Top header icons

Fyrir starfsfólk
Örugg skjalamótttaka Örugg skjalamótttaka Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 
 
 

Föstudagsmolar 4. mars 2016 - Pétur Magnússon forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 4. mars 2016.

 

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu

Samtök fyrirtækja í velferðaþjónustu (SFV) voru stofnuð árið 2002. Innan samtakanna eru fyrirtæki sem eru ekki ríkisfyrirtæki og starfa á heilbrigðissviði samkvæmt þjónustusamningi eða öðrum tengdum greiðslum frá ríkinu, t.d. daggjöldum. Flest aðildarfélögin eru hjúkrunarheimili en af öðrum aðilum má nefna SÁÁ, Krabbameinsfélagið, Sjálfsbjörgu, Heilsustofnun Náttúrulækningafélagsins í Hveragerði og Sólheima í Grímsnesi.  Tilgangur samtakanna er að:

a. Efla samstarf aðildarfélaga, standa vörð um hagsmuni þeirra og vinna að bættum starfsskilyrðum.

b. Stuðla að árangursríku samstarfi við heilbrigðisyfirvöld, sveitarfélög,  félagasamtök og aðra þá aðila sem hagsmuna eiga að gæta.  Annast gerð kjarasamninga við stéttarfélög eftir umboði frá aðildarfélögum hverju sinni

c. Að koma á framfæri við stjórnvöld og almenning afstöðu samtakanna til mála er varða hagsmuni aðildarfélaga og fylgja þeim fram.

d. Að gangast fyrir upplýsinga- og fræðslustarfsemi m.a. í því skyni að stuðla að framförum og hagræðingu í starfsemi og rekstri aðildarfélaga.

Frá stofnun hefur starfsemin vaxið jafnt og þétt enda í gangi mörg og mikilvæg málefni sem tengjast aðildarfélögunum. Á síðasta ári réðu samstökin sér starfsmann í fyrsta skipti sem er Eybjörg Hauksdóttir lögfræðingur. Þessi ráðning hefur verið mikið gæfuspor enda var lögfræðikostnaður samtakanna farin að hlaupa á milljónum króna á hverju ári og verkefnum farið að fjölga verulega.

Á aðalfundi samtakanna í síðustu viku var undirritaður kjörinn formaður SFV. Ég lít á það sem heiður fyrir mig sjálfan sem og Hrafnistu, sem er jafnframt stærsta aðildarfélag samtakanna. Það verður því í mörg horn að líta á næstunni en flest mál samtakanna eru einnig bein hagsmunamál fyrir starfsemi Hrafnistu. Með þessari breytingu mun Eybjörg, starfsmaður SFV, færast til og fá aðsetur á Hrafnistu í Reykjavík, þar sem SFV mun leigja aðstöðu af okkur. Hún verður staðsett á skrifstofugangi við Skálafell, a.m.k. til að byrja með, og veit ég að þið takið öll vel á móti Eybjörgu þó hún sé ekki starfsmaður Hrafnistu.

 

Hlévangur í fréttum

Málefni Hrafnistu Hlévangi hafi verið nokkuð í fréttum undanfarið á Suðurnesjum. Ástæðan er sú að við Hrönn forstöðumaður höfum verið að heimsækja sveitarstjórnir þeirra sveitarfélaga sem eru aðilar að Dvalarheimilum aldraða Suðurnesjum (DS) en DS er eigandi húsnæðis Hlévangs. Aðildarsveitarfélög DS eru Garður, Reykjanesbær, Sandgerði og Vogar. Markmið heimsóknanna er að fá eigendur Hlévangs til aðgera upp við sig að ef nota á Hlévang áfram sem hjúkrunarheimili þarf að ráðast fljótt í umfangsmiklar og kostnaðarsamar breytingar. Einnig að ef nota á Hlévang áfram sem hjúkrunarheimili til framtíðar þarf að ráðast fljótlega í ýmsar stærri breytingar á húsnæði til að það sé í samræmi við nútímakröfur um þjónustu við aldraða.

Okkur hefur verið vel tekið í þessum heimsóknum og vonandi ná sveitarfélögin saman um að koma Hlévangi í flott ástand sem allra fyrst.

 

Diskó-ball í kvöld og ráðstefnudagur í næstu viku

Í kvöld halda starfsmannafélög Hrafnistu sameignlegt ball fyrir starfsfólk þar sem diskóið verður þema kvöldsins. Það stefnir í góða þátttöku og fréttir af búningum og tónlistinni hafa farið hátt í vikunni. Þetta ball kemur í stað Árshátíðar Hrafnistuheimilanna sem er nú haldin annað hvert ár, en sveitaball starfsmannafélaganna er svo hitt árið á móti. Mér skilst að ennþá séu til einhverjir miðar svo það er um að gera að finna til diskó-gallan ef hann er ekki þegar tilbúinn.

Á miðvikudaginn (9. mars) fer svo fram árlegur ráðstefnudagur Hrafnistu þar sem spennandi fræðsludagskrá fyrir starfsfólk Hrafnistuheimilanna er keyrð samhliða í Reykjavík og Hafnarfirði. Það er um að gera að kíkja á dagskránna og njóta þess sem boðið hefur verið upp á.

Dagskránna í Reykjavík og Hafnarfirði er að finna hér á heimasíðunni – njótið vel.

 

Íbúðakaup möguleiki eftir vinning

Svo er nú alltaf gaman að minna á á Happdrætti DAS en á mbl.is í dag er skemmtileg frétt af vinningi í Happdrættinu:

Heppinn miðaeigandi í Happdrætti DAS vann í gær 6 milljónir á tvöfaldan miða. Eigandinn reyndist þrítugur fjölskyldumaður frá Flúðum í Hrunamannahreppi. Var hann að vonum alsæll með vinninginn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá DAS.

Samkvæmt manninum er fjölskyldan í leiguhúsnæði og íbúðakaup hafi aðeins verið draumur hingað til. Nú væri hann kominn með 6 milljónir í innborgun á íbúð og gæti látið drauminn rætast. Vinningsnúmerið í þetta skiptið var 55942.

 

Sjáumst sem flest í kvöld á Diskó-ballinu - Góða helgi!

 

Bestu kveðjur,

Pétur

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur