Fréttasafn

Íbúar og starfsfólk hjúkrunarheimila gáfu Víði afmælisköku

Lesa meira...

 

Anna Birna Jensdóttir, í stjórn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV), var gestur á blaðamannafundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í dag. Þar færði hún Víði Reynissyni afmælistertu frá íbúum og starfsfólki hjúkrunarheimila. Víðir þakkaði kærlega fyrir sig og sendi fingurkoss í þakklætisskyni.

Umfjöllun á visir.is - Víðir fékk afmælisköku

 

Víðir fékk afmælisköku á fundinum: „Maður fær bara tár í augun“

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, er 53 ára í dag og fékk hann heldur betur óvænta gjöf á upplýsingafundi almannavarnadeild ríkislögreglustjóra í Skógarhlíð í dag.

Anna Birna Jensdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunarheimilisins Sóltúns, tók til máls á fundinum í dag og var hún þar fyrir hönd Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.

Hún afhenti Víði afmælisköku frá öllum framlínustarfsmönnunum á hjúkrunarheimilinu og öllum íbúunum líka og þakkaði honum fyrir vel unnin störf.

„Maður fær nú bara tár í augun,“ sagði Víðir á fundinum.

 

Umfjöllun á hringbraut.frettabladid.is - Mynd dagsins: Þetta stóð í af­mælis­kortinu til Víðis Reynis­sonar

 

Mynd dagsins: Þetta stóð í af­mælis­kortinu til Víðis Reynis­sonar

Víðir Reynis­­son, yfir­­lög­­reglu­­þjónn hjá ríkis­lög­reglu­stjóra, á af­­mæli í dag en hann er 53 ára gamall. Af því til­­efni færði Anna Birna Jens­dóttir, stjórnar­maður hjá Sam­tökum fyrir­­­tækja í vel­­ferðar­­þjónustu, honum köku.

Í kortinu stóð:

Kæri Víðir

Í­búar og starfs­fólk hjúkrunar­heimila sendir þér hug­heilar hamingju­óskir í til­efni dagsins.

Fyrir hönd Sam­taka fyrir­tækja í vel­ferðar­þjónustu,

Pétur Magnús­son, for­maður stjórnar.

Gangi þér allt í haginn!

Víðir komst við þegar hann tók við kökunni og sagði: „Ég fæ nú bara tár í augun“

Í lok fundarins skoraði Víðir á fólk að gera gagn fyrir sam­fé­lagið og taka þátt í stóra plokk­deginum á laugar­daginn en muna um leið tveggja metra regluna og vera um leið ekki í of stórum hópum.

Í lok fundar sagði Víðir:

„Svo langar mig bara að þakka fyrir mig.“

Að því mæltu sendi hann ís­lensku þjóðinni fingur­koss.

 

 

 

 

Lesa meira...

Innleiðing á nýju bókunarkerfi fyrir spjaldtölvur

Lesa meira...

 

Þessa dagana er verið að innleiða bókunarkerfi fyrir spjaldtölvurnar til að einfalda aðstandendum að bóka símtöl, skype og messenger samtöl við ástvini sína. Það var Einar Árni Bjarnason starfmaður á Hrafnistu Hraunvangi í Hafnarfirði sem bauðst til að einfalda þessa verkferla fyrir okkur og úr varð þetta fína bókunarkerfi sem vakið hefur mikla ánægju enda bæði einfalt og þægilegt í notkun.

Nánari upplýsingar um bókunarkerfið er að finna á aðstandandasíðum þeirra deilda sem hafa innleitt kerfið.

Þökkum Einari Árna fyrir flott framtak og frumkvæði að þessu verkefni.

 

Lesa meira...

Vann frá morgni til miðnættis er álagið var mest

Lesa meira...

 

Hulda Birna Frímannsdóttir sjúkraliði sagði frá því í viðtali við Kjarnann að álag á starfsmenn Hrafnistu Laugarási í Reykjavík hafi aukist mikið í kjölfar heimsóknarbanns og smits starfsmanns sem þar kom upp. Viðtalið við Huldu Birnu birtist í gær á kjarninn.is.

Viðtalið við Huldu Birnu í Kjarnanum

 

Vann frá morgni til miðnættis er álagið var mest

Álag á starfsmenn Hrafnistu í Reykjavík jókst mikið í kjölfar heimsóknarbanns og smits starfsmanns sem þar kom upp. Hulda Birna Frímannsdóttir, sjúkraliði með tæplega fjögurra áratuga reynslu, segir íbúa öldrunarheimilisins flesta sýna ástandinu skilning. Þó að þeir hlakki til að hitta ættingja og vini vilji þeir að banninu verði aflétt hægt og rólega.

 „Ég hef það ágætt en ég hef reyndar verið að vinna rosalega mikið undanfarið,“ segir Hulda Birna í samtali við Kjarnann. Hún er í vinnunni en segist eiga nokkrar mínútur til að spjalla.

Hulda Birna er í fullri vinnu, tekur morgun-, kvöld- og helgarvaktir á víxl og næturvaktir ef á þarf að halda.

Hvernig eru vinnudagarnir þínir nú um stundir?

„Ég hef nú verið í töluvert meira en 100 prósent vinnu síðustu vikur. Og líklega síðustu mánuði.“

Nokkuð mikið álag var á Laugarási fyrir faraldur kórónuveirunnar og það jókst mikið eftir að ákveðið var að setja á heimsóknarbann til að vernda íbúana. Einn starfsmaður greindist svo með COVID-19 og í kjölfarið þurfti að setja íbúa á þeirri deild í einangrun og senda samstarfsmenn heim í sóttkví.

Hulda er ekki bundin við eina deild í sínu starfi. Hún fer á milli deilda þar sem þörfin er mest hverju sinni. Þegar allir hjúkrunarfræðingarnir á deildinni þar sem smitið kom upp þurftu að fara í sóttkví og meirihluti annarra starfsmanna í aðhlynningu var Hulda Birna kölluð til starfa á henni. Hún er með framhaldsmenntun í hjúkrun aldraðra og starfar því á hjúkrunarvöktum. Hún tók því deildina að sér eins og hún orðar það.

„Í um viku var ég þarna meira og minna frá átta á morgnana til miðnættis,“ segir hún og hlær létt. Hún hafi því verið í 200 prósent vinnu þá daga. En hún vill ekki kvarta. „Góðu fréttirnar eru þær að enginn íbúi reyndist smitaður og enginn annar starfsmaður svo þetta fór allt saman eins vel og hægt var að hugsa sér.“

Eitt af þeim fjölmörgum verkefnum sem Hulda Birna hefur sinnt síðustu vikur er að taka sýni af íbúum til að ganga úr skugga um hvort þeir séu sýktir af COVID-19. Í nokkrum tilfellum hefur komið upp grunur um slíkt og þá eru íbúar settir í einangrun þar til niðurstaða fæst. Á meðan þurfa starfsmenn reglum samkvæmt að sinna þeim klæddir hlífðarfatnaði. „Ég hef tekið mörg sýni í þessu húsi undanfarið en þau hafa sem betur fer öll reynst neikvæð,“ segir Hulda Birna. Þá hafi hún þurft að klæðast gallanum heita og segist ekki getað ímyndað sér hvernig sé að vera í honum lengi í einu. „Ég myndi satt best að segja ekki vilja það.“

Hvað ertu búin að vinna lengi sem sjúkraliði?

