Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 26. ágúst 2016 - Gestaskrifari er Árdís Hulda Eiríksdóttir, forstöðumaður Hrafnistu Hafnarfirði

Old letter
Lesa meira...

Aftur í nám eftir langt hlé:

Haustið 2015 ákvað ég að setjast aftur á skólabekk í Háskóla Íslands eftir um 18 ára hlé, þetta er sennilega ein af mínum betri ákvörðunum. Ég ætla ekki að segja að þetta hafi verið einföld ákvörðun, ég var búin að ganga með það í maganum í nokkur ár að fara í frekara nám, en aldrei var rétti tíminn. Það er auðvelt að finna sér afsökun fyrir að nú sé ekki rétti tíminn til að setjast aftur á skólabekk, nóg að gera að sinna fjölskyldu, áhugamálum og vinnu.

Mennt er máttur segir einhversstaðar, það er mikið til í því. Hvort sem maður tekur ákvörðun um að fara í nám, endurmenntun, námskeið eða aðra fræðslu þá er ljóst að öll fræðsla er af hinu góða, ekki aðeins eykur hún þekkingu manns á viðfangsefninu heldur er það hverjum manni mikilvægt að takast á við nýjar áskoranir og næra andann.

Ég er stolt af Hrafnistu, fyrirtækinu sem ég starfa hjá, þar hefur verið lögð mikil áhersla á fræðslu og stuðning við starfsmenn til að sækja sér aukna þekkingu. Eftir hið svokallaða hrun þá fóru mörg fyrirtæki í að skera niður styrki sem ætlaðir voru til fræðslumála, á Hrafnistu var hins vegar ákveðið að skera ekki niður í þessum málaflokki, heldur styðja starfsmenn frekar og hvetja. Sjálf hefði ég ekki getað sest á skólabekk með vinnu nema vegna þess að ég fékk stuðning, hvatningu og svigrúm hjá mínum yfirmönnum og samstarfsfólki til að sinna náminu, kann ég þeim ölllum bestu þakkir fyrir, stuðningur þeirra var ómetanlegur.

Að lokum langar mig að hvetja alla mína samstarfsmenn til að vera duglegir að sækja sér fræðslu í vetur, hvort sem um er að ræða fræðslu innan Hrafnistu eða utan og fyrir ykkur sem gangið með það í maganum að fara aftur í nám þá hvet ég ykkur eindregið til að láta af verða, það er bara að stíga skrefið, þið sjáