Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 1.apríl 2016 - Pétur Magnússon forstjóri

Old letter
Lesa meira...

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 1. apríl 2016.

Ágæta samstarfsfólk,

Verkföll sjúkraliða verða ekki á Hrafnistu!

Eins og fram hefur komið í fréttum hafa sjúkraliðar sem starfa hjá sveitarfélögum boðað verkföll frá 4. apríl. Rétt er að taka skýrt fram við íbúa og aðstandendur þeirra að verkfallið snertir Hrafnistuheimilin ekki neitt og því er enginn að fara á verkfall hjá okkur. Nokkur aðildarfélög Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) eiga vissulega þarna í hlut en það eru heimili í eigu sveitarfélaga. Þessi aðildarfélög hafa hins vegar ekki falið SFV umboð vegna kjarasamninga heldur er umboðið hjá viðkomandi sveitarfélagi. SFV (og þar með Hrafnista) er því ekki aðili að málinu en við sendum okkar bestu kveðjur um að úrlausn náist fljótt og vel.

Af málefnum Naustavarar í  Boðaþingi

Í tilefni frétta að undanförnu þar sem segir af deilum stjórnar íbúafélags í Boðaþingi í Kópavogi við Naustavör ehf., systurfélags Hrafnistu, hefur stjórn Naustavarar sent frá sér tilkynningu um málið þar sem segir m.a.:

Naustavör ehf. hefur í áratugi staðið fyrir nýjungum á sviði öldrunarmála á Íslandi í anda markmiða Sjómannadagsráðs. Félagið hefur aldrei myndað hagnað af rekstri. Hins vegar hefur ávallt verið gætt ráðdeildar og þess gætt að tekjur dugi fyrir útgjöldum. Af þeim sökum m.a. hefur Naustavör komist klakklaust í gegnum erfiða tíma í efnahagslífinu á liðnum áratugum. Gróðastarfsemi er ekki og hefur aldrei verið markmið Sjómannadagsráðs.

Deilan snýst um greiðslu húsgjalds, 14 þúsunda króna á mánuði, og þá einkum tiltekna kostnaðarliði í þeirri fjárhæð. Í samræðum fulltrúa Naustavarar við stjórn íbúafélagsins í Boðaþingi hefur Naustavör freistað þess að útskýra fyrir stjórn íbúafélagsins hvers vegna innheimt er annars vegar fyrir húsaleigu og hins vegar húsgjald. Ástæðan er sú að Naustavör vill viðhafa sem skýrast gegnsæi í reikningsgerð sinni þannig að leigjendur geri sér fyllilega grein fyrir hvaða kostnaður liggur að baki  húsgjaldinu. Kostnaðarliðirnir endurspegla þá þjónustu sem Naustavör stendur fyrir og liggur ljós fyrir gagnvart öllum sem vega og meta kosti þess og galla að undirrita leigusamning við félagið og flytja í Boðaþing.

Í áliti kærunefndar húsamála, sem er álitsgjafi en ekki úrskurðarnefnd, er komist að þeirri niðurstöðu að Naustavör njóti ekki undanþágu samkvæmt húsaleigulögum til að innheimta kostnað vegna sameignar með þeim hætti sem gert hefur verið. Naustavör beri að fella kostnaðinn undir húsaleiguna. Þessu eru lögmenn Naustavarar algerlega ósammála, en þar sem nefndin er einungis álitsgjafi verður ekki skorið úr deiluefninu nema fyrir dómstólum. Óháð því hvor aðilinn hefur rétt fyrir sér breytist ekki sú staðreynd að áfram þarf að reka sameign hússins í samræmi við það þjónustustig sem Naustavör stendur fyrir. Félagið hefur ekki í hyggju að skerða öryggi eða þjónustu við íbúa.

Í gildi er leigusamningar milli sérhvers leigutaka og Naustavarar þar sem samþykkt er að greiða húsgjald og húsaleigu eins og tilgreint er í samningunum. Félagið telur sig ekki geta vikið frá þeirri afstöðu sinni að ómögulegt sé að skerða tekjugrunn Naustavarar með lækkun leigugjalda og tefla með því fjárhagslegri framtíð félagsins í hættu.

Ekki hefur reynst unnt að jafna ágreining við íbúafélagið um þá lagalegu óvissu sem risin er um rekstur sameignarinnar. Naustavör mun hér eftir sem hingað til standa vörð um fjárhagslega framtíð félagsins, ekki síst með hagsmuni leigutaka að leiðarljósi. Í samræmi við það sem hér hefur komið fram kann að vera að farsælast sé að leysa ágreininginn með eftirfarandi hætti: Sérstakur rekstur sameignar verði felldur niður og settur undir húsaleigu í samræmi við álit kærunefndar. Í kjölfarið verði öllum leigutökum boðinn nýr leigusamningur þar sem kostnaði við rekstur sameignar hefur verið bætt við fjárhæð húsaleigu.

Því miður hefur Hrafnista einnig blandast inn í málið þó við séu ekki beinir aðilar að því. Vonandi leysist þetta sem allra fyrst.

Hrafnista á Kanaríeyjum!

Að lokum er gaman að segja frá því að miklar líkur eru á því að næsta Hrafnistuheimili opni á Kanaríeyjum á næstunni. Eins og þekkt er, er mikið af Íslendingum sem dvelur á Kanaríeyjum allt árið. Sannað er að hiti, sól og gott veður er allra meina bót því hafa margir íslenskir eldri borgarar dvalið langdvölum á svæðinu, sérstaklega á veturna.

Í nokkurn tíma hefur verið í skoðun hvort ekki væri grundvöllur fyrir að starfrækja íslenskt hjúkrunarheimili á Kanaríeyjum og nú er samningar um málin á lokastigum.

Markmiðið er að allt starfsfólk verði íslenskt og að stórum hluta geti núverandi starfsfólk Hrafnistuheimilanna fengið að vinna tímabundið á nýja heimilinu, til dæmis 2-6 vikur á ári.

Slík störf er þó ekki mörg en þau ykkar sem hafa áhuga er hvött til að snúa ykkur sem allra fyrst til mannauðsdeildar til að fá nánari upplýsingar.

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

Síða 282 af 330

Til baka takki