Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 30. apríl 2021 - Gestahöfundur er Sigurður Á. Sigurðsson, forstjóri happdrættis D.A.S.

 

Das ist gut!

 

Framundan eru „áramótin“ í Happdrætti DAS. Fyrsti útdráttur á nýju happdrættisári fer fram 11. maí n.k. Dregið verður tvisvar í þeirri viku. Seinni útdrátturinn fer fram 14. maí.

Slagorðið í ár verður: „Fimmtudagar eru DAS dagar“.

Árangur Happdrættis DAS á því happdrættisári sem er að líða stefnir í að verða eitt það besta í sögu happdrættisins. Er þetta annað árið í röð sem svo góður árangur næst. Leita verður tugi ára aftur í tímann til að sjá álíkan árangur. Því ber að fagna.

Símasala hefur staðið yfir nú í nokkur ár og hefur það verið vítamínssprauta í að auka við sölu happdrættismiða. Stígandi hefur verið í símasölunni og vonandi að það haldist.

Þá hefur mikil aukning verið í aðsókn á heimasíðu happdrættisins www.das.is

Þess má geta að Happdrætti DAS heldur einnig úti facebook-síðu https://www.facebook.com/HappDAS

Vinningar á nýju happdrættisári verða með svipuðu sniði. Óbreytt miðaverð helst í 1.700 kr. (einfaldur miði) eða 3.400 kr. (tvöfaldur miði).

Heildarverðmæti vinninga helst óbreytt eða 1,3 milljarður. Í boði verða 6 aðalvinningar hver að upphæð 30 milljónir, 5 aðalvinningar að upphæð 8 milljónir og 41 aðalvinningur að upphæð 4 milljónir hver. Allt á tvöfaldan miða. Heildarfjöldi vinninga verður rúmar 51 þúsund.

Í hvað hefur ágóðinn að Happdrætti DAS farið í?

Á allra síðustu árum hefur ágóðinn verið nýttur m.a. í nýja eldhúsið á Hrafnistu í Laugarási sem vígt var í nóvember 2019. Sama má segja um Skálafell, kaffihúsið á Hrafnistu í Laugarási og anddyrið þar fyrir framan. Svo ekki sé talað um breytingar á vistaverum á Hrafnistu í Laugarási, þegar tvö herbergi voru gerð að einu.

Framundan eru endurbætur á Hrafnistu Hraunvangi í Hafnarfirði og ef vel tekst til í Happdrætti DAS mun hagnaðurinn nýtast vel í það verkefni.

Happdrætti DAS hefur verið í 66 ár fjárhagslegur bakhjarl í uppbyggingu og viðhaldi á fasteignum Hrafnistuheimilanna. En fjármagnið dettur ekki að himnum ofan. Það þarf að hafa fyrir hlutunum með öflugri markaðssetningu og áminningu til Íslendinga um mikilvægi Happdrættis DAS í málefnum aldraða.

Starfsemi Happdrættis DAS hefur sem betur fer ekki stöðvast á COVID-19 tímum. Starfsfólki var skipt upp í 2 hópa og vann annar hópurinn heima á meðan hinn var á vinnustað. Allir útdrættir fóru fram á tilsettum dráttardögum.

Stöndum saman og hvetjum fólk til að kaupa miða. Um leið og góðu málefni er lagt lið er von á góðum vinningum.

Fyrir hönd Happdrættis D.A.S. og starfsfólks óskum við starfsfólki Hrafnistu í Laugarási, Hafnarfirði, Kópavogi, Reykjanesbæ, Garðabæ, Skógarbæ og Sléttunni gleðilegs sumars.

 

Sigurður Ágúst Sigurðsson,

forstjóri  Happdrættis D.A.S.

 

Lesa meira...

Síða 6 af 273

Til baka takki