Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 23. október 2020 - Gestahöfundur er Jakobína H. Árnadóttir, mannauðsstjóri Hrafnistuheimilanna

Sýnum okkur mildi en ekki meðvirkni

Það styttist í árinu 2020 sem hefur sannarlega verið viðburðaríkt og fært okkur fjölda áskorana. Við höfum fengið hvert verkefnið á fætur öðru, s.s. nýjar áskoranir í vinnu, flóknar aðstæður heima fyrir, lítið félagslíf, sóttkví og jafnvel veikindi.

Ég held að það sé óhætt að fullyrða að Hrafnista er ekki dæmigerður vinnustaður í þessu ástandi. Starfsfólk Hrafnistu hefur tekist á við erfiðar og krefjandi aðstæður á aðdáunarverðan hátt. Að verja þennan viðkvæma hóp okkar í því ástandi sem nú ríkir getur því hreyft við okkur öllum á ólíkan hátt og nær stundum langt út fyrir þann tíma sem við erum í vinnunni. Fagmennska, samstaða, umhyggja, kærleikur og æðruleysi eru orð sem koma fyrst upp þegar ég reyni að lýsa viðhorfi og vinnubrögðum starfsfólks Hrafnistu.

Öll þau verkefni sem við erum að takast á við í vinnu og einkalífi geta á köflum verið yfirþyrmandi og því er eðlilegt að fólki líði alls konar – upplifi margskonar tilfinningar. Það er algjörlega eðlilegt að finna stundum fyrir vonleysi, kvíða, streitu og jafnvel hræðslu. Við erum ekkert gölluð þó við séum ekki alltaf eins og klappstýrurnar á kantinum í amerískum fótbolta. Allt eru þetta náttúruleg og eðlileg viðbrögð við óþekktum aðstæðum.

En hvað er til ráða ef við erum að upplifa neikvæðar tilfinningar? Sem betur fer er margt sem við getum gert. Það fyrsta er að sýna okkur sjálfum mildi og skilning, það gerir allt sem á eftir fylgir auðveldara. Eins getur verið gott að orða tilfinningarnar. Þegar við lítum inn á við og setjum orð á tilfinningar sem við erum að upplifa byrjum við að vinna úr þeim.

Hér að neðan eru nokkrar hugmyndir að bjargráðum sem hægt er nýta sér ef við finnum að andleg heilsa er ekki upp á sitt besta. Það sem virkar fyrir einn virkar þó ekki endilega fyrir annan. Best er að finna sína leið og leita í bjargráð sem hafa virkað fyrir mann áður.

1) Hreyfum okkur– jafnvel stuttur göngutúr í haustblíðunni nú eða rokinu getur dimmu í dagsljós breytt.

2) Leggjum áherslu á félagsleg samskipti. Eitt af því sem hefur hvað mest áhrif á andlega heilsu eru félagsleg samskipti. Á þessum tímum þarf að vera svolítið skapandi í því hvernig er hægt að vera í samskiptum við vini og fjölskyldu án snertinga og jafnvel án þess að hittast en mikilvægast af öllu er að eiga samskipti við fólk því það nærir og gefur gleði.

3) Beinum sjónum að því sem við getum haft áhrif á. Í aðstæðum þar sem við finnum fyrir kvíða og óöryggi getur skipt miklu máli að velta fyrir sér hverju við höfum stjórn á. Við höfum t.d. stjórn á því hvað viðhorf við höfum til verkefna dagsins og hvernig þjónustu við veitum í okkar störfum frá degi til dags en við höfum ekki stjórn á því hvort það verður komið bóluefni á markað í vor eða haust. Það er verkefni annarra að finna út úr því. Með þessu beinum við orkunni í það sem skiptir máli í okkar nærumhverfi.

4) Gerum okkur dagamun í vinnunni. Búningadagar, leynivinaleikur, hrekkjavika, heilsuátak eða eitthvert slíkt uppbrot getur aldeilis glætt hversdagsleikann í vinnunni

5) Tölum við einhvern um hvernig okkur líður. Ef líðan hefur áhrif á vinnuna getur verið gott að tala við vinnufélaga eða yfirmann sem þú telur að geti stutt þig. Eins er  alltaf hægt að heyra í mannauðsráðgjafa á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða á Workplace.

Ef kvíði þinn eða vanlíðan er meiri en svo að hugmyndirnar hér fyrir ofan geri gagn er mikilvægt að leita sér aðstoðar hjá fagfólki. Sálfræðiþjónusta er til að mynda niðurgreidd af lang flestum stéttarfélögum.

Góða helgi,

Jakobína, mannauðsstjóri

 

Lesa meira...

Síða 10 af 255

Til baka takki