Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 12. febrúar 2016 - Gestaskrifari er Guðrún Jóhanna Hallgrímsdóttir, deildarstjóri iðjuþjálfunar og félagsstarfs Hrafnistu í Hafnarfirði

Góð áhrif af samvinnu á milli kynslóða

Síðustu ár hefur starfsfólk iðjuþjálfunar á Hrafnistu í Hafnarfirði staðið að markvissri uppbyggingu á tengslamyndun og samstarfi milli ólíkra kynslóða innan Hafnarfjarðar og heimilisfólks á Hrafnistu. Markmiðið er að veita heimilisfólkinu tækifæri á að endurvirkja gömul hlutverk í lífinu sem og að kynnast og tileinka sér ný hlutverk. Allt hefur þetta þann tilgang að efla lífsgæði og vellíðan heimilisfólksins og hjálpa þeim að upplifa sig enn sem virka þátttakendur í samfélaginu þrátt fyrir búsetu á hjúkrunarheimili og um leið fjarlægja mögulega upplifun af því að þau séu veik, gömul og engum til gagns lengur.

 

Í vetur hafa börn af leikskólum í grennd við Hrafnistu verið að koma mánaðarlega í heimsókn líkt og síðustu vetur. Hver leikskóli á sína vinadeild og þegar þau koma syngja allir saman, börn og heimilisfólk, með aðstoð iðjuþjálfa. Þetta eru yndislegar stundir þar sem falleg vinasambönd hafa myndast í gegnum reglulegar heimsóknir.

 

Síðasta vetur prófuðum við að fara af stað með lestrarverkefni í samstarfi við Víðistaðaskóli þar sem 11 ára börn komu og fengu tækifæri á að æfa sig í upplestri. Þeim var skipt niður 2-3 manna hópa sem var hver með sinn fasta lestrarvin og fengu þau tækifæri á að æfa sig í að lesa upphátt í hlýlegu og uppbyggilegu umhverfi. Þetta samstarfsverkefni lukkaðist það vel að ákveðið hefur verið að fara af stað með verkefnið aftur í byrjun þessa árs. Í ár eru 8 heimilismenn og 1 gestur í dagdvöl sem munu taka vikulega á móti 2-3 börnum hvert fyrir sig, hlusta á þau æfa sig í upplestri og segja þeim til.

Einnig ákváðum við í nóvember sl. að prófa að fá Auði Hörpu danskennara og eldri borgara frá Félagi eldri borgara í Hafnarfirði (FEBH) til að koma og vera með dansleikfimi á hverjum mánudegi eftir hádegi þar sem við tvistum við fjöruga tónlist. Þetta hefur vakið mikla lukku meðal heimilisfólks svo við erum enn að og munum halda þessu samstarfi áfram fram að sumri. Á hverjum mánudegi mætir Auður Harpa ásamt flottum hóp af eldri borgurum með Þórdísi B. Kristinsdóttur úr stjórn FEBH þar í fararbroddi sem eru að dansa við heimilisfólkið, hvetja það áfram og styðja við þau á meðan allir dansa saman við lög eftir meðal annars Elvis Presley.

 

Síðast í gær komu 25 glæsilegar konur frá samtökunum Ladies Circle og buðu heimilisfólkinu okkar í bingó með veglegum vinningum sem þær höfðu safnað og vöfflukaffi í góðgerðarskyni. Þetta framtak sló að sjálfsögðu í gegn og vakti mikla lukku.

 

Auk þessa fáum við reglulega yfir árið sjálfsboðaliða á öllum aldri frá Rauða kross Íslands, nemendur af öllum skólastigum sem eru að gera áhugaverð skólaverkefni, spreyta sig í vettvangsvinnu eða að taka þátt í samfélagsverkefnum sem og einstaklinga sem eru í starfsendurhæfingu og óska eftir að starfa með eldri borgurum. Allir þessir einstaklingar ásamt starfsfólki Hrafnistu sem er á ólíkum aldri eiga stóran þátt í því að veita heimilisfólkinu gleði og lífsgæði með því að hjálpa þeim að viðhalda hlutverkum frá þeirra yngri árum auk þess sem góð og sterk tengsl myndast og halda oft áfram að vera til staðar eftir að þessir einstaklingar hætta að koma í reglulegar heimsóknir til okkar.

 

Það hefur því margoft sýnt sig og sannað að fyrir utan þau góðu tengsl sem hafa myndast í gegnum svona samvinnu milli kynslóð að þá er þetta sterkur liður í því að minnka fordóma gagnvart öldruðum.

 

Góða helgi,

Guðrún Jóhanna

Deildarstjóri iðjuþjálfunar og félagsstarfs

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur