Fréttasafn

Mikilvægt að búa með fólki á svipuðu reki

Viðtal við Sigurð Garðarsson, framkvæmdastjóra Sjómannadagsráðs, birtist í gær en þar fjallar hann m.a. um leiguíbúðir Naustavarar sem eru hluti af lífsgæðakjörnum Sjómannadagsráðs og Hrafnistu.

Mikilvægt að búa með fólki á svipuðu reki

Leigu­íbúðir Nausta­var­ar eru fyr­ir alla sem eru 60 ára og eldri. Sig­urður Garðars­son, fram­kvæmda­stjóri Sjó­mannadags­ráðs, seg­ir að íbúðirn­ar séu góður kost­ur fyr­ir þá sem vilja hafa það sem best á sín­um efri árum. 

„Leigu­íbúðir Nausta­var­ar eru hluti af lífs­gæðakjörn­um Sjó­mannadags­ráðs og Hrafn­istu. Íbúðirn­ar eru afar góður kost­ur þar sem fólki býðst að búa í framúrsk­ar­andi íbúðum sem taka mið af þörf­um eldra fólks. Þær eru fyr­ir alla 60 ára og eldri sem geta búið í sjálf­stæðri bú­setu. Í lífs­gæðakjörn­un­um er stutt að sækja þjón­ustu og fé­lags­starf. Leigu­íbúðir Nausta­var­ar standa í ná­grenni við Hrafn­istu­heim­ili og eru í þrem­ur sveit­ar­fé­lög­um á höfuðborg­ar­svæðinu. Brúna­vegi, Jök­ul­grunni og Sléttu­vegi í Reykja­vík, Boðaþingi í Kópa­vogi og Hraun­vangi í Hafnar­f­irði,“ seg­ir Sig­urður.

Hann seg­ir að gott aðgengi sé í íbúðunum og þær séu sér­hannaðar með þarf­ir eldra fólks í huga.

„Lögð er áhersla á ör­yggi, for­varn­ir og inn­an­gengi. Í öll­um hús­un­um eru lyft­ur og alls staðar inn­an­gengt yfir á næsta Hrafn­istu­heim­ili. Hurðaop og gang­ar eru breiðari en geng­ur og ger­ist, einnig eru baðher­bergi og eld­hús sér­hönnuð svo auðvelt sé að nota ým­iss kon­ar stuðnings­tæki.“

Íbúðirn­ar eru frá 45 til 100 fm og seg­ir Sig­urður að mis­lang­ur biðlisti sé í að kom­ast að.

„Íbúðirn­ar eru eft­ir­sótt­ar en biðlist­arn­ir eru mis­lang­ir eft­ir stærð og staðsetn­ingu,“ seg­ir hann.

Sig­urður seg­ir að það fel­ist mik­il lífs­gæði í því að búa inn­an um annað fólk sem sé á svipuðu reki.

„Það er mik­il­vægt að hafa aðgang að afþrey­ingu og skipu­lögðu fé­lags­starfi. Lík­am­leg og fé­lags­leg virkni er mjög mik­il­væg, ekki síst þegar á efri ár er komið. Nausta­vör er um­hugað um vellíðan íbúa og tel­ur mik­il­vægt að tryggja aðgengi þeirra að fjöl­breyttri afþrey­ingu og hreyf­ingu. Oft verður til vin­skap­ur á meðal íbúa og göm­ul kynni rifjast upp,“ seg­ir hann.

 

Lesa meira...

Ákveðin en örugg skref í afléttingum sóttvarnarreglna á Hrafnistu

 

Kæru íbúar og aðstandendur,

 

Enn er því miður mikið um COVID smit í samfélaginu öllu og hafa heimili Hrafnistu ekki farið varhluta af því en fjöldi íbúa og starfsmanna hafa greinst með COVID undanfarnar vikurnar. Eins og staðan er í dag er fjöldi þeirra smita sem upp hafa komið meðal íbúa og starfsmanna á heimilum Hrafnistu mismunandi milli heimila sem og á milli deilda innan sama heimilis. Þrátt fyrir að staðan sé víða þung þá þýðir þessi mikli fjöldi smita einnig að senn styttist vonandi í hið margumtalaða hjarðónæmi hjá okkur. Eins og kom fram í síðasta bréfi þá munum við stíga ákveðin en örugg skref í afléttingum sóttvarnarreglna á næstunni og munu forstöðumenn og stjórnendur heimilanna ákvarða þau skref fyrir sitt heimili/deildir metið út frá stöðunni á hverjum stað. 

 

Kær kveðja,

Neyðarstjórn Hrafnistu

 

Bréf til íbúa og aðstandenda mánudaginn 7. mars 2022

 

 

 

 

Lesa meira...

Heimsóknabannið bjargaði fjölda mannslífa hér á landi

 

Fréttablaðið birti um nýliðna helgi niðurstöður úr rannsókn á hagkvæmni heimsóknarbanns á dvalar- og hjúkrunarheimilunum Grund og Mörk í Reykjavík og Ási í Hveragerði, tímabilið mars til maí 2020. Rætt var m.a. við Gísla Pál Pálsson, forstjóra Grundarheimilanna sem einnig er einn skýrsluhöfunda.

„Heimsóknabannið bjargaði fjölda mannslífa hér á landi“

Ný rannsókn sýnir að ef ekki hefði komið til heimsókna­banns á dvalar- og hjúkrunarheimilum hér á landi í upphafi farsóttarinnar, hefðu 10 til 20 prósent heimilismanna látist úr Covid-19

Ef heimsóknabann á dvalar- og hjúkrunarheimilum hér á landi hefði ekki tekið gildi í upphafi kórónaveirufaraldursins á útmánuðum 2020 hefði dánartíðni fólks orðið margfalt meiri en hún varð í raun.

Þetta er meginniðurstaða rannsóknar á hagkvæmni heimsókna­banns á dvalar- og hjúkrunarheimilunum Grund og Mörk í Reykjavík og Ási í Hveragerði, á tímabilinu frá mars 2020 til maí sama ár, en þar dvelja að jafnaði tæplega 400 manns.

„Niðurstöðurnar tala sínu máli – og það mjög skýrt,“ segir Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna og einn skýrsluhöfunda. „Við misstum engan úr Covid-19 á þessu tímaskeiði – og ég þakka það heimsóknabanninu, en ef við hefðum ekki gripið til þessa ráðs má ætla að minnst 40 og allt að 80 manns á heimilunum hefðu látist af völdum farsóttarinnar á þessu þriggja mánaða tímabili þegar hún lagðist af fullum þunga á samfélagið,“ segir Gísli Páll.

„Þetta er í samræmi við dánartíðni fólks á erlendum hjúkrunarheimilum,“ bendir hann enn fremur á „en þar létust á milli 10 og 20 prósent heimilismanna úr Covid-19 á þessum tíma þar sem óheftar heimsóknir aðstandenda og annarra voru áfram leyfðar.“

Róttækar aðgerðir margborguðu sig

Hann segir niðurstöðu rannsóknarinnar ekki hafa komið sér á óvart. „Ég hafði allan tímann frá upphafi faraldursins tilfinningu fyrir því að algert heimsóknabann væri bæði skynsamlegt og hagkvæmt, en ég gat ekki sannað það,“ segir Gísli Páll. „Þess vegna afréðum við að hefja rannsókn á áhrifum heimsókna­bannsins og byggja hana á gefnum forsendum og staðreyndum.“

Auk Gísla Páls unnu hagfræðingarnar Bergþóra Þorvaldsdóttir, Guðný Halldórsdóttir og Þórólfur Matthíasson að rannsókninni, svo og Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor við hagfræðideild Háskóla Íslands.

„Það sem er hvað áhugaverðast við þessa rannsókn,“ segir Tinna Laufey „er að við þurftum að setja ákveðna virðistölu á gæði sem eiga sér ekki markaðsverð, það er að segja mannslíf og heilsu, en jafnframt að skoða vægi félagslegra samskipta,“ bætir hún við. „Í þessu tilviki erum við í raun og sann að kaupa líf og heilsu og borga fyrir með félagslegum samskiptum,“ útskýrir hún betur.

„Hagfræðilega niðurstaðan er sú að þessar róttæku aðgerðir á dvalar- og hjúkrunarheimilunum margborguðu sig í fyrstu bylgju faraldursins með þjóðina óbólusetta, í kringumstæðum þar sem engar áhrifaríkar leiðir þekktust til að takast á við sjúkdóminn,“ segir Tinna Laufey.

„Í reynd var spurningin þessi á vormánuðum 2020,“ segir Gísli Páll, „hvað hefði fólk vilja borga það dýru verði að fá að heimsækja ástvini sína áfram?“

Hann bendir að lokum á að menn megi ekki gleyma aðstæðum hér á landi við upphaf faraldursins, en þá hafi fátt annað verið ljóst en að veiran legðist hvað verst á aldraða. Á þeim tímapunkti hafi fá lyf, önnur en verkjalyf og súrefnisgjöf verið tiltæk. Það hafi verið á grundvelli þessara takmörkuðu upplýsinga sem ákveðið var að grípa til heimsóknabanns á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

„Og það var eins gott að við gerðum það. Rannsóknin sýnir það glöggt,“ segir Gísli Páll Pálsson.

 

 

Lesa meira...

Við heyrum loksins að það er verið að hlusta á okkur

Viðtal við Maríu Fjólu Harðardóttur, forstjóra Hrafnistu og varaformann SFV birtist í Fréttablaðinu föstudaginn 4. mars sl.

„Við heyrum loksins að það er verið að hlusta á okkur“

María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistu og varaformaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, segir breytingar á greiðslu hjálpartækja til íbúa hjúkrunarheimila frábært framfaraskref.

„Það er svo ánægjulegt að sjá hversu velviljaður heilbrigðisráðherra er gagnvart hjúkrunarheimilum. Við heyrum loksins að það er verið að hlusta á okkur,“ segir María Fjóla í samtali við Fréttablaðið. Fyrr í vikunni var greint frá því að íbúar hjúkrunarheimila gætu nú fengið styrki frá Sjúkratryggingum Íslands vegna tiltekinna hjálpartækja sem áður var á hendi hjúkrunarheimila sjálfra að útvega.

„Við náttúrulega erum að tala fyrir hönd okkar skjólstæðinga og teljum að þarna sé verið að fullnægja þeirra sjálfsagða rétt að fá þau hjálpartæki sem þau þurfa á að halda,“ segir María Fjóla aðspurð um breytingarnar. Ekki hafi verið hægt að gera þær kröfur til hjúkrunarheimila að sjá um þennan hluta líka eingöngu með daggjöldum. Erfitt hafi verið að horfa upp á skjólstæðinga missa hjálpartækin við komuna á hjúkrunarheimilin.

„Þetta er frábært skref en það sem við eigum eftir að gera er að skoða þetta almennilega og sjá hvað þetta þýðir. En í fljótu bragði litið er þetta heilmikið framfaraskref gagnvart þjónustunni til okkar íbúa,“ segir María Fjóla og bætir við að þau séu virkilega þakklát og ánægð fyrir hönd íbúa hjúkrunarheimila.

 

Lesa meira...

Föstudagsmolar 4. mars 2022 - Gestahöfundur er Sigrún Stefánsdóttir, forstöðumaður Hrafnistu í Laugarási

 

Þá er komið að loka skaflinum þar sem við stöndum í honum miðjum og erum að klofa yfir hann þessa dagana. Það er ótrúlegt að eftir tvö ár þá erum við loksins að sjá fyrir endann á þessu og nálgumst hjarðónæmi hröðum skrefum. Í tvö ár höfum við staðið saman frammi fyrir ótrúlega erfiðum verkefnum sem engan óraði að gæti komið fyrir. Fyrir mitt leiti þá verð ég að segja, að sem betur fer vissi ég ekki það sem ég veit í dag þegar við hófum þessa vegferð hvernig næstu tvö árin yrðu.  Ég held mér hefði fallist hendur hefði ég vitað að við ættum eftir að takast á við þennan veirufjanda í tvö löng ár.

Þar sem við stöndum núna vonandi í síðasta skaflinum og líklegast þeim erfiðasta þá erum við farin að sjá merki þess að eðlilegt líf er að taka við sér í þjóðfélaginu eins og það var fyrir covid. Já það verður allt í framtíðinni borið saman við fyrir eða eftir covid. Við höfum lært ýmislegt á þessum tveimur árum því má ekki gleyma, jú reyndar má alveg gleyma nokkrum atriðum eins og tveggja metra reglunni, grímunotkun, fjöldatakmörkunum, bannað að knúsa fólk og kyssa vini og ættingja.

Það sem stendur hins vegar upp úr er fyrst og fremst frábært samstarfsfólk sem hefur í gegnum þessi tvö ár lyft grettistaki með samhug, samvinnu og krafti þegar allt virtist svo ótrúlega erfitt, verkefnin óyfirstíganleg og ætluðu engan enda taka. Það er alveg magnað að sjá hvað allir sem einn hafa lagt sig fram við að sinna íbúum af kærleika og umhyggju í þessu erfiða ástandi.  Það er nákvæmlega þetta sem hefur gert okkur kleift að komast áfram og yfir skaflana og mun koma okkur núna yfir síðasta skaflinn.

Já ég ætla að trúa því að þetta sé loka skaflinn, og með því hugarfari ætla ég að horfa til vorsins og sumarsins björtum augum og full tilhlökkunar.

Góða helgi!

Sigrún Stefánsdóttir,

Forstöðumaður Hrafnistu í Laugarási.

 

Lesa meira...

Öskudagur 2022 á Hrafnistuheimilunum

 

Það var heldur betur glatt á hjalla á Hrafnistuheimilunum í gær, á sjálfan Öskudaginn, þegar starfsfólk mætti til vinnu uppáklætt í alls konar búninga líkt og hefð er fyrir á Hrafnistu á þessum degi. 

Meðfylgjandi myndir voru teknar í gær á Hrafnistuheimilunum og tala þær sínu máli.  

 

Lesa meira...

Fordæmalausir tímar - afburða árangur

 

Í dag birtist eftirfarandi grein eftir Björn Bjarka Þorsteinsson formann Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og framkvæmdastjóra Brákarhlíðar.

