á heimilin fyrr en 14 dagar eru liðnir frá heimkomu (undanþágu er hægt að fá í samráði við stjórnendur deildar ef um skyndileg veikindi/lífslokameðferð er að ræða hjá íbúa).
7. Undanþága frá reglum um heimsóknir hverju sinn, er aðeins veitt við mikil veikindi íbúa og þarf leyfi frá vaktstjóra deildar
8. Alls ekki koma í heimsókn ef:
a. Þú ert í sóttkví.
b. Þú ert í einangrun eða að bíða eftir niðurstöðu úr sýnatöku.
c. Þú hefur verið í einangrun og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift.
d. Þú ert með COVID-19 lík einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang, uppköst o.fl.).
e. Þú ert með einhver önnur almenn einkenni um veikindi.
 

Munið að sýna ýtrustu varkárni og virða sóttvarnaráðstafanir í heimsóknum. Við þurfum öll að hafa í huga persónulegar sýkingavarnir s.s. handþvott og handsprittun.
 

Bólusettir geta líka smitast af Covid og smitað aðra.

 
Enn og aftur leggur neyðarstjórn Hrafnistu áherslu á að staðan getur breyst mjög hratt og mögulegt er að grípa þurfi til frekari aðgerða og takmarkana ef þörf krefur.
 
Kær kveðja,
Neyðarstjórn Hrafnistu
 
 

Tilkynning

Lesa meira...

Kæru íbúar og ættingjar. 

Nú eru sóttvarnayfirvöld sammála um að næstu dagar geta skipt sköpum í útbreiðslu Covid, því langar okkur að biðla til ættingja að sami aðili komi í heimsóknir fram yfir helgina til hvers íbúa, því færri sem ganga um heimilið þessa dagana því betra. 

Neyðarstjórn Hrafnistu

Síða 6 af 156

Til baka takki