Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 22. október 2021 - Gestahöfundur er Oddgeir Reynisson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs

 

Nú er farið að líða að „fyrsta vetrardegi“ en hann er á morgun laugardaginn 23. október sem er fyrsti dagur gormánaðar í gamla norræna tímatalinu. Þrátt fyrir að sólarstundum fækki þá hefur birt til í starfsemi Hrafnistuheimilanna eftir að höftum hefur að mestu verið aflétt í samfélaginu.  Lífið í húsunum er að færast í eðlilegt horf og Covid er hætt að hafa eins mikil áhrif á starfsemina þrátt fyrir að enn sé lögð áhersla á persónubundnar sóttvarnir, enda smit ennþá að greinast í samfélaginu, og að öðru hverju þurfi að setja einstaka deildir í sóttkví með tilheyrandi höftum. Starfsmenn eiga heiður skilið fyrir sitt frábæra starf á þessum erfiðu tímum en ég efast um að almenningur geri sér grein fyrir því álagi á starfsmenn sem fylgir því að reyna að verja heimilin fyrir Covid.

Það er svo mikilvægt að starfsemin sé komin í eðlilegra horf og gleðin komin upp hjá íbúum, ættingjum og starfsmönnum. Starfsemi starfsmannafélaga er farin af stað og starfsmenn farnir að gera sér glaða daga saman, innan sem utan Hrafnistu.  Það er mikilvægt að brjóta upp hversdagsleikann með skemmtilegum uppákomum bæði fyrir íbúa og starfsmenn. Haustfagnaður flestra Hrafnistuheimila er lokið en þar var að venju íbúum og starfmönnum boðið upp á hinn eina sanna Hrafnisturétt sem eru steiktar kótilettur í raspi og tónlist leikur alltaf stórt hlutverk á þessum hátíðum.  Í vikunni bauð Hrafnista öllum starfsmönnum í bíó og var þar vel mætt.

Öll berum við ábyrgð á því að stuðla að góðum starfsanda og því er mikilvægt að við hjálpumst öll að við að skapa skemmtilegt starfsumhverfi þar sem gleði og jákvæður andi smitar út frá sér til allra og menn upplifa betri þjónustu. Við erum öll í þjónustuhlutverki sama hvaða störfum við gegnum. Flestir starfsmenn Hrafnistu þjónusta íbúa beint en aðrir óbeint. Ég starfaði hjá Nova í tæp 9 ár og var það félag þekkt fyrir góða þjónustu og trygga viðskiptavini.  Viðskiptavinurinn fékk fulla athygli, það átti að koma fram við hann af heiðarleika.  Það að sýna fulla athygli og hlusta á viðskiptavininn skiptir miklu máli því við höfum öll misjafnar þarfir og væntingar.  Ef einhver hefur eitthvað út á þjónustuna að setja eða kemur með tillögur að umbótum þá þarf að hlusta á þær raddir og meta hvort við viljum eða getum breytt til batnaðar. Því miður er aldrei hægt að koma í veg fyrir mistök en ef rétt er á málum haldið læra menn af þeim og vinna að því að koma í veg fyrir að þau endurtaki sig. Það er alveg ljóst að margt má betur fara, sumt er hægt að gera og annað ekki vegna kostnaðar en oft kosta hlutir ekkert t.d. getur bros, hrós og athygli gefið mikið, eða smá breyting á vinnutilhögun og ferlum.

Af rekstrarsviðinu er það að frétta að við höfum fengið til okkar nýjan liðsmann Eyjólf Árnason að nafni sem mun sjá um upplýsingatæknimál Hrafnistu, Sjómannadagsráðs og dótturfélaga. Áfram munum við reiða okkur á þjónustu Sensa í daglegri þjónustu en þarna kemur inn þekking sem við þurfum á að halda til að halda áfram vegferð okkar í tæknimálum og þar er af mörgu að taka.

Njótum skammdegisins og höfum gaman saman.

 

Oddgeir Reynisson

Framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Hrafnistuheimilanna

 

Lesa meira...

Síða 10 af 292

Til baka takki