Hrönn og Bjarney stýra Reykjanesbæ og Kópavogi í að minnsta kosti eitt ár í viðbót!
Nú er liðið eitt og hálft ár síðan Hrafnista hóf starfsemi í Reykjanesbæ. Tíminn hefur liðið mjög hratt eins og yfirleitt gerist þegar það er gaman. Eins og einhver ykkar sjálfsagt muna, hefur Hrönn Ljótsdóttir, forstöðumaður í Reykjanesbæ, verið í tveggja ára leyfi frá Hrafnistu Kópavogi, til að sinna málefnum Reykjanesbæjar. Það hefur hún gert af miklum sóma.
Nú hefur verið ákveðið að framlengja leyfi hennar um eitt ár í viðbót þannig að Hrönn mun áfram gegna störfum forstöðumanns Hrafnistu í Reykjanesbæ, að minnsta kosti til febrúar 2017. Jafnframt hafa Bjarney Sigurðardóttir, sem nú starfar sem forstöðumaður í Kópavogi og Rebekka Ingadóttir, deildarstjóri í Kópavogi, samþykkt að vera áfram í störfum sínum þar, að minnsta kosti út þennan sama tíma.
Kærar þakkir fyrir það.
Hvað er Hrafnista margir fermetrar?
Öðru hverju kemur upp umræða um stærð og umfang starfsemi Hrafnistuheimilanna. Nánast undantekningalaust er fólk sem hlustar á kynningar og fróðleik um Hrafnistu, mjög hissa á hversu mikið og öflugt starf fer fram á okkar vegum. Ég hef stundum í þessum pistli mínum sett inn upplýsingar um ýmsa þætti starfseminnar.
Til fróðleiks fylgja hér tölur um stærðir húsnæðis okkar á Hrafnistu í Reykjavík og Hrafnistu Hafnarfirði en þessi tvö húsnæði eru alfarið í eigu okkar (Sjómannadagsráðs).
Starfsemi Hrafnistu Reykjavík fer fram í húsnæði sem er að heildarstærð 15.585 m2. Allt húsnæðið var byggt í mörgum minni áföngum, en þorri þess var tekið í notkun á tímabilinu 1957 til 1965. Allt það húsnæði var byggt fyrir fé sem félagið aflaði með ýmsum hætti, þ.a.m. með gjöfum, rekstri kvikmyndahúss, merkjasölu, tekjum af sjómannadeginum, styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum og gjöfum sem félaginu barst á þessu tímabili og fleira. Nýjasti hluti húsnæðisins er H-álman sem tekin var í notkun árið 2003. Hún er um 3.825 m2 að stærð. Það húsnæði var byggt fyrir fé sem félagið aflaði sjálft, lánum sem tekin voru af því tilefni og félagið er enn að borga af og síðan einnig með stuðningi frá Reykjavíkurborg og ríkinu.
Starfsemi Hrafnistu Hafnarfirði fer fram í húsnæði sem er að heildarstærð 14.320 m2. Húsnæðið var byggt í tveimur áföngum og tekið í notkun á árunum 1978 og 1982. Byggingarkostnaður var fjármagnaður með fé sem félagið aflaði sjálft, s.s. eins og með gjöfum, rekstri kvikmyndahúss, styrkjum frá líknarfélögum, einstaklingum og fyrirtækjum og einnig með gjöfum sem félaginu barst á þessu tímabili.
Við þetta má svo bæta að ákvörðun um byggingu hjúkrunarheimilis var tekin af Sjómannadagsráði árið 1939 og hófst fjáröflun árið 1942. Þá fóru einstaklingar og fyrirtæki að gefa fjárupphæðir sem voru ígildi eins herbergis. Ekki hvað síst skipti það Sjómannadagsráð miklu máli að lög voru sett á Alþingi árið 1954 sem veittu heimild til reksturs Happdrættis dvalarheimilisins aldraðra sjómanna, þar sem skilyrt er að allur ágóði þess renni til uppbyggingar Hrafnistuheimilisins í Reykjavík og síðar Hrafnistu i Hafnarfirði. Það má því ekki gleyma mikilvægi Happdrættis DAS í þeirri merku sögu að gera Hrafnistuheimilin að veruleika.
Starfsafmæli á Hrafnistu í september
Í september eiga formlegt starfsafmæli nokkrir valinkunnir starfsmenn okkar hér á Hrafnistu. Þetta eru:
3 ára starfsafmæli: Í Reykjavík eru það Lilja Rut Ólafsdóttir á Mánateig og Ása Jónsdóttir í dagþjálfun. Í Hafnarfirði eru það Harpa Björgvinsdóttir iðjuþjálfi, Maya Marinova í borðsal og Rakel Steinsen á Ölduhrauni. Einnig Stefanía Ólöf Hafsteinsdóttir í Kópavogi.
5 ára starfsafmæli: Thelma Þorsteinsdóttir í Kópavogi, Sigríður Ingólfsdóttir í borðsal og Lilian Harpa Ragnarsdóttir á Bylgjuhrauni, báðar í Hafnarfirði og Jozefa Biermann á Miklatorgi í Reykjavík.
10 ára starfsafmæli eiga Dagný Jónsdóttir á Sólteigi í Reykjavík og Jónas Hilmarsson í Umsjón fasteigna.
15 ára starfsafmæli eiga Lourdes Dygay Yanos á Lækjartorgi og Gunnhildur Björgvinsdóttir deildarstjóri Sólteigs, báðar í Reykjavík.
Hjartanlega til hamingju öll og kærar þakkir fyrir góð störf og tryggðina við Hrafnistu.
Nú er ég farinn í réttir og segi góða helgi!
Pétur