Hulda Birna hlær og segir svo: „Það er nú varla að ég vilji segja það upphátt! En það er víst síðan 1983.“

Það gera hvorki meira né minna en 37 ár. Á þeim tíma hefur Hulda Birna aflað sér mikillar þekkingar og reynslu. Hún hóf störf sem sjúkraliði á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki á sínum tíma, fór því næst á sjúkrahúsið á Blönduósi og þar vann hún í tuttugu ár. Næstu tíu árin vann hún á öldrunarheimilinu Hlíð á Akureyri. Á sumrin fór hún stundum suður og vann á Hrafnistu í afleysingum svo hún þekkti starfsemina vel er hún hóf þar að fullu störf árið 2014. „Þegar ég sótti um starf á Hrafnistu í gegnum netið liðu að mig minnir ekki nema svona tuttugu mínútur. Þá var ég búin að fá svar og var spurð hvenær ég gæti byrjað.“

Fyrrverandi starfsmenn mættu til aðstoðar

Er faraldurinn skall á skapaðist auka álag á starfsmenn Hafnistu Laugaráss. Hulda Birna segir að starfsmenn hafi verið hvattir til að hitta sem fæsta utan vinnu – allt í nafni ítrustu sóttvarna. Það hafi sumum þótt erfitt þó að allir hafi farið eftir því eftir fremsta megni.

Annað slagið hafa svo alltaf einhverjir starfsmenn úr öllum starfsstéttum verið að detta tímabundið út vegna sóttkvíar. Til að létta álagið á deildinni sem lenti í sóttkví  var leitað til fyrrverandi starfsmanna og þeir beðnir að koma til aðstoðar. Töluverður hópur gerði það og fékk þá leyfi frá sinni föstu vinnu á meðan. „Það bjargaði ýmsu en þetta var engu að síður mikið púsluspil alla daga.“

Í kjölfar heimsóknarbannsins segir Hulda Birna að meiri ró hafi færst yfir á öldrunarheimilinu. „Íbúarnir tóku þessu flest allir mjög vel. Þeir vissu að þetta var gert þeim til verndar.“

Sumir eiga þó erfitt með að skilja af hverju enginn komi í heimsókn, sérstaklega þeir sem eru með minnisglöp. Þá hefur starfsfólkið lagt sig fram við að róa viðkomandi, spjalla og hughreysta og reyna að útskýra stöðuna. „Allt þetta er stór hluti af starfi sjúkraliða,“ segir Hulda Birna.

Aðstandendur hafa einnig langflestir tekið heimsóknarbanninu vel og sýnt því skilning. „Þeir hringja og þakka okkur fyrir að hlúa að ástvinum sínum, að þeir séu öruggir hjá okkur og hrósa okkur fyrir að standa okkur vel við þessar skrítnu aðstæður.“

Nota spjaldtölvur til samskipta

Hulda Birna segist ekki geta hugsað þá hugsun til enda ef kórónuveiran hefði fengið að leika lausum hala á öldrunarheimilinu. Þá hefði ástandið orðið skelfilegt.

Íbúarnir eru í samskiptum við sína nánustu í gegnum síma og rúmri viku eftir að heimsóknarbannið var sett á þá var farið að nota spjaldtölvur svo að þeir gætu séð ástvini sína í mynd. „Í dag eru margir aðstandendur að hafa samband við fólkið sitt í gegnum spjaldtölvu. Það gengur bara vel þó að gamla fólkinu finnist sumu skrítið að sjá ættingjana í svona ramma! En þetta hefur létt lundina hjá mörgum, ég sé það alveg.“

Spurð hvort hún hafi áhyggjur af andlegri heilsu íbúanna segir hún margt hafa breyst til hins betra í starfseminni sem dragi úr hættu á því. Sjúkraþjálfarar og iðjuþjálfar starfi nú til dæmis inni á deildum Hrafnistu. „Þeir eru bara orðnir hluti af starfsemi deildarinnar.“ Boðið sé upp á leikfimi, bíó, lestrarstundir og fleira. „Það er ánægjulegt að sjá að fullt af fólki er orðið virkt, tekur þátt í því starfi sem er í boði, fólk sem áður gerði það ekki.“

Hulda Birna segir það hafa komið sér á óvart hvað allt hafi gengið vel þrátt fyrir ýmsa hnökra og miklar breytingar vegna heimsóknarbannsins. „Þetta er auðvitað mikið inngrip í líf fjölda fólks, snýr lífi þeirra á hvolf. Svo það er aðdáunarvert að eldra fólkið í samfélaginu taki þessu öllu svona vel.“

Nú fer að nálgast sá dagur að heimsóknarbanni á öldrunarheimili verður aflétt í skrefum. Landlæknir segir að unnið sé að útfærslu á því í samstarfi margra stofnana. Hulda Birna finnur að íbúarnir eru farnir að hlakka til að geta hitt ættingja og vini utan Hrafnistu.

„En hér tala margir um það að þetta þurfi að gerast hægt og rólega. Ég verð að viðurkenna að ég hef ákveðnar áhyggjur af því hvað muni gerast. Ég vona að það verði settur stífur rammi utan um þetta og þessu stýrt eins vel og hægt er til að halda áfram að verja þennan viðkvæma hóp.“

 

Hulda Birna Frímannsdóttir, sjúkraliði með tæplega fjögurra áratuga reynslu, segir íbúa öldrunarheimilisins flesta sýna ástandinu skilning. Þó að þeir hlakki til að hitta ættingja og vini vilji þeir að banninu verði aflétt hægt og rólega.

 

Lesa meira...

Starfsmaður Hrafnistu gerir fólki kleift að ferðast frítt

Lesa meira...

 

Skemmtilegt viðtal við Svavar Jónatansson birtist Fréttablaðinu í gær en Svavar er starfsmaður í dagþjálfun á Viðey Hrafnistu Laugarási. Þar segir hann m.a. frá því að síðustu tvær vikurnar hefur hann með samþykki Ferðafélags Íslands tekið sig til og lesið valda kafla úr árbókum Ferða­félagsins og gert þá aðgengilega frítt á netinu og í hlaðvarpsformi undir nafninu „Kórónulestur“. 

Viðtalið við Svavar í Fréttablaðinu

 

Starfsmaður Hrafnistu gerir fólki kleift að ferðast frítt

Starfsmaður Hrafnistu les upp úr árbókum Ferðafélagsins í frítíma sínum og gerir upptökur af lestrinum aðgengilegar. Hann vonar að umfjöllunin verði grundvöllur að símtali til eldra fólks um eitthvað annað en faraldurinn.

Ástæðan er margþætt en það má segja að þetta sé mín tilraun til að tengja saman yngri kynslóðina við þá eldri sem er frekar einangruð núna, með því að bjóða upp á annað umræðuefni en faraldurinn,“ segir Svavar Jónatansson, starfsmaður Hrafnistu, hljóðbókalesari og leiðsögumaður.Með samþykki Ferðafélags Íslands hefur hann tekið sig til og lesið valda kafla úr árbókum Ferða­félagsins síðustu tvær vikur og gert þá aðgengilega frítt á netinu og í hlaðvarpsformi undir nafninu Kórónulestur. „Með því að lesa upp úr þessum árbókum vonast ég til að skapa grundvöll til símtals þar sem yngri og eldri kynslóðir geta spjallað um eitthvað annað en núverandi ástand.“

Svavar hefur fengist við hljóð­bóka­lestur síðustu tvö ár og dag­skrár­gerð á Rás 1 síðastliðinn ára­tug. Hver lestur úr árbókunum er á bilinu hálftími upp í klukkustund. Rödd Svavars er þjál og má segja að hún henti vel í verkefni af þessu tagi. „Þetta er líka fín æfing fyrir mig. Svo veit ég hversu jákvæð áhrif lestur fyrir fólk getur haft, að fenginni reynslu héðan af Hrafnistu."

Líkt og margir aðrir starfsmenn hjúkrunarheimila er Svavar í tak­mörk­uðum samskiptum utan vinn­unnar þessa dagana. „Það er mjög gott að hafa eitthvað svona fyrir stafni þegar ég kem heim, enda lítið um hitting við vini og fjölskyldu.“

Freistar þess að brydda upp á öðrum umræðuefnum

Síðustu vikur hafa margir staðið sig í að hringja í eldra fólk og aðra sem eru í sjálfskipaðri sóttkví vegna áhættuþátta. „Þessi símtöl geta orðið ansi formúlukennd eftir einhvern tíma og fara svo oft að snúast eingöngu um faraldurinn, umræðuefni sem getur orðið yfirþyrmandi.

Með þessu vil ég gefa fólki hugmyndir að öðrum umræðuefnum,“ segir Svavar. „Minningar geta verið það verðmætasta sem fólk á og frásagnirnar í þessum árbókum eru svo gott tækifæri til að endurupplifa góðar minningar, til dæmis tengdar ferðalögum innanlands.“

En hvers vegna árbækur Ferðafélagsins? „Árbækurnar eru endalaus fróðleiksbrunnur. Það er allur andskotinn í þessu. Hver blaðsíða bætir við einhverri þekkingu, þetta eru líka algjörir gullmolar fyrir leiðsögumenn. Nýlegur lestur var um Heklu úr árbókinni frá 1945. Þar er ítarleg útlistun á öllum gosum frá landnámi til fimmta áratugarins.“

Margir koma líklega til með að ferðast innanlands í sumar, og getur þetta því líka vakið áhuga landsmanna á eigin landi. „Þessi lestur kveikir áhuga á ýmsum svæðum sem maður hefði ekki endilega hugsað sér að ferðast til. Svo veit ég, að fenginni reynslu af Hrafnistu, að þetta gerir fólki kleift að ferðast á vængjum minninganna.“ Lesturinn má nálgast á slóðinni www.svavar.net/korona.

 

Lesa meira...

Þakkir til starfsfólks hjúkrunarheimila

Lesa meira...

 

Þó fjöldamargir eigi þakkir skildar fyrir framlag sitt í þessu fordæmalausa ástandi, á starfsfólk hjúkrunarheimila skilið sérstakt hrós fyrir frammistöðu sína - eins og fram kemur í þessari grein sem birtist á visir.is í gær.

Grein á visir.is

 

Þakkir til starfsfólks hjúkrunarheimila

Þann 6. mars sl. var staðfest að smit vegna Kórónuveirunnar (COVID – 19) væri farið að berast á milli einstaklinga í þjóðfélaginu. Við það tilefni var lýst neyðarstigi almannavarna og sama dag ákváðu Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu að beina því til hjúkrunarheimila landsins að loka heimilunum fyrir heimsóknum og umferð annarra en starfsfólks. Þau tilmæli voru ekki gefin út af léttúð, heldur að vel ígrunduðu máli og í samráði við starfsfólk hjá Embætti landlæknis og fjölda fagaðila sem starfa innan hjúkrunarheimilanna og í þjónustu við einstaklinga með heilabilun. Það var samdóma álit þessara fagaðila að þörf væri á slíkri aðgerð og að grípa yrði til hennar sem fyrst. Aðgerðin var gerð með velferð íbúa heimilanna að leiðarljósi en þeir eru flestir aldraðir og/eða með ýmsa undirliggjandi sjúkdóma og eru því í sérstökum áhættuhópi tengt því að veikjast alvarlega af völdum veirunnar. Ljóst var frá upphafi að leita yrði allra leiða til að lágmarka eins og kostur var líkur á að íbúar heimilanna smituðust.

Nú eru um 2.800 hjúkrunarrými hér á landi. Ljóst var að bann við heimsóknum myndi hafa mikil áhrif á daglegt líf þúsunda landsmanna og yrði án efa mjög erfitt fyrir alla; íbúana sjálfa, ættingja og aðstandendur þeirra, sem og starfsfólk heimilanna. Það getur vitanlega reynst íbúum erfitt að fá ekki heimsóknir ættingja sinna og á sama hátt getur það reynst ættingjum erfitt að fá ekki að fara í heimsókn. Þann tíma sem bannið hefur varað hefur það ekki síður reynst starfsfólki hjúkrunarheimilanna erfitt, sem lagt hefur sig fram við að skipuleggja daglegt starf við breyttar aðstæður og unnið af alúð við umönnun íbúa með þeim hætti að þeir finni sem minnst fyrir breytingunum.

Aðstandendur og íbúar hafa sýnt ákvörðun hjúkrunarheimilanna skilning og unnið vel með stjórnendum og starfsmönnum heimilanna. Starfsfólkið hefur unnið þrekvirki undanfarnar vikur, ekki bara við aðlögun að breytingunum á vinnustöðunum heldur einnig með því að vanda sig sérstaklega í umgengni við aðra, innan sem utan vinnutíma. Margir starfsmenn hafa sjálfir búið í ákveðinni sóttkví í margar vikur og haldið sig með sinni fjölskyldu (og jafnvel án hennar ef aðstæður hafa verið þannig) innan veggja heimilisins, á milli þess sem þeir mæta til vinnu. Stjórnendur hafa unnið sleitulaust að breytingum á starfsmannahaldi, sóttvörnum og viðbragðsáætlunum. Þetta samstarf allra aðila hefur orðið til þess að núna þegar faraldurinn er á niðurleið hefur einungis komið upp smit á einu hjúkrunarheimili á landinu og af heildarfjölda starfsmanna hjúkrunarheimila hafa einungis örfáir smitast. Þetta verður að telja góðan árangur sem vert er að þakka. Fjölmiðlar hafa á síðustu vikum flutt fréttir af harmleikjum á hjúkrunarheimilum erlendis, þar á meðal Bretlandi, Frakklandi, Ítalíu, Kanada og Bandaríkjunum þar sem málin hafa ekki verið tekin jafn föstum tökum og hér á landi.

Starfsfólk Almannavarna og Embættis landlæknis ásamt heilbrigðisstarfsfólki og fjölda annarra aðila í samfélaginu eiga bestu þakkir skildar fyrir þann góða árangur sem náðst hefur í baráttunni gegn faraldrinum hér á landi. Okkur langar þó að nota þennan vettvang til að þakka sérstaklega þeim þúsundum starfsmanna sem vinna á hjúkrunarheimilum hér á landi fyrir að leggja sín mikilvægu lóð á vogarskálarnar í baráttunni. Ykkar framlag er ómetanlegt í þágu velferðar aldraðra hér á landi.

Nú er tillögugerð að ákveðnum tilslökunum á heimsóknarbanni á hjúkrunarheimilum á lokastigum. Tilslakanirnar verða framkvæmdar í nokkrum hægum skrefum í einu og tekur fyrsta skrefið gildi mánudaginn 4. maí. Fram að þeim tíma verða engar breytingar á núverandi heimsóknarbanni. Tilslakanirnar verða kynntar síðasta vetrardag, miðvikudaginn 22. apríl. Það verður mikill léttir fyrir alla aðila þegar tilslakanirnar hefjast enda mun heimsóknarbannið hafa staðið í tæpa 60 daga þann 4. maí. Hættan er hins vegar langt frá því liðin hjá. Á næstu vikum og mánuðum þurfum við öll að sýna þolinmæði og halda þetta út því einungis með breiðri samstöðu mun okkur takast að sigla í gegnum þennan öldudal og sigrast að lokum á skaðvaldinum.

Höfundar eru Pétur Magnússon, formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, og Eybjörg H. Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.

 

 

Lesa meira...

Tilslökun Hrafnistuheimilanna á heimsóknarbanni

Lesa meira...

 

Meðfylgjandi tilkynning verður send til aðstandenda Hrafnistuheimilanna í dag:

 

Ágæti aðstandandi,

22. apríl 2020

Það er okkur ánægja að kynna að ákveðið hefur verið að opna á heimsóknir á Hrafnistuheimilunum frá og með 4. maí næstkomandi, þó með ákveðnum takmörkunum.

Þó mikið hafi áunnist í baráttunni gegn COVID-19 erum við ekki komin í höfn og sýna þarf ýtrustu varkárni og virða sóttvarnaráðstafanir í heimsóknum.  Nauðsynlegt er að takmarka þann fjölda gesta sem kemur inn í heimilið á hverjum tíma, þar sem líkur á smitum aukast með hverjum þeim aðila sem kemur nýr inn á heimilið. Þess vegna biðjum við ykkur að reyna að velja einn aðstandanda sem kemur inn fyrstu tvær vikurnar.  Vonir eru bundnar við að rýmka enn frekar um heimsóknir í júní 2020.

Þriðjudaginn 28. apríl mun hvert heimili vera í sambandi við aðstandendur með nánari kynningu á því hvernig úthlutanir / pantanir fara fram.

Vinsamlega kynnið ykkur vel eftirfarandi heimsóknarreglur:

 1. Þú þarft að eiga úthlutaðan / pantaðan tíma til að koma í heimsókn.
 2. Ekki panta heimsóknartíma og alls ekki koma í heimsókn ef:
 3. Þú ert í sóttkví
 4. Þú ert í einangrun eða að bíða eftir niðurstöðu úr sýnatöku
 5. Þú hefur verið í einangrun og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift.
 6. Þú ert með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang o.fl.).
 7. Heimild til heimsókna einu sinni í viku er veitt frá 4. maí.  Ef vel gengur í baráttunni við veiruna, verður tíðni heimsókna aukin.
 8. Við hvetjum ykkur til að hlaða niður í símana ykkar smitrakningnarappi almannavarna Rakning C-19 fyrir 4. maí
 9. Bíða skal eftir starfsmanni í anddyri heimilis á merktu svæði og hann fylgir ykkur til íbúa.  Munið að þvo eða/og spritta hendur áður en heimsókn hefst og að henni lokinni.
 10. Virða skal 2ja metra regluna og forðast beina snertingu við íbúa eins og hægt er.
 11. Óheimilt er að eiga samskipti við aðra aðstandendur af öðru sóttvarnarsvæði (önnur deild en þinn íbúi býr á) á meðan beðið er eftir að fara inn á deildina.

Við hvetjum ykkur til að nýta tímann til þess að heimsækja ástvin ykkar og ef einhver fyrirspurn er um heilsu hans, þá vinsamlega ræðið það á öðrum tíma í síma við hjúkrunarfræðing.

Það er von okkar að þessi ráðstöfun létti íbúum og aðstandendum lífið enda almennt heimsóknarbann ekki verið áður í gildi í 60 ára sögu Hrafnistu. Hættan er hins vegar langt frá því að vera liðin hjá. Á næstu vikum og mánuðum þurfum við öll að sýna þolinmæði og halda þetta út því einungis með breiðri samstöðu mun okkur takast að sigla í gegnum þennan öldudal og sigrast að lokum á skaðvaldinum.

Kær kveðja,

Neyðarstjórn Hrafnistu

 

Bréf neyðarstjórnar til aðstandenda 

 

 

Lesa meira...

Hópur listamanna söng fyrir íbúa á Hrafnistu Sléttuvegi

Lesa meira...

 

Það skapaðist mikil gleðistund meðal íbúa og starfsfólks á Hrafnistu Sléttuvegi í gær þegar hópur landsþekktra listamanna, í forsvari Björgvins Franz Gíslasonar, lagði leið sína þangað til að syngja og gleðja íbúa og starfsfólk.

Hópurinn hefur áður sungið fyrir íbúa Hrafnistuheimilanna á Ísafold í Garðabæ, Hraunvangi í Hafnarfirði og Skógarbæ í Reykjavík við góðar undirtektir. Eins og flestir vita ríkir heimsóknarbann á Hrafnistuheimilunum vegna COVID-19 og því eru viðburðir af þessu tagi mikið gleðiefni fyrir íbúa.

Á meðfylgjandi myndum má sjá þegar sönghópurinn kom sér fyrir út í garði á Sléttuveginum og söng fyrir íbúa sem margir hverjir sátu úti á svölum til að hlýða á sönginn.  

 

Lesa meira...

Takk Vigdís!

Lesa meira...

 

Í tilefni af 90 ára afmæli Frú Vigdísar Finnbogadóttur á dögunum hefur verið haldið upp á það með ýmsum hætti á Hrafnistuheimilinum. Í gær var til að mynda haldinn Vigdísardagur þar sem boðið var upp á sérstakar Vigdísar kökur á öllum Hrafnistuheimilunum með kaffinu.

Kökurnar voru mismunandi í laginu eins og meðfylgjandi myndir sýna og féllu afskaplega vel í kramið hjá bæði íbúum og starfsfólki.

 

Lesa meira...

Tilslakanir á heimsóknarbanni framundan

Lesa meira...

 

Neyðarstjórn Hrafnistu tók þá ákvörðun frá og með 7. mars s.l. að loka öllum Hrafnistuheimilunum fyrir heimsóknum ættingja og annarra gesta þar til annað verður formlega tilkynnt. Var þetta gert í samráði við Sóttvarnarlækni og Landlækni eftir að Neyðarstigi almannavarna hefði verið lýst yfir fyrr um daginn.

Heilsa og velferð íbúanna okkar þarf alltaf að vera í forgangi og það er í raun ástæðan fyrir þessum aðgerðum sem eru án fordæma í sögunni.

Þar sem íbúar Hrafnistu, rétt eins og annarra hjúkrunarheimila eru flestir aldraðir og/eða með ýmsa undirliggjandi sjúkdóma eru þeir í sérstökum áhættuhóp tengt því að veikjast alvarlega af Kórónaveirunni. 

Leita þarf allra leiða til að draga úr þeirri hættu að íbúar heimilanna veikist af Kórónaveirunni. Því færri sem koma inn á heimilin því minni líkur á smiti. Hefur þetta ferli tekist mjög vel til og sannað gildi sitt.

Á upplýsingafundi ríkisstjórnarinnar 14. apríl s.l. nefndi forsætisráðherra í máli sínu að tilslakanir á heimsóknarbanni hjúkrunarheimila væru í undirbúningi og á daglegum fundi Almannavarna í gær nefndi Landlæknir að þessar tillögur yrðu kynntar í næstu viku.

Vinnuhópur á vegum Almannavarna, Embættis landlæknis, heilbrigðisráðuneytis og hjúkrunarheimila hefur fundað reglulega síðustu vikur og er hópurinn nú að vinna tillögur að þessum tilslökunum. Þær verða gerðar í hægum skrefum en fyrstu tilslakanirnar munu taka gildi strax 4. maí. Fram að 4. maí verða engar breytingar á núverandi heimsóknarbanni.

Tilslakanirnar verða kynntar síðasta vetrardag, miðvikudaginn í næstu viku (22. apríl) og miða m.a. við að aðeins einn geti heimsótt íbúa hjúkrunarheimilis í einu samkvæmt ákveðnum reglum og tekin verða lítil skref í einu.

Þetta verður auðvitað mikill léttir enda mun heimsóknarbann hafa staðið í tæpa 60 daga þann 4. maí.

Eins og áður segir verða nákvæmar reglur um þetta kynntar í næstu viku og verður þá farið í undirbúning á hverri deild í samræmi við það.

 

 

Lesa meira...

Síða 12 af 139

Til baka takki