Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 9. september 2016 - Gestaskrifari er Halldór Eiríksson, verkefnastjóri innkaupa og rekstrar

Old letter
Lesa meira...

 

Það er leikur að læra…

„Af hverju geri ég aldrei neitt svona?“ sagði samstarfskona mín við mig í matsalnum í vikunni þegar ég sagði frá því að í haust hafi undirritaður loks látið verða af því að demba sér í nám í skógfræði í fjarnámi frá Bændaskólanum á Hvanneyri. Sú hugmynd hafði lengi blundað í mér en ég lét sem sagt nú loks slag standa í tilefni af því að fjölskyldan er í þann mund að hefja bændaskógrækt á jörð norður í landi. 

Í ákveðinni sportbílaauglýsingu sem var spiluð töluvert mikið í útvarpi fyrir nokkru er því haldið fram að fólk hætti ekki að leika sér af því að það verður gamalt heldur verði fólk gamalt af því að það hættir að leika sér. Vissulega má finna æsilegri áhugamál en skógrækt – fallhlífarstökk og sportbíla sem dæmi –  en hverjum manni er hollt að viðhalda lífsneistanum í sjálfum sér með því að vera eins virkur og mögulegt er út lífið og ekki spillir að ögra sjálfum sér svolítið af og til – gera eitthvað allt annað en maður hefur til þessa haft reynslu af að gera.  Áhugasvið fólks er auðvitað mismunandi og felist það í námi þarf háskólanám ekki endilega að vera málið. Tungumálanám, tónlist, sagnfræði, fluguhnýtingar, indversk matargerð – möguleikarnir eru nánast óendanlegir. Og það er ekki aðeins öflun nýrrar þekkingar og færni sem gefur námi gildi heldur ekki síður félagsskapurinn; að kynnast áhugaverðu fólki með mismunandi bakgrunn en sameiginleg áhugamál sem maður hefði ella aldrei kynnst. Það eru vissulega forréttindi að fá að lifa í landi þar sem jafn fjölbreytilegir möguleikar eru fyrir hendi í námsmöguleikum. Svo vinkona góð: „Go for it!“

Gildi skógræktar

Það verður sífellt augljósara hversu víðtæk jákvæð áhrif skógrækt hefur á mannlíf og umhverfi. Það er ekki rétt sem sumir efasemdarmenn vilja meina að ómögulegt sé að rækta „alvöru“ skóg á Íslandi sökum óhagsstæðs veðurfars. Sú reynsla sem áunnist hefur á þeim stutta tíma sem skógrækt hefur verið, stundum með skipulögðum hætti á Íslandi, bendir eindregið til að slíkt sé mjög vel mögulegt. Þvert á móti mætti snúa þessu viðhorfi á haus og benda á að einmitt vegna rysjótts veðurfars sé ræktun skóga mjög mikilvægt framtak til að bæta landgæði og veðurfarsskilyrði í okkar vindasama og oft harðbýla landi. Gerbreyting hefur orðið síðustu árin í okkar nánasta umhverfi þar sem skógrækt í görðum og opinberum svæðum innan sem utan borgarmarka hefur stórbætt veðurfar í nærumhverfi og aukið möguleika til útivistar frá því sem áður þekktist. Skógar veita þannig skjól gegn veðrum og vindum og hafa bætt veðurskilyrði vegna gróðursetningar trjáa í Reykjavík og nágrenni verið rækilega staðfest með veðurfarsmælingum. Það er ástæða til þess að hvetja fólk til að nýta sér vel þessa myndarlegu skógarreiti sem er búið að rækta upp víðsvegar í kringum landið. Útivist í skóginum hefur góð líkamleg áhrif og bætir andlega líðan og rannsóknir virðast staðfesta þá upplifun margra vel.

Og jákvæð áhrif skógarins liggja svo miklu víðar. Skógrækt er atvinnuskapandi og arðbær atvinnugrein sem gefur af sér viðarafurðir og ýmsar aðrar nytjar. Auk þess verndar skógurinn jarðveg, bætir vatnsbúskap, bindur kolefni og hefur þannig hamlandi áhrif á hlýnun jarðar. Skógrækt er viðurkennd leið í loftslagssamningum til þess að draga úr nettólosun landa og má líklegt teljast að skógrækt muni leika lykilhlutverk hér á landi í framtíðinni í baráttunni við loftslagsvandann. Kannski er samt best að hver og einn líti sér næst því „ef þú vilt breyta heiminum breyttu þá sjálfum þér“ eins og þar stendur. Í því sambandi er rétt að minna á verkefnið Kolviður en á vef þess (kolvidur.is) geta einstaklingar mælt kolefnislosun vegna bíla- og flugnotkunar heimilisins og greitt fyrir gróðursetningu á trjáplöntum sem duga til að kolefnisjafna samgöngurnar. Önnur leið er að  gróðursetja plönturnar bara sjálf(ur). Þetta er kannski eitthvað sem Hrafnista eða starfsmannafélagið hefðu áhuga á að skoða; hvort ekki sé áhugi á að taka að sér landspildu og rækta þar skóg í góðum félagsskap, efla starfsandann og leggja þar með sitt af mörkum? Þetta er allavega hugmynd.

Bestu kveðjur,

Halldór Eiríksson

Verkefnastjóri innkaupa og rekstrar

Síða 266 af 330

Til baka takki