Fordæmalausir tímar - afburða árangur

Nú eru tvö ár frá því að við starfsmenn hjúkrunarheimila og annarra stofnana í heilbrigðiskerfinu tókumst á við fyrstu aðgerðir okkar til varnar heimilisfólki hjúkrunarheimila landsins og öðrum sem þiggja þjónustu velferðarkerfisins gagnvart Covid-19. Allt frá fyrstu stundu þessa fordæmalausa verkefnis okkar frábæra starfsfólks hafa starfsmannahópar heimila og stofnana allt í kringum landið staðið saman öll sem eitt. Í upphafi faraldursins höfðum við ekki undan að læra ný hugtök og skilgreiningar en sum þeirra hafa fest betur í huga okkar en önnur. Fordæmalausir tímar er eitt þeirra.

Í upphafi marsmánaðar 2020 tóku hjúkrunarheimili landsins stóra ákvörðun með sameiginlegum hætti; skellt var í lás og allar heimsóknir bannaðar til heimilisfólks tímabundið. Aldrei hefði undirrituðum dottið það í hug að til þess háttar aðgerða yrði nokkurn tíma gripið en aftur, aðstæður voru fordæmalausar og því var gripið til fordæmalausra ráðstafana. Sama var upp á teningnum víðar í starfsemi þeirri sem aðildarfélög innan Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu standa fyrir. Nýjar áskoranir biðu meðal annars í dagdvölum, dagþjálfunum og endurhæfingastarfsemi, sums staðar þurfti að loka, annars staðar að hliðra verulega til og allt var þetta gert af fullkomnu æðruleysi í þágu þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda og þeim til varnar. Starfsfólk sýndi einstaka fórnfýsi á allan hátt, skermaði sig af í mörgum tilvikum í sínum frítíma og aftur, allt í þágu fólksins sem treystir á þjónustu þeirra á degi hverjum.

Því miður náðu þessar hörðu aðgerðir ekki að koma alveg í veg fyrir að Covid-19 næði að höggva skörð í raðir heimilisfólks og það er afar þungbært. Engu að síður er ljóst að þær skiluðu ótvíræðum árangri í að lágmarka smitin eins og kostur var. Smit voru afar fá inni á hjúkrunarheimilum og hjá annarri starfssemi sem fyrirtæki í velferðarþjónustu veita meðan unnið var að því að efla varnir einstaklinganna með bólusetningu. Nú um stundir geisar veiran enn, en sem betur fer eru veikindin í flestum tilfellum mun mildari en þau voru fyrst í stað. Við Íslendingar stöndum vel heilt yfir og á erlendri grundu hefur verið tekið eftir hversu vel tókst til að standa vörð um íbúa á hjúkrunarheimilum. Við megum vera stolt af heilbrigðisstarfsfólkinu okkar og vil ég sérstaklega draga fram þátt starfsmanna fyrirtækja og stofnana innan raða Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Þá viljum við líka þakka sóttvarnaryfirvöldum og forráðafólki í heilbrigðiskerfinu fyrir það hve vel það stóð sig í sínum verkefnum.

Við forystufólk SFV höfum farið þess á leit við stjórnvöld að okkar fólk, sem hefur staðið vaktina með glæsibrag undanfarin tvö ár, verði umbunað fyrir fórnfýsi sína og afburða frammistöðu í fordæmalausum aðstæðum. Við trúum því og treystum að starfsfólki stofnana okkar og fyrirtækja verði umbunað líkt og hefur verið gert við a.m.k. hluta annarra heilbrigðisstarfsmanna. Aðildarfélög Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu eru mikilvægur hlekkur í heilbrigðiskerfinu og það er mikilvægt að okkar dýrmæta starfsfólk upplifi sig með þeim hætti, jafnt dags daglega sem og í fordæmalausum aðstæðum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Brákarhlíðar og formaður stjórnar Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.

 

 

Lesa meira...

Nýr aðstoðardeildarstjóri við sjúkra- og iðjuþjálfun Hrafnistu Sléttuvegi

 

Aðalheiður Þorsteinsdóttir iðjuþjálfi hefur verið ráðin aðstoðardeildastjóri við sjúkra- og iðjuþjálfun á Hrafnistu Sléttuvegi og hóf hún störf þann 1. mars sl.  Aðalheiður lauk B.Sc. námi í iðjuþjálfun frá Háskólanum á Akureyri 2021. Frá útskrift starfaði hún við iðjuþjálfunardeild Grensás. Með námi starfaði hún meðal annars á hjúkrunarsambýlinu Roðasölum og sem aðstoðarmaður iðjuþjálfa á Grensás.

Við bjóðum Aðalheiði velkomna í starfsmannahóp Hrafnistu.

 

 

Lesa meira...

Síða 10 af 167

Til baka takki