Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 30. október 2015 - Gestaskrifari er Harpa Gunnarsdóttir, fjármálastjóri Hrafnistuheimilanna

Old letter
Lesa meira...

Vetrarsól 

Það var skemmtilegt að vakna upp við alhvíta jörð á sunnudaginn var.  Það var viðeigandi því fyrsti  vetrardagur var einmitt um helgina.  Það verður allt svo hreint og bjart í nýföllnum snjó.   En hann staldraði nú ekki lengi við þessi fyrsti snjór vetrarins – sem betur fer – en líklegt er að ekki líði á löngu þar til aftur fer að snjóa.  Ég vil frekar hugsa um vetrarstillur og vetrarsól, en myrkur og blindhríð.  Reyna að muna frekar það jákvæða við veturinn, en það neikvæða.  Í hönd fer tími kertaljósa og notalegheita inni við.  Óðum styttist í jólin og alltaf verð ég jafn hissa að sjá jólaauglýsingarnar og jólavörur komnar í búðir svona snemma.   Fyrir mig er þetta fullsnemmt, en það eru ekki allir sammála því, reyndar er það svo að dætur mínar og frænkur byrja að hlusta á jólalögin í ágúst – og eru samt ekki orðnar leiðar á þeim í desember ! 

Haustið og  fyrri hluti vetrar er tími rekstraráætlana fyrir komandi ár og í umfangsmiklum rekstri eins og á Hrafnistuheimilunum er í mörg horn að líta.  Það sem af er þessu ári hefur verið talsverð ólga á vinnumarkaði í þungri kjarasamningslotu, sem nú sér sem betur fer fyrir endann á.  Gengið hefur verið frá kjarasamningum við stéttarfélög flestra starfsmanna sem vinna á Hrafnistuheimilunum.  Þó er enn ósamið við Sjúkraliðafélagið og SFR, en í vikunni náðust samningar þessarar félaga við ríkið og því ástæða til að vera vongóður um að samningar náist innan tíðar við þessi félög líka. 
Það sem er sérstaklega ánægjulegt við nýju samningana er að þeir gilda til þriggja ára, þ.e. fram á vor 2019.  Síðustu tvö ár hefur farið mikill tími og orka í kjarasamingsviðræður, að ekki sé talað um verkföll, sem hafa komið sérstaklega illa niður í heilbrigðiskerfinu. Það er því kærkomið að vita til þess að ekki er von á slíkri törn á næstu 3 árum að minnsta kosti.  En nú eru bjartari tímar framundan, tími uppbyggingar og vonandi jafnvægis. 

Það er heldur ekki annað að heyra á ráðamönnum þjóðarinnar en allt sé eins og blómstrið eina og spár gera ráð fyrir miklum hagvexti og uppgangi á næstu misserum.  Það verður fróðlegt að sjá hvort heilbrigðisþjónustan, og þá sérstaklega þjónustan við eldri borgara landsins, fái aukið framlag frá ríkinu til að geta staðið mynduglega að þjónustu við aldraða.   Þessa mánuðina stendur yfir vinna við gerð þjónustusamninga milli hjúkrunarheimila og Sjúkratrygginga Íslands, fyrir hönd ríkisins.  Við bindum miklar vonir við að með þeim samningum verði kröfur til þjónustunnar tengdar fjárframlaginu frá ríkinu og rekstraraðstæður verði þar með skýrari og viðráðanlegri.  

Við leyfum okkur því að vera bjartsýn á komandi ár og að okkur takist í sameiningu að veita góða og alúðlega þjónustu til heimilisfólks og annarra þjónustuþega Hrafnistuheimilanna.   Það er nú þannig að þrátt fyrir krónur og aura þá er það fyrst og fremst hlýjan, kærleikurinn, samveran og brosið sem skila mestu til skjólstæðinga Hrafnistu og þessir þættir kosta ekki mikið. 

Ég enda föstudagsmolana að þessu sinni með ljóðinu Vetrarsól eftir Ólaf Hauk Símonarson:

Hvers virði er allt heimsins prjál
ef það er enginn hér
sem stendur kyrr
er aðrir hverfa á braut.
Sem vill þér jafnan vel
og deilir með þér gleði og sorg
þá áttu minna en ekki neitt
ef þú átt engan vin.

Hvers virði er að eignast allt
í heimi hér
en skorta þetta eitt
sem enginn getur keypt.
Hversu ríkur sem þú telst
og hversu fullar hendur fjár
þá áttu minna en ekki neitt
ef þú átt engan vin.

Það er komin vetrartíð
með veður köld og stríð
ég stend við gluggann
myrkrið streymir inn í huga minn
þá finn ég hlýja hönd
sál mín lifnar við,
eins og jurt sem stóð í skugga
en hefur aftur fundið ljós.
Mín vetrarsól.

 

 

Góða helgi
Harpa Gunnarsdóttir
fjármálastjóri Hrafnistuheimilanna.

Síða 279 af 309

Til baka takki