Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 19. nóvember 2021 - María Fjóla Harðardóttir, forstjóri

Kæru samstarfsfélagar,

 

Mig langar að taka upp þráðinn þar sem Valgerður Guðbjörnsdóttir, forstöðumaður á Hrafnistu á Sléttuvegi, setti punktinn í síðustu föstudagsmolum. Þar talaði hún um að jákvæð samskipti væru gulls ígildi, sem eru svo sannarlega orð að sönnu

Eins og þið vitið þá hefur verið mikil umræða undanfarin ár um rekstur hjúkrunarheimila þar sem ljóst er að aukin þörf og krafa frá okkar ríkisstjórn um þjónustu á hjúkrunarheimilum hefur átt sér stað án þess að fjármagn hafi fylgt. Það hefur þýtt að við höfum þurft að vera ansi útsjónarsöm til að halda uppi viðunandi þjónustu.

Í lok febrúar 2022 verða þjónustusamningar milli Sjúkratrygginga Íslands og hjúkrunarheimila lausir og við erum bjartsýn á að nýr heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra leiðrétti þennan mismun milli þjónustuþarfa og fjölda umönnunarklukkustunda, samanber niðurstöðu svokallaðrar „Gylfaskýrslu“ sem er greining óháðs aðila á rekstrarkostnaði hjúkrunarheimila

Útsjónarsemi okkar hefur gert okkur kleift að verja grunnþjónustu til íbúa og aðstandenda undanfarin ár þó svo að margt hafi þurft að taka út í staðinn, því miður. En það sem kostar okkur hreinlega ekki neitt, nema nokkrar mínútur, en bætir líðan bókstaflega allra það er okkar viðhorf gagnvart hvort öðru. Stoppið aðeins og hugsið með sjálfum ykkur hversu mikilvægt það er fyrir ykkur sjálf að ykkur sé veitt raunveruleg athygli? Jákvæð athygli? Að vita hvað aðrir í kringum þig séu að upplifa raunverulega um þig? Hversu mikilvægur þáttur þú ert í að þjónustan sé góð, að það sé gaman í vinnunni og að öðrum líði vel í návist þinni.

Ég heyrði mjög áhugaverða setningu sem kom út úr vinnuhóp með stjórnendum Hrafnistu á dögunum og það er setningin: „að hafa þolinmæði fyrir sorginni.“ Við þjónustum hóp sem er oft á tíðum að ganga í gegnum einn erfiðasta tíma ævinnar, endalokin. Hver og einn gengur í gegnum það á mismunandi vegu. Stundum brjótast tilfinningar fram sem reiði í garð okkar. Þá skiptir máli að við getum lagt okkar eigið sjálf til hliðar og lagt okkur fram til að hlusta og veita fólki athygli okkar. Við heyrum, sjáum og skiljum. Oft er það allt og sumt sem verið er að óska eftir.

Ég veit hverju þetta skilar til ykkar, til íbúa okkar og aðstandenda. Við skiptum öll máli, við erum öll einstök, og því þurfum við að koma þannig fram við aðra, alla aðra. ❤

Nýtt Hrafnistubréf

Nýtt Hrafnistubréf er væntanlegt á næstu dögum, en eins og margir þekkja er Hrafnistubréfið kynningarblað um starfsemi Hrafnistu sem kemur út tvisvar á ári. Auk þess að vera dreift til íbúa Hrafnistuheimilanna fer það um víðan völl í samfélaginu. Í nýja tölublaðinu má m.a. lesa viðtöl við þær Ellen Svövu Stefánsdóttur og Maríu Arnlaugsdóttur sem báðar búa á Hrafnistu. Einnig er viðtal við Aríel Pétursson nýjan formann Sjómannadagsráðs ásamt öðru skemmtilegu efni um lífið og starfið innan Hrafnistuheimilanna.

Starfsafmæli á Hrafnistu

Eins og áður er það vel við hæfi að enda föstudagsmolana með að telja upp þá starfsmenn sem eiga formleg starfsafmæli á Hrafnistu núna í nóvember.

3 ára starfsafmæli: Í Laugarási er það Oddgeir Reynisson á rekstrarsviði. Í Hraunvangi eru það Selma Ósk Ágústsdóttir á Ölduhrauni, Sandra Rakel Ingvarsdóttir á Bylgjuhrauni og Renata Gliaubiciute á Báruhrauni. Í Reykjanesbæ er það Ingibjörg Anna M Artursdóttir. Á Ísafold er það Diljá Jökulrós Pétursdóttir.  

5 ára starfsafmæli: Í Laugarási eru Suzette Ósk Caballa og Guðný Inga Guðbjörnsdóttir báðar á Sól-/Mánateig og Elena Titova á Lækjartorgi. Í Hraunvangi eru það Bekrije Shillova á Báruhrauni og Lovísa Lýðsdóttir á Ölduhrauni. Í Reykjanesbæ eru það Kristín Thomsen á Nesvöllum og Guðríður Jónasdóttir á Hlévangi.

10 ára starfsafmæli: Í Laugarási er það Hulda S. Helgadóttir á heilbrigðissviði.

Til hamingju öll með starfsafmælið og hjartans þakkir fyrir góð störf í þágu Hrafnistu.

 

María Fjóla Harðardóttir,

Forstjóri Hrafnistu

 

Lesa meira...

Síða 6 af 292

Til baka takki