Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 4. júní 2021 - Gestahöfundur er Jón Snorrason geðhjúkrunarfræðingur á heilbrigðissviði Hrafnistu

Öllum heilbrigðisstofnunum er í mun að veita faglega og hágæða þjónustu og koma til móts við þarfir skjólstæðinga sinna eins og kostur er. Heilbrigðisstarfsfólki ber að tryggja velferð skjólstæðinga sinna og valda þeim ekki skaða og sjá til þess að þeir haldi sjálfstæði sínu í ákvarðanatöku eins langt og andleg og líkamleg færni þeirra leyfir. Allt sem telst til meðferðar og hjúkrunar á að byggjast á faglegri þekkingu og reynslu.

Á hjúkrunarheimilum eru viðfangsefni starfsfólks mörg og mismunandi. Fyrst og fremst byggjast þau á uppbyggilegum samskiptum og myndun trausts og stuðnings við íbúana. Grundvallaratriði í allri meðferð eins og samkennd, virðing, alúð og háttvísi gilda hér eins og á öðrum heilbrigðisstofnunum. Þessi atriði vega einnig þyngst þegar starfsfólk þarf að bregðast við árásargjarnri hegðun íbúa.

Árásargjörn hegðun íbúa er eitt af mörgum viðfangsefnum sem gerir kröfur til starfsfólks að takast á við á eins faglegan hátt og mögulegt er. Um leið þarf að tryggja öryggi starfsfólks og annarra íbúa.

Víða á heilbrigðisstofnunum þar sem þetta er eitt af mörgum viðfangsefnum starfsfólks fer fram fræðsla og þjálfun starfsfólks í fyrirbyggjandi aðgerðum og viðbrögðum við árásargjarnri hegðun. Engar rannsóknir eru til um hvaða og hvernig fræðsla og þjálfun eru gagnlegastar en nokkur atriði eru menn þó sammála um að eigi að fjalla um og verða hér nefnd:

Fræðsla um sjúkdóma sem íbúar eiga við að stríða og geta tengst árásargjarnri hegðun eins og heilabilun og óráð.  

Orsakir árásargjarnrar hegðunar. Oft er stuðst við kenningar um að hegðunin stafi af því að íbúi þoli illa mótlæti eins og t.d. að komast ekki út, þurfa að fara í bað o.s.frv. Einnig er sjúkdómurinn sem slíkur áhrifavaldur því allar líkur eru á að íbúi sýndi ekki árásargjarna hegðun ef hann hefði ekki sjúkdóminn.

Fyrirbyggjandi aðgerðir. Hér er t.d. átt við að starfsfólk kynnist íbúa vel, reyni að koma til móts við þarfir hans eins og hægt er, fylgjast með hvað hreyfi við árásargjarnri hegðun o.s.frv. Einnig eru kynnt mælitæki sem mæla líkur á að íbúi sýni árásargjarna hegðun á næstu klukkustundum.

Aðferðir til að róa íbúa með orðum og látbragði. Ef ekki tekst að fyrirbyggja árásargjarna hegðun er fyrsta úrræðið að róa hann með orðum og látbragði.

Íþyngjandi aðgerðir. Takist ekki að róa íbúa getur þurft að beita aðferðum sem honum gæti þótt íþyngjandi. Hér er átt við atriði eins og flytja hann á annað svæði gegn hans vilja, halda honum kyrrum tímabundið (nokkrar mínútur) í rúmi eða gefa honum lyf. Rannsóknir sýna að það sem hér skipti mestu máli er að slíkar aðgerðir séu alltaf neyðarúrræði, þ.e. eftir að aðrar aðferðir hafa verið reyndar og að meiri hætta sé metin fyrir íbúann sjálfan og aðra ef þeim er ekki beitt, og að þær séu framkvæmdar þannig að þær meiði ekki íbúann og hann finni að þrátt fyrir allt sé verið að reyna að hjálpa honum.

Úrvinnsla. Órjúfanlegur þáttur í aðgerðum og viðbrögðum við árásargjarnri hegðun er úrvinnsla atviks með starfsfólki, íbúa, íbúum og aðstandendum. Í úrvinnslunni felst m.a. stuðningur við þessa aðila.

Skráning. Mikilvægt er að skrá árásargjarna hegðun eins og öll atvik. Samantekt á skráningu veitir upplýsingar um hvort tekst að draga úr árásargjarnri hegðun. Einnig getur skráning verið gagnleg fyrir þjálfun og fræðslu starfsfólks.

Að lokum skal nefna að í þjálfun starfsfólks fer fram kennsla í aðferðum til að verjast árás og losa sig úr ýmsum gripum.

Hrafnista hefur nýlega lokið við að halda námskeið fyrir leiðbeinendur til að halda námskeið fyrir starfsfólk. Starfsfólk verður beðið um að hlýða á rafrænan fyrirlestur um atriðin sem hér hafa verið nefnd áður en það kemur á námskeiðið en þar verður farið nánar yfir atriði sem koma fram í fyrirlestrinum og kenndar aðferðir til að verjast árás og losa sig úr gripum.

Viðfangsefnið árásargjörn hegðun er viðkvæmt og tengist mörgum siðferðilegum álitamálum eins og t.d. hvernig tekist er á við það. Oft er erfitt fyrir aðstandendur að horfa upp á íbúa sýna hegðun sem þeir sýndu aldrei áður en þeir veiktust. Það er því afar mikilvægt að umfjöllun um þetta málefni einkennist að alúð og hugarfarinu „aðgát skal höfð í nærveru sálar“.

 

Jón Snorrason, geðhjúkrunarfræðingur á heilbrigðissviði Hrafnistu

 

Lesa meira...

Síða 11 af 282

Til baka takki