Fréttasafn

Ragnhildur Árnadóttir íbúi á Hrafnistu í Laugarási fagnar 100 ára afmæli sínu í dag

 

Ragnhildur Árnadóttir býr á Hrafnistu í Laugarási og fagnar 100 ára afmæli sínu í dag. Við á Hrafnistu færum henni hjartans hamingjuóskir í tilefni dagsins.

 

Viðtal við Ragnhildi birtist í Morgunblaðinu í dag - Ragnhildur Árnadóttir sér fram á bjartari tíð.

 

Ragnhildur Árnadóttir sér fram á bjartari tíð. Heldur upp á 100 ára afmælið innilokuð vegna veirunnar.

„Þetta fer allt að lagast,“ segir Ragnhildur Árnadóttir, sem er 100 ára í dag. Hún býr á Hrafnistu í Reykjavík og vegna kórónuveirunnar hefur hún verið innilokuð á sinni hæð og heimsóknir takmarkaðar. En hún sér fram á bjartari tíð. „Þetta fer að lagast,“ segir hún.

„Boðið verður upp á kaffi og rjómatertu í tilefni dagsins,“ heldur afmælisbarnið áfram og segir að sonurinn Oddur Garðarsson flugvirki og tengdadóttirin séu væntanleg. „Oddur og Racel, kona hans, fá að koma en ég á ekki von á öðrum vegna flensunnar.“

Ragnhildur fæddist á Njálsgötu í Reykjavík en síðan flutti fjölskyldan upp í Þverholt, þar sem faðir hennar keypti hús. „Þverholtið þótti vera uppi í sveit,“ rifjar hún upp.

Ýmis minningarbrot koma upp í hugann og Ragnhildur segist hafa upplifað margt en lífið hafi gengið sinn gang, rétt eins og hjá öðrum. Hún hafi því enga sérstaka sögu að segja. „En Reykjavík hefur breyst mikið síðan ég ólst upp, var að leika mér, passaði krakka, fór í skóla og vinnu.“

Eftir tveggja ára nám í Ingimarsskóla að loknu barnaskólanámi fór Ragnhildur að vinna í Mjólkursamsölunni. Eiginmaður hennar, Garðar Ólafsson tannlæknir, sem andaðist 1978, fór í nám til Bandaríkjanna og bjuggu þau í Portland í fjögur ár. „Þegar við komum til baka var ekki hægt að fá gjaldeyri til að kaupa nauðsynleg tæki í tannlæknastofuna nema hún væri á Selfossi eða í Keflavík. Við vorum næstum því flutt út aftur en ákváðum síðan að setjast að í Keflavík. Þar var prýðilegt að vera og mér þykir vænt um Keflavík.“

Hjónin ferðuðust mikið á meðan, en Ragnhildur segir lítið um að vera um þessar mundir. „Ég hef lesið mikið, fræðibækur og fleira, en það er lítið hægt að gera annað en lesa svona innilokuð.“

Langlífi er þekkt í fjölskyldunni. „Mömmu vantaði bara þrjá mánuði upp á 100 árin,“ segir Ragnhildur, en foreldrar hennar voru Branddís Guðmundsdóttir, sem varð 99 ára, og Árni Jónsson verkamaður, sem varð 95 ára. Ragnhildur er yngst fjögurra systra og varð ein þeirra 94 ára. „Ég tóri enn og má þakka fyrir það,“ segir Ragnhildur.

 

Lesa meira...

Árangur hjúkrunarheimila á Íslandi í baráttunni við COVID

 

Í Fréttablaðinu í dag fjallar Teitur Guðmundsson, læknir og framkvæmdastjóri Heilsuverndar, um þann árangur sem náðst hefur á hjúkrunarheimilum á Íslandi í baráttunni við COVID.

Umfjöllun í Fréttablaðinu: Árangur hjúkrunarheimila á Íslandi í baráttunni við COVID

Það má með sanni segja að okkur hafi tekist vel á Íslandi að glíma við þennan vágest sem kórónu­veiran er og er það eftirtektarvert í samanburði við önnur lönd heimsins. Yfirvöld eiga hrós skilið með þríeykið í fararbroddi frá upphafi sem hefur leiðbeint með stuðningi fagfólks, yfirvegun og góðri daglegri upplýsingagjöf. Okkur tókst það sem stefnt var að, að draga sem mest var mögulegt úr smiti, fjöldanum og sinna þeim veiku með beinum og nýstárlegri hætti en áður hefur þekkst með COVID-göngudeild Landspítala. Heilsugæsla og Læknavakt unnu samræmt sem einn maður að uppvinnslu og sýnatöku auk hins mikla stuðnings sem fékkst frá Íslenskri erfðagreiningu og almannavörnum í viðbragði við faraldrinum. Þannig var stefnan að verja heilbrigðiskerfið fyrir ofálagi, og okkur hin, en einna mest þá sem veikastir voru fyrir. Þjóðin brást við og hlýddi Víði og félögum með mjög góðum árangri.

Á hjúkrunarheimilum var tekin sú ákvörðun snemma í faraldrinum líkt og á Landspítala og víðar að loka fyrir heimsóknir, slíkt hefur aldrei gerst áður í sögunni með þeim hætti og sætti talsverðri gagnrýni. Það var ekki það eina sem var gert heldur voru teknir upp verkferlar varðandi aðföng og innkaup, hólfun eininga og aðskilnaður innan hvers húss var skipulagður í þaula. Starfsmenn voru fræddir og þjálfaðir til meðvitundar um þá áhættu sem þeir sem slíkir báru með sér væru þeir smitaðir. Verulega var hert á skoðunum og uppvinnslu þeirra sem voru með minnstu einkenni og starfsmenn héldu sig heima þar til niðurstaða fékkst úr skimprófi fyrir veiru. Samstarf við Heilsugæslu og Læknavakt var mikið og framlínustarfsmenn hvort heldur sem voru hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, sjúkra-/iðjuþjálfar, starfsfólk í aðhlynningu, eldhúsi, þrifum, húsverðir sem og læknar voru á tánum að verja hina veikustu. Árangurinn er að mínu mati heimsmet á þessum viðsjárverðu tímum þar sem flest lönd í kringum okkur hafa misst hvað flesta einstaklinga sem einmitt eru íbúar hjúkrunar- og dvalarrýma. Tölurnar eru ógnvekjandi þegar horft er til mismunandi landa í þessum hópum.

Það er mikilsvert að hrósa þeim sem það eiga skilið, það hefur vissulega farið mest fyrir umræðunni um hversu margir eru veikir í samfélaginu, liggja á spítala og gjörgæslu og í hvaða átt faraldurinn var og er að þróast, sem er eðlilegt. Heilbrigðisþjónustan hefur staðið sig með mikill prýði og verður áhugavert að sjá uppgjör að leikslokum, sumpart var mikið álag, annars staðar minna en í venjulegu árferði. Við höfum séð minna af ýmsum vanda eins og pestum, kvefi, flensu og slíku sem alla jafna fer vítt og breitt í samfélaginu. Á hjúkrunarheimilum höfum við orðið áþreifanlega vör við mun minni tíðni sýkinga en áður, en það á eftir að taka saman endanleg gögn og birta þar um.

Ég vil hrósa sérstaklega, og alls ekki gleyma, þeim hópi sem stóð vaktina með bravúr á hjúkrunarheimilum, allir sem einn um landið allt. Hrósa því hvernig hópurinn vann saman að bæði lokun heimsókna, nálgun á vinnu og ferla sína, erfiða umönnun í krefjandi kringumstæðum, stóð í fæturnar þrátt fyrir gagnrýni og gekk í málið með það að leiðarljósi að vernda íbúa sína, foreldra ykkar, ömmur og afa, bræður, systur, frænkur og frændur. Fólkið sem byggði þetta land og á allt gott skilið var verndað og þann undraverða árangur sem náðist ber mikið að þakka starfsfólki hjúkrunarheimila.

Hann er einsdæmi í heiminum nánast hvar sem við berum niður. Takk fyrir!

 

 

Lesa meira...

Evróvision og glimmerþema á Hrafnistu Hraunvangi

Lesa meira...

 

Eins og mörgum er kunnugt hafa föstudagar á Hrafnistu Hraunvangi í Hafnarfirði verið þemadagar. Sl. föstudag var Evróvision og glimmerþema og þá dugði ekki minna til en að fá Pál Óskar Hjálmtýsson til að keyra upp stemninguna. Söngnum var steymt í gegnum fésbókina þannig að allir íbúar og dagdvalargestir á Hrafnistuheimilinum gátu fylgst með stuðinu af sjónvarpsskjám og notið söngsins.

Að auki voru veitt verðlaun fyrir besta búninginn. Ólöf sjúkraþjálfari hreppti vinninginn en hún mætti í glæsilegum hatarabúning til vinnu á föstudaginn.

HÉR má sjá brot af söngnum hans Palla ásamt undirleik Ásgeirs gítarleikara.

 

Lesa meira...

Skógarbær hélt upp á 23 ára afmælið föstudaginn 15. maí

Lesa meira...

 

Dagurinn byrjaði á því að íslenski fáninn var dreginn að húni. Elsa, starfsmaður í félagsbæ, spilaði á nikkuna í sólinni og sagði sögur. Í hádeginu var boðið upp á kótilettur með öllu tilheyrandi og afmælisköku í kaffinu. Sunginn var afmælissöngur til heimilisins og allir tóku undir. 

Íbúar og starfsfólk fagna hverju ári og eru þakklát fyrir að Skógarbær sé gott heimili og góður vinnustaður.

Til hamingju með afmælið Skógarbær!

 

Meðfylgjandi myndir voru teknar á afmælishátíðinni sl. föstudag.

 

Lesa meira...

Stjórn Sjómannadagsráðs 2020 - 2023

 

Aðalfundur Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins var haldinn þriðjudaginn 12. maí 2020 í þjónustumiðstöð Sjómannadagsráðs við Sléttuveg. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa fór fram kjör formanns Sjómannadagsráðs þar sem Hálfdan Henrysson var endurkjörin til næstu þriggja ára vegna fjölda áskorana. Aðrir í stjórn eru Guðjón Ármann Einarsson, varaformaður, Jónas Garðarsson gjaldkeri, Oddur Magnússon varagjaldkeri og Sigurður Ólafsson ritari. Guðmundur Helgi Þórarinsson var kjörinn varamaður í stjórn í stað Bergs Þorkelssonar sem situr áfram í kjörbréfanefnd. Skoðunarmenn ársreikninga voru kjörnir Björn Pálsson og Yngvi Einarsson og varamenn Finnbogi Aðalsteinsson og Ólafur Hjálmarsson. Reynir Björnsson lét af störfum sem skoðunarmaður.

Sjómannadagsráð þakkar Bergi og Reyni fyrir góð störf í þágu ráðsins.

 

Lesa meira...

Forstjóraskipti hjá Hrafnistu

Lesa meira...

 

Pétur Magnússon hefur óskað eftir að láta af störfum sem forstjóri Hrafnistu eftir tólf ára farsæl störf fyrir Sjómannadagsráð höfuðborgarsvæðisins við daglega stjórn og mikla uppbyggingu og umbætur í starfsemi Hrafnistu sem leiðandi fyrirtækis á sviði öldrunarþjónustu hér á landi. Pétur hverfur til annarra spennandi starfa og hefur stjórn Sjómannadagsráðs falið Sigurði Garðarssyni, framkvæmdastjóra Sjómannadagsráðs og Naustavarar, og Maríu Fjólu Harðardóttur framkvæmdastjóra heilbrigðissviðs Hrafnistu, að taka tímabundið við starfinu og munu þau leiða áframhaldandi starfsemi, þróun og uppbyggingu Hrafnistuheimilanna sem eru alls átta að tölu á suðvesturhorni landsins.

Stjórn Sjómannadagsráðs er afar þakklát Pétri fyrir framlag hans í þágu félagsins og fyrir þann árangur sem hann hefur náð í starfi sem bætt hafa gæði öldrunarþjónustu í landinu og óskar ráðið honum alls velfarnaðar á nýjum vettvangi. Jafnframt er stjórn ráðsins þess fullviss að undir stjórn Sigurðar Garðarssonar og Maríu Fjólu Harðardóttur í starfi forstjóra verði engir hnökrar á daglegri og mikilvægri starfsemi Hrafnistu og því skipulagi sem þróað hefur verið til að hámarka gæði þjónustunnar í þágu íbúa Hrafnistu og þeirra fjölmörgu sem sækja þangað daglega þjónustu.

 

Sjómannadagsráð höfuðborgarsvæðisins

Sjómannadagsráð höfuðborgarsvæðisins er móðurfélag Hrafnistu, Naustavarar og Happdrættis DAS. Á vegum félagsins eru rekin átta hjúkrunarheimili Hrafnistu í fimm sveitarfélögum á suðvesturhorni landsins. Hrafnista er stærsta einstaka öldrunareining landsins, með um fjórðung hjúkrunarrýma á landsvísu þar sem íbúar eru um 800 auk þess sem um tvö hundruð einstaklingar sækja þangað þjónustu í dagdvöl. Þessum stóra og góða hópi þjónustar vel á annað þúsund breiður hópur starfsmanna Hrafnistu með einum eða öðrum hætti árið um kring. Auk íbúa og dagdvalarþega Hrafnistu rekur Naustavör um 250 leiguíbúðir í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi.

 

Stjórn Sjómannadagsráðs.

 

Lesa meira...

Breytingar hjá forstjóra Hrafnistu

Lesa meira...

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Ég vildi upplýsa ykkur um að í gær, sagði ég starfi mínu lausu sem forstjóri Hrafnistuheimilanna. Ég hóf störf sem forstjóri Hrafnistu í febrúar 2008 og hef því gegnt starfinu í rúm 12 ár. Hrafnista hefur því verið og verður alltaf stór og merkilegur hluti af lífi mínu. Ákvörðunin er alfarið mín og ekki tekin vegna óánægju á neinn hátt. Niðurstaða mín er mér erfið - en rétt - og hún er einfaldlega sú að minn tími er kominn.

Ég hef þessi 12 ár notið þeirra forréttinda að vera í þessu starfi, sem fyrir mig er eitt það skemmtilegasta sem hægt er að hugsa sér. Varla man ég eftir leiðinlegum degi en auðvitað hafa komið misskemmtileg tímabil. Eftir situr þó urmull minninga um fjöldan allan af skemmtilegu fólki sem ég hef fengið að kynnast, starfa með, læra af en einnig náð að gefa af mér og gefa öðrum tækifæri til að njóta sín. Á þessum árum hefur Hrafnista vaxið og dafnað og að mínu mati náð að blómstra sem eitt merkilegasta og áhugaverðasta fyrirtæki landsins. Sem leiðandi aðili í öldrunarþjónustu hefur Hrafnista verið í fararbroddi hér á landi og hefur verið hreint frábært að fylgjast með mögnuðum hópi stjórnenda og starfsmanna gera þetta allt að veruleika.

Ekki er ljóst hvaða dag ég hætti störfum en það mun skýrast á næstunni og vonandi næ ég að kasta kveðju á ykkur sem flest áður en ég fer. Nýr vinnustaður minn er Reykjalundur þar sem bíða mín spennandi verkefni.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka stjórnendum, starfsfólki, stjórnarmönnum, íbúum og velunnurum öllum auk fulltrúa Sjómannadagsráðs fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf. Jafnframt vil ég þakka fyrir það tækifæri sem mér var gefið að fá að sinna þessu frábæra starfi öll þessi ár.

Ég kveð Hrafnistu með mikilum söknuði en stundum er gott að hætta leik þá hæst hann stendur.

Óska ég ykkur öllum, sem og allri starfsemi Hrafnistu og fyrirtækja Sjómannadagsráðs, allra heilla!

 

Bestu kveðjur,

Pétur

 

Lesa meira...

Síða 10 af 139

Til baka takki