Fyrir helgi var magnað að verða vitni af öflugri og fumlausri samvinnu Hrafnistu, Reykjanesbæjar, Almannavarna, stjórnvalda og allra annarra sem vettlingi gátu valdið við að tryggja öryggi íbúa hjúkrunarheimilanna tveggja sem Hrafnista rekur í Reykjanesbæ í kjölfar verstu sviðsmyndarinnar sem teiknuð hafði verið upp í tengslum við jarðhræringarnar á Suðurnesjum þegar heitavatnslögn fór undir hraun og fyrir lá að það færi ört kólnandi á Reykjanesinu öllu.
Með samhentu átaki tókst að setja saman og koma fyrir olíufylltum ofnum til að tryggja sem bestu aðstæður fyrir alla íbúa okkar á Nesvöllum og Hlévangi á meðan á framkvæmdum við nýja hjáveitulögn Njarðvíkuræðarinnar stóð. En íbúar hjúkrunarheimila eru líkast til sá hópur samferðafólks okkar sem má við sem minnstum hitasveiflum og hlúa þarf sérstaklega vel að við aðstæður sem þessar.
Um helgina lögðu forsetahjónin leið sína í Reykjanesbæinn og heimsóttu m.a. Nesvelli og Hlévang. Þau vildu með heimsókn sinni færa kærleiks- og baráttukveðjur til eldri borgara á Suðurnesjum á þessum sérstöku tímum sem nú eiga sér stað. Það má með sanni segja að heimsókn forsetahjónanna hafi verið mikil kærleiksheimsókn. Hún gladdi mjög alla íbúa, aðstandendur og starfsfólk á Nesvöllum og Hlévangi og færum við þeim bestu þakkir fyrir heimsóknina.