Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 14.ágúst 2020 - Anný Lára Emilsdóttir, Forstöðumaður á Hrafnistu í Boðaþingi

Er skessa á þínum vinnustað?
 
Eftir stúdentspróf var ég óviss hvað ég ætlaði að starfa við í framtíðinni. Tilviljun réði því að ég fór að starfa við aðhlynningu aldraðra. Umönnunarstarfið átti vel við mig þótt þetta væri ansi erfitt í byrjun að læra rútínuna og réttu handtökin. Ég kunni vel við flesta samstarfsmenn mína og þegar við vorum saman á vakt vissi ég að það yrði létt yfir mannskapnum og vaktin myndi ganga vel. Á þessum vinnustað, líkt og flestum öðrum, eru skessur sem hafa unnið lengi og vita hvernig á að gera hlutina og EKKI að gera hluta og forðast allar breytingar eins og heitann eldinn. Ég óttaðist þessar skessur og það var full ástæða til. Þær töluðu hranalega við nýja starfsmenn og létu mann vita að þær nenntu ekki að kenna enn einum nýliðanum. Ef maður gerði eitthvað pínulítið öðruvísi en þær þá fékk maður að heyra það. Hvernig dytti mér í hug að bjóða manninum hafragraut þegar hann borðaði ALLTAF AB mjólk?
 
Þegar ég var búin að vera lengur í starfi og sjálfstraustið jókst þá áttaði ég mig á að sú neikvæðni og gagnrýni sem „skessurnar“ tileinkuðu sér var eitthvað sem ég ætlaði ekki að gera. Ég horfði upp á þær afleiðingar sem slík hegðun hafði, þ.e. ákveðnir vinnufélagar mínir hrökkluðust úr starfi vegna þess að „skessan“ réði ríkjum á deildinni og enginn þorði að segja sína skoðun eða hafa aðra skoðun. Skessurnar komust upp með að fylgja ekki fyrirmælum stjórnenda eða því verklagi og þeirri fræðslu sem starfsmenn eiga að hafa að leiðarljósi. Þær höfðu aðra skoðun og annað starfsfólk leyfði þeim að komast upp með það og stjórnandi vissi ekki að slíkt viðgengist.
 
Nú eru liðin 25 ár. Flestar þeirra sem ég sá seinna meir að tilheyrðu „skessuhópnum“ eru hættar störfum. Ég veit að þessar skessur voru ágætis fólk, sem áttu fjölskyldu sem elskaði þær. Ég veit einnig að skessurnar vöknuðu ekki á morgnana með það fyrir augum að spúa neikvæðni á vinnustaðnum og láta öðru samstarfsfólki líða illa. Með auknum þroska og reynslu hef ég áttað mig á því að skessunum leið ekkert vel. Svona hegðun einkennir ekki einstaklinga sem eru sáttir við sjálfan sig og sínar aðstæður. Ég er viss um að það var eitthvað annað en vinnan sjálf sem var að angra þær, en hegðunin kom fram í vinnunni sem olli því að öðrum fór að líða illa.
 
Skessur geta verið á öllum aldri og af báðum kynjum. Þær eru misýktar en allar eiga þær sameiginlegt að það er krefjandi að umgangast þær. Hefurðu spáð í því hvernig tekið er á móti nýju starfsfólki og hvernig talað er um samstarfsfólk á þinni starfsstöð innan Hrafnistu? Skessurnar eru ekki margar en þær valda miklum skaða svo það er mikilvægt að þær finnist svo hægt sé að sporna við áhrifum þeirra og koma þeim til hjálpar. Og ekki gleyma að skessan gæti verið þú sjálf/ur!

Síða 11 af 246

Til baka takki