Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 6. nóvember 2020 - Gestahöfundur er Rebekka Ingadóttir, forstöðumaður Hrafnistu Skógarbæ

 

Síðustu mánuðir hafa verið skrítnir, bæði í einkalífi og í vinnunni. Við höfum kollvarpað öllu verklagi á heimilunum, og ekki bara einu sinni heldur nokkrum sinnum. Nýjar verklagsreglur hafa orðið til nær vikulega og við þurft að aðlaga okkur að þeim. Það sem hefur einkennt starfið á Hrafnistu á þessum tíma er hrein og bein samstaða. Þegar maður lendir í krísu í lífinu skiptir það öllu máli að hafa gott fólk í kringum sig sem hjálpast að, styður hvort annað og sýnir samstöðu. Þessi samstaða hefur geislað síðustu mánuði og það er dásamlegt að finna hana. Sameiginlegt markmið allra starfsmanna hefur verið og er enn, að vernda viðkvæma hópinn sem býr og heimsækir Hrafnistu. Þegar allir eru með sama markmið er keðjan sterk. Það er nefnilega þannig að enginn getur allt en allir geta eitthvað.

Einkalíf starfsmanna á þessum tímum hefur líka verið erfitt. Við höfum mörg hver áhyggjur af okkar ástvinum, mörg okkar eiga einhvern náinn sem hefur veikst eða misst vinnuna út af ástandinu. Við höfum lagt extra mikið á okkur til að passa upp á sýkingavarnir og við höfum fórnað ýmsu í okkar persónulega lífi til þess að vernda íbúa Hrafnistu. Það verður aldrei nógu vel þakkað fyrir þessa fórn.

Þótt að lífið hafi verið erfitt síðustu mánuði þá hefur líka verið gott að koma í vinnuna, hitta allt skemmtilega starfsfólkið og vera í samskiptum við fólkið á bakvið grímurnar. Að geta deilt hugsunum sínum og áhyggjum og sýnt þá samstöðu með samstarfsfólki hefur gefið manni mikið.

Við höfum reynt að gera okkur glaðan dag í vinnunni til að létta lund. Í Skógarbæ fá allir starfsmenn rúnstykki í morgunmat á föstudögum, við höldum þemadaga til að brjóta upp hversdagsleikann og gleðja íbúa. Starfsmenn í eldhúsi Skógarbæjar er svo yndislegt að búa til heimabakað með kaffinu einu sinni í viku og senda upp á deildar. Starfsmenn fengu síðan í síðustu viku gjöf sem gladdi heldur betur. Starfsmannafélögin á öllum heimilum ásamt Hrafnistu tóku höndum saman og settu saman gjafapoka með hreint út sagt lúxuspakka. Ef það er eitthvað sem maður vill gera þessa dagana þá er það að dekra við sig. Í gær setti ég á mig hrukkudropana og fór að hugsa að það væru pottþétt komnar nýjar hrukkur síðan í mars á þessu ári, ég nota því dropana óspart á næstu vikum.

Ég hugsa af þakklæti til allra starfsmanna Hrafnistu á þessum tímum, sendi þeim hér rafrænt faðmlag og er þakklát fyrir að vera hluti af þessari sterku keðju sem við á Hrafnistu erum.

 

Rebekka Ingadóttir,

Forstöðumaður Hrafnistu Skógarbæ

 

Lesa meira...

Síða 8 af 255

Til baka takki