Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 25. nóvember 2022 - Gestahöfundur er Magnfríður Sigurðardóttir, deildarstjóri iðjuþjálfunar á Hrafnistu Hraunvangi

Í síðustu viku var haldinn fræðsludagur fyrir stjórnendur Hrafnistu og margt fróðlegt kom þar fram.
Afar áhugavert var að hlusta á erindi Moniku Katarzyna Waten, sem hefur búið á Íslandi í tæp 30 ár, um ólíkan bakgrunn íbúa okkar ágæta lands, en samkvæmt Hagstofunni eru rétt liðlega 200 þúsund manns á vinnumarkaði og þar af eru um 39 þúsund manns eða 19% af erlendum uppruna. Monika sagði, að af þeim tæplega 360 þúsundum íbúum sem búa hér, eru 17,1% fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda. Við hér á landi erum heppin að því leitinu að fólk vill koma hingað til að vinna og margir setjast hér að, stofna fjölskyldu og festa rætur. Og við þurfum á þessu fólki að halda því hér vantar fleiri vinnandi hendur, það vantar menn upp á dekk, eins og sagt er. Staðreyndin er að Ísland er fjölmenningarsamfélag og því fylgja áskoranir en við viljum ekki vera eyland norður í ballarhafi, einangruð af því að við erum svo sérstök, því það erum við ekki. Við ættum því að gera okkur far um að kynnast því erlenda starfsfólki sem vinnur með okkur, þannig komast þau fyrr inn í íslenskt samfélag, siði okkar og hefðir. Monika benti á að það getur ýmislegt gott komið út úr fjölbreytileikanum, eins og að kynnast ólíkum menningarheimum. Hún útskýrði orðið „menningarmunur“ sem er munur á gildum, trú, hegðun, máli, venjum og tjáningu.

Ég hef ágæta reynslu af því að búa með fjölskyldu minni í öðrum löndum, því við bjuggum erlendis í 12 ár og á þeim tíma í þremur löndum. Hversu frábært hefði það verið ef einhverjir úr nærsamfélaginu í þeim löndum hefðu verið okkur fjölskyldunni innan handar fyrstu mánuðina, því við þekktum ekki siði og venjur þeirra sem við vorum nýflutt til. Hér er lítið dæmi frá fyrsta landinu sem við bjuggum í: Fyrstu jólin okkar voru að nálgast og á leikskóla barnanna átti að halda litlu jólin. Strákarnir voru klæddir í jólafötin sín, í fínar buxur og skyrtur með þverslaufu, foreldrarnir nokkuð prúðbúin. Þegar komið var í leikskólann, en þar voru litlu jólin haldin, voru nokkrir foreldrar og börn mætt en enginn af þeim var í betri fötunum hvað þá sparibúið. Fylgdumst við með þegar foreldrar og börn birtust, spennt að sjá hvort einhver þeirra, foreldrar eða börn kæmu prúðbúið, en okkur til stórrar furðu var það ekki. Börnin voru í joggingbuxum og treyjum, foreldrarnir í sínum dagsdaglegu fötum sem voru oft þægilegar joggingbuxur. Þessi fjögur ár sem við bjuggum í þessu landi, voru jólafötin okkar aldrei endurnýjuð. Annað dæmi er frá næsta landi sem við bjuggum í en þar vorum við í fimm ár. Eldri drengurinn var í grunnskóla og komið var að lokum skólaársins, hann kom heim með upplýsingablað til foreldranna um að ákveðinn dag ætti að hittast á skólalóðinni og m.a. syngja nokkur lög og kveðja aðra áður en farið væri í sumarfrí. Þegar við komum gangandi í okkar bestu fötum sem til voru á heimilinu, báðir drengirnir í  gallabuxum og bolum, mætti okkur fjöldinn allur af prúðbúnu fólki, bæði foreldrum og börnum, allir í ljósum eða hvítum fatnaði, stúlkur í kjólum með blómakrans eða annað hárskraut og drengir í stuttbuxum. Skólastjórinn hélt ræðu, lúðrasveit spilaði, barnakór söng sumarlög, börnin buðu foreldrunum í skólastofurnar og sýndu hvað þau höfðu verið að gera yfir veturinn, kennurum var þakkað fyrir vetrarstarfið og kvaddir með litlum gjöfum. Mikið hefði verið gott að þekkja til þessa siðs, en þarna mættu báðir foreldrar barnana og börnin fóru út í sumarið með gleði og ánægjutilfinningu um skólann sinn. Þessi lönd sem hér eru nefnd tilheyra Norðulöndunum, við getum rétt ímyndað okkur hvernig það sé fyrir nýbúa hér á landi sem koma frá gjörólíkum menningarheimum.

Í upphafi pistilsins vitnaði ég í ágætis erindi Moniku en hún nefndi einnig að rannsóknir hafa sýnt að fjölbreytni í starfsmannahópi skili betri árangri. Við, sem vinnum á Hrafnistu, vitum að hér starfa mörg þjóðarbrot, við erum fjölmenningarvinnustaður. Það er ánægjulegt að vera hluti af þessum stóra hóp með svo ólíkan bakgrunn, það auðgar líf okkar ef við erum opin fyrir því.

Magnfríður Sigurðardóttir, deildarstjóri iðjuþjálfunar Hrafnistu Hraunvangi.


 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur