Top header icons

Fyrir starfsfólk
Örugg skjalamótttaka Örugg skjalamótttaka Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 
 
 

Föstudagsmolar 16. september 2022 - María Fjóla Harðardóttir, forstjóri

Kæru samstarfsfélagar,

Það er búið að AUGLÝSA árshátíð Hrafnistu en hún verður haldin 15. október 2022.

Þó ég hafi einnig talað um það síðast þá vil ég bara tryggja að það hafi ekki farið framhjá neinum að árshátíðin okkar er á næsta leiti. Við höfum lengi beðið eftir því að mega hittast öll og hafa gaman saman en tvisvar sinnum höfum við þurft að blása af árshátíðina vegna Covid. Það stefnir í heilmikið stuð og vonandi sjáumst við sem flest. Um veislustjórn sjá þau Eva Ruza og Hjálmar Örn og hljómsveitin Bandmenn ætla að halda uppi stuðinu. Eins og gefur að skilja eru einhverjir sem þurfa að standa vaktina á heimilunum á meðan þar sem við rekum sólarhringsþjónustu allan ársins hring. Við munum huga vel að þeim sem standa vaktina þetta kvöld og komast ekki á árshátíðina.

Þjónustukönnun Hrafnistuheimilanna

Við létum gera fyrir okkur á Hrafnistu veigamikla þjónustukönnun í júní 2022 þar sem við spurðum íbúa og aðstandendur um upplifun þeirra á þjónustunni, en við spurðum einnig um viðhorf þjóðarinnar til Hrafnistu og svo hjúkrunarheimila almennt. Niðurstöðurnar ætlum við að kynna fyrir ykkur sem fyrst, en jafnframt finna leiðir til að kynna þær fyrir íbúum og aðstandendum. Þessar niðurstöður ætlum við svo að nýta okkur til að klappa okkur sjálfum á bakið, hvert og eitt okkar, fyrir það sem vel er gert og ég get lofað því að það er allmargt sem þið megið vera stolt af. En síðan ætlum við einnig að fara í úrbætur á því sem við getum lagað. En til þess að gera betur þurfum við öll að ganga í takt. Við erum ekki betri en veikasti hlekkurinn og sá hlekkur litar allt annað. Við þurfum jafnframt ykkar aðstoð til að hugsa út fyrir kassann í sumum tilfellum. Veltum fyrir okkur hvort við getum gert hlutina öðruvísi þótt við höfum ALLTAF gert hlutina á ákveðinn hátt.

Ímynd Hrafnistu

Hvað er ímynd Hrafnistu? Hún er ótrúlega margt, en fyrst og fremst er það mannlegi þátturinn okkar, íbúar og starfsmenn, en ekki síður heimilið og heimilisbragurinn, menningin, gleðin, vinnustaðurinn og svo mætti lengi telja áfram.

Eitt af því sem skiptir máli þegar kemur að ímynd er vinnuumhverfi okkar. Það er gaman að segja frá því að undanfarna mánuði hefur Vinnueftirlitið komið inn á Hrafnistuheimilin og farið yfir vinnuaðstöðu starfsfólks. Eftir þá yfirferð hefur heilbrigðissvið og mannauðssvið Hrafnistu í samstarfi við stjórnendur og starfsfólk farið yfir þær athugasemdir sem hafa borist og farið í úrbætur þar sem þarf. Einnig sáum við hluti sem við sannarlega vildum gera betur þó svo að það hafi ekki komið fram í úttekt Vinnueftirlitisins.

Við vinnum gjarnan náið með okkar ytra eftirliti, hvort sem það er Embætti landlæknis, Lyfjastofnun, Vinnueftirlitið, Sjúkratryggingar Íslands, svo dæmi séu tekin, þar sem við höfum þá skoðun að slíkt eftirlit hjálpar okkur að gera betur en við erum að gera í dag. Þetta snýst ekki um að vera fullkomin, því við vitum að það erum við ekki, við erum bara mannleg. Þetta snýst um að vera tilbúin að taka við athugasemdum og gera betur.

Við þurfum líka að vera tilbúin til að taka við HRÓSI en við fáum þau líka og fullt af þeim. Við fengum póst frá Vinnueftirlitinu á dögunum þar sem fulltrúum okkar á Hrafnistu var hrósað fyrir gott samstarf við Vinnueftirlitið í sínum úttektum og úrbótum. Þar leiddi Nanna Guðný Sigurðardóttir, gæðastjóri Hrafnistu, og Guðlaug Dagmar Jónasdóttir, mannauðsráðgjafi á Hrafnistu, þetta starf. Risastórt hrós til ykkar beggja og svo til okkar allra sem vinna á Hrafnistu fyrir að hafa þessa hluti í lagi, því það er ykkur að þakka. Takk fyrir að vera hluti af þessari menningu sem er sífellt að taka til og bæta umhverfið okkar allra og gæðin. Takk ?

Eigið dásamlega viku hvar sem þið eruð stödd í veröldinni.

Bestu kveðjur,

María Fjóla Harðardóttir,

Forstjóri Hrafnistu

 

 

 

 

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur