Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 28. október 2022 - Gestahöfundur er Nanna Guðný Sigurðardóttir, gæðastjóri Hrafnistuheimilanna

 

„Öll heil heim“ er eitt aðal markmið Vinnueftirlitsins og er þá verið að vísa í að öll ættum við að komast heil heim af vinnustaðnum okkar. Enn fremur kemur fram á heimasíðu þeirra að „árangursríkt vinnuverndarstarf byggist á samvinnu atvinnurekanda og starfsfólks við að viðhalda og bæta öryggi og aðbúnað á vinnustöðum. Tilgangurinn er að koma auga á áhættur í vinnuumhverfinu og bregðast við þeim þannig að unnt sé að koma í veg fyrir vinnuslys, óhöpp og vanlíðan starfsfólks“.

Að koma heil heim úr vinnu er ekki eingöngu skírskotun í að starfsmaðurinn verði ekki fyrir vinnuslysi í vinnu sinni, heldur á það líka við um að vinnuumhverfið stuðli að góðri líðan starfsmanna. Til þess að svo verði, þá þurfa vinnustaðir að setja sér stefnu um vinnuvernd og eru Hrafnistuheimilin með mannauðsstefnu sem fjallar m.a. um starfsumhverfi og heilsu starfsmanna en einnig er til staðar heilsustefna Hrafnistu sem m.a. fjallar um þær forvarnir sem eiga að stuðla að öruggu vinnuumhverfi. Mikilvægt er að vinnustaðir vinni eftir fyrirfram skilgreindri viðbragðsáætlun sem fjallar um viðbrögð við þeim ógnum sem geta steðjað að í vinnuumhverfinu. Hrafnista er í þessu samhengi m.a. með stefnu og viðbragðsáætlun gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi. Auk þess er mjög gagnleg rafræn fræðsla um þessi málefni í Hrafnistuskólanum.

Til að tryggja samstarf atvinnurekanda og starfsmanna þegar kemur að vinnuverndarmálum, eru starfræktar öryggisnefndir á hverju Hrafnistuheimili fyrir sig. Í öryggisnefnd heimilis sitja tveir fulltrúar starfsmanna (öryggistrúnaðarmenn) og tveir fulltrúar frá atvinnurekanda (öryggisverðir). Meðal hlutverka öryggisnefnda er að taka þátt í gerð áhættumats og fylgja því eftir ásamt atvinnurekanda. Kynna starfsmönnum þá áhættu, sem er á vinnustaðnum að því er varðar öryggi þeirra og heilsu og sjá til þess að þeir fái nauðsynlega fræðslu og þjálfun. Öryggisnefndir eiga að fylgjast með því að ekki viðgangist einelti á vinnustaðnum og að skráning slysa, óhappa og atvinnusjúkdóma sé sinnt. Öryggisnefndirnar hittast reglulega og fara yfir tölfræði atvika og vinnuslysa og hvaða forvarnir hægt sé að fara í til að koma í veg fyrir endurtekningu á þeim.

Vinnueftirlitið hélt ráðstefnu á dögunum sem var liður í tveggja ára samstarfsverkefni Vinnueftirlitsins, félagsmálaráðuneytisins, samtaka aðila vinnumarkaðarins og VIRK og bar yfirskriftina „Vinnuvernd er allra hagur. Hæfilegt álag – heilbrigt stoðkerfi 2020-2022”. Á ráðstefnunni var fjallað um mikilvægi forvarna í skipulagi umönnunarstarfa og áhrif vinnustaðamenningar á vellíðan starfsfólks sem sinnir þeim.  Vinnueftirlitið hafði í vor farið í stórar og ítarlegar úttektir á nokkrum Hrafnistuheimilum og í kjölfarið vann Hrafnista úrbótaáætlun upp frá niðurstöðum úttekta og hóf umbótavinnu vegna þeirra. Sú vinna hefur þótt til fyrirmyndar og var Hrafnista því beðin um að halda erindi á ráðstefnunni en erindið bar heitið „Vinnuverndarstarf á Hrafnistuheimilunum - umbótastarf í kjölfar úttekta“ og hlýddu um 170 manns á erindið, ýmist í sal á ráðstefnunni sjálfri eða í streymi. Streymi af ráðstefnunni og þ.á.m. erindið frá Hrafnistu er að finna á þessari slóð hér

Á Hrafnistu mun í nóvember vera haldin öryggisvika þar sem fjallað verður m.a. um sálrænt öryggi á vinnustöðum, að takast á við álag og streitu og hvernig hægt er að draga úr algengum stoðkerfisvandamálum. Við munum nota ýmsar skemmtilegar leiðir til að koma fræðslu og upplýsingum til skila til starfsmanna og hvetjum ykkur til að taka virkan þátt og fylgjast með þegar vikan verður auglýst nánar.

Nanna Guðný Sigurðardóttir, gæðastjóri Hrafnistuheimilanna.

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur