Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 13. maí 2016 - Pétur Magnússon forstjóri

Old letter
Lesa meira...

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 13. maí 2016.

 

Ágæta samstarfsfólk,

Endurbótarferlið í Hafnarfirði að hefjast – farið í þakið í sumar!

Nú í sumar er ætlunin að ráðast í umfangsmiklar lagfæringar á þaki Hrafnistu í Hafnarfirði. Má í raun segja að það sé fyrsti áfangi í umbótaferli húsnæðisins sem mun taka 5-10 ár en ætlunin er að taka húsnæði Hrafnistu í Hafnarfirði í gegn með sambærilegum hætti og var gert í Reykjavík á árunum 2007-2013. Nýlega fór fram útboð á framkvæmdinni en aðeins eitt tilboð barst, sem var yfir kostnaðaráætlun. Þessa dagana er verið að meta tilboðið en vonandi gengur þetta upp þannig að hægt verður að fara í framkvæmdir í sumar. Vonast er eftir að Framkvæmdasjóður aldraðra veiti styrki til verksins en það mun skýrast á næstunni.

Framkvæmdirnar og tímasetningar þeirra verða kynntar betur þegar nær dregur.

 

Heimsókn fulltrúa velferðarráðuneytis

Nýlega kom hópur starfsmanna úr velferðarráðuneytinu í heimsókn til Framkvæmdaráðs Hrafnistu. Tilgangur heimsóknarinnar var að efla samskipti Hrafnistu og starfsmanna ráðuneytisins en við erum jú ein stærsta heilbrigðisstofnun landsins og viljum skilgreina okkur sem leiðandi aðila í öldrunarþjónustu. Ýmis áhugaverð mál voru rædd en mestur hluti tímans fór þó í að kynna ráðuneytisfólkinu skipulag Hrafnistu og starfsemi á heilbrigðissviði okkar, þar sem farið var yfir gæðastarf, verkferla, fagteymi og fleira og voru gestirnir ánægðir með hversu langt við værum komin í þessum málum.

 

Breytingar í Öldrunarráði

Eitt af markmiðum Hrafnistu er að vera leiðandi aðili í öldrunarþjónustu. Við höfum því lagt kraft og metnað í að láta rödd okkar heyrast varðandi málefni aldraðra á opinberum vettvangi, ekki síst hvað varðar faglegt starf að málefnum aldraðra. Hrafnista hefur átt fulltrúa og formenn í fjölda þessara félaga en sem dæmi á nefna félög eins og Öldrunarfræðafélag Íslands, Félag stjórnenda í öldrunarþjónustu, Félag sjúkraþjálfara í öldrunarþjónustu og félag öldrunarhjúkrunarfræðinga.

Nýlega fór fram aðalfundur Öldrunarráðs Íslands en segja má að ráðið sé regnhlífarsamtök þeirra sem starfa að hagsmunum aldraðra hér á land. Að Öldrunarráði Íslands eiga því aðild samtök, félög, fyrirtæki og stofnanir, þar með talið sveitarfélög, sem vinna að málefnum aldraðra. Á fundinum hætti ég í stjórn ráðsins og steig úr stóli formanns eftir sex skemmtileg ár. Þessi tími hefur verið einstaklega gefandi og magnaður á margan hátt. Ég hef fengið að vinna með fjölmörgu flottu fólki að áhugaverðum verkefnum og fengið að kynnast fjölbreytilegri flóru öldrunarmálanna sem spannar mörg svið.

Nýr formaður Öldrunarráðs Íslands var kjörinn Anna Birna Jensdóttir framkvæmdastjóri Sóltún og verður fengur af henni í það embætti.

Ég vildi einnig upplýsa ykkur um að í ljósi leiðandi hlutverks okkar í öldrunarþjónustu var ákveðið í vikunni að Hrafnista og Sjómannadagsráð myndu tilnefna aftur stjórnarmann í Öldrunarráð Íslands. Það var ekki starfsmaður Hrafnistu í þetta skiptið heldur Janus Guðlaugsson, íþróttafræðingur og doktor í hreyfingu aldraðra. Hann hefur á síðustu árum verið leiðandi aðili í rannsóknum á Hreyfingu aldraðra og endurhæfingu þeirra. Samanburður á þjálfunaraðferðum eldri aldurshópa," er yfirskrift meistaraprófsrannsóknar hans. Markmiðið með rannsókninni var tvíþætt, þ.e. að kanna heilsufar og áhrif líkamsþjálfunar á heilsufar Íslendinga, 70 ára og eldri. Niðurstöðurnar hafa vakið mikla athygli, meðal annars mikilvægi styrktarþjálfunar aldraðra til að seinka öldrun og þar með þörf á þjónustu. Við höfum meðal annars styrkt rannsóknir hans.

Ég tel að það verði mikill fengur fyrir umræðu um öldrunarmál í landinu að fá Janus þarna inn og bara flott fyrir ímynd Hrafnistu, enda munu hreyfing og endurhæfing aldraðra gegna vaxandi hlutverki í þjónustu aldraðra á komandi árum.

 

Tiltektarvikan vikan tókst vel!

Eins og flestir vita er í dag síðasti dagur tiltektarviku á Hrafnistuheimilunum. Hér áður fyrr þekktist það vel að heimili og fyrirtæki tækju stóra og mikla vorhreingerningu eftir veturinn. Við hér á Hrafnistu erum sammála að viðhalda þessum góða sið enda er hjá okkur (eins og öðrum) mikið að dóti og drasli sem hrúgast upp á öllum deildum. Allar deildir allra húsa voru hvattar til gera ítarlega og góða tiltekt í þessari viku eftir veturinn. Hreinsa, skila, raða, henda og allt hitt sem tilheyrir.

Ég heyri ekki betur en flestir hafi tekið þátt af krafti enda virðist vera af nógu að taka. Tiltektarvikunni lauk svo formlega í hádeginu í dag, þar sem starfsfólki og íbúum Hrafnistuheimilannan var boðið í pizzu-veislu og tókst hún vel.

Takk kærlega fyrir þátttökuna!

Sem dæmi um þróun í öldrunarþjónustu skilst mér að þetta sé í fyrsta skipti í sögu Hrafnistuheimilanna þar sem pizza er aðalrétturinn á matseðli íbúanna okkar.

 

Góða helgi og gleðilega Hvítasunnu!

Bestu kveðjur,

Pétur

Síða 277 af 330

Til baka takki