Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 21.ágúst 2020 - María Fjóla Harðardóttir

Þá er enn ein helgin að ganga í garð og vona ég að þið eigið eftir að njóta hennar. Það styttist í haustið og með því skilar Hrafnistuflotinn okkar sér aftur í hús eftir vonandi gott sumarfrí. Sumarstarfsmenn sem hafa verið svo elskulegir að hleypa okkur í sumarfrí hverfa aftur í skóla eða annað sem þeir hafa stefnt að eftir tímabundið starf hjá okkur á Hrafnistu. Okkur þykir vænt um að fá að halda einhverjum þeirra hjá okkur áfram í vinnu með skóla.
 
Það er ýmislegt á döfinni hjá okkur á Hrafnistu og fullt fullt af verkefnum sem við getum látið okkur hlakka til að takast á við. Við látum ekki Covid-19 stöðva okkur með öllu. Við þurfum að hugsa út fyrir kassann og láta okkur detta eitthvað skemmtilegt í hug í staðinn fyrir alla þá viðburði sem við erum vön að hafa til að gleðja okkur. Eitthvað sem krefst þess ekki að við þurfum að hópast saman, að við getum fylgt eftir sóttvarnarreglum en er samt gaman og fær okkur til að brosa. Hugsið þetta með mér ⯑
 
Eins og flest ykkar vita hóf nýr mannauðsstjóri störf hjá okkur á Hrafnistu í síðustu viku. Hún heitir Jakobína Hólmfríður Árnadóttir og hefur hún náð að kíkja á nokkur heimili í vikunni í heimsókn. Það mun taka smá tíma hjá henni að fara hringinn á heimilin þar sem við erum svolítið stór þótt við séum samt svo lítil og nálægt hvort öðru. Bið ykkur að taka vel á móti henni þegar hún kemur ⯑
 
Ég hvet ykkur til að njóta náttúrunnar um helgina og ætla að leyfa þessu ljóði að eiga lokaorðin:
 
Ég teygaði drykkinn á maga við vatnið
og lét höfuð mitt blotna um leið,
er brjóst mitt nam við döggvott grasið,
ég tengist náttúru um skeið.
Þá augu mín lukust í augnabliks leik,
að staður og stund varð eitt,
að náttúran vildi að ég væri með,
þótt í huganum ég gerði ei neitt.
Hún var bara þarna á þessum stað,
og beið þess á líðandi stund,
að ég þessi vera gæti vitnað um það,
að við hefðum átt saman fund.
                                  Páll Hólm
                           1954
 
Kær kveðja,
 
María Fjóla Harðardóttir,
Forstjóri Hrafnistu
 

Síða 10 af 246

Til baka takki