Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 9. desember 2022 - Gestahöfundur er Hrönn Önundardóttir, hjúkrunardeildarstjóri á Ölduhrauni Hrafnistu Hraunvangi

Ég velti gjarnan fyrir mér ýmsum jólasiðum og venjum sem hafa skapast hjá fólki og ekki síður hvað skapar jólaandann. Fólk ræðir helst sín á milli um hvaða matarhefðir eru í þeirra fjölskyldu, hvar jólin skulu haldin og hvað skal setja í jólapakkana. Heyrir maður þá oft setningar eins og:  „það eru ekki jól ef ég fæ ekki rjúpur“ eða „það eru ekki jól nema ég sé hjá mömmu/ömmu og borði hamborgarahrygginn sem hún eldar og fái heimalagaðan ís.“  Við tölum mun minna um það hvað vekur jólaandann í hug okkar og hjarta. Ég fór á stúfana og spurði nokkra íbúa hjá mér hvað hafi vakið jólaandann hjá þeim í æsku og fannst nokkuð fróðlegt að heyra hvað þau höfðu að segja:

Þegar ég sat í kirkjunni og litli bróðir minn sat í kjöltunni á pabba og ég við hliðina á þeim,  þetta er fallegasta jólaminningin sem ég á, þetta voru jólin“

„Þegar ég fór til kirkju með mömmu og pabba – kirkjan stóð þarna á háum hól öll upplýst og var svo falleg og þá voru jólin komin“

„Þegar við bræðurnir sex þrifum húsið hátt og lágt, skreyttum og bárum heim allskonar jólamat og mandarínur“

„Þegar mamma settist við prjónavélina og gerði nýja flík á okkur og svo hekluðum við stelpurnar ermalíningar, hálsmál og settum jafnvel blúndu neðan á klukkurnar okkar – þetta var svo fínt“

„Þegar við stelpurnar bökuðum þessi lifandis ósköp af smákökum og tertum og hlustuðum á mömmu syngja jólalögin, svo þurftum við auðvitað að skrúbba og þrífa allt húsið því kirkjukaffið var heima hjá okkur – þetta var auðvitað heilmikil vinna en það var svo gaman að hitta allt fólkið og það voru allir svo fínir“

Þegar ég sjálf var barn vissi ég að jólin voru í nánd þegar mamma var komin með málbandið um hálsinn og efni í nýjan kjól á stofuborðið og þegar ég fékk mandarínu og rautt epli þá var hátíðin hafin. Þegar ég var ung kona mörkuðu jólin upphaf sitt með eftirvæntingu barnanna minna, jólatónum sem byrjuðu að hljóma í útvarpinu 1.des og piparkökubakstri.

Í dag er það aðventukaffið okkar á Ölduhrauni sem skilar jólunum í hjartað mitt. Starfsfólkið tekur höndum saman og mætir með heimabakaðar kræsingar og býður íbúum í aðventustund. Aðstandendur og starfsfólk hafa stundum lagt til létt söngatriði og oftar en ekki taka íbúar undir sönginn. Birtan sem ljómar af andlitum íbúa og starfsmanna breyta öllu, samtalið snýst um eitthvað allt annað en daglegt amstur, athöfnin að borða verður hátíðlegri, fólk hlær og gerir að gamni sínu og kynnist á annan hátt.

Samhugurinn og kærleikurinn sem skapast þegar allir taka höndum saman, njóta stundarinnar, gefa og þiggja og fá svo gjöfina margfalt til baka í fallegu og umvefjandi brosi eða faðmlagi – það er hinn eini sanni jólaandi

Gleðilega hátíð!

Hrönn Önundardóttir, hjúkrunardeildarstjóri á Ölduhrauni Hrafnistu Hraunvangi Hafnarfirði.

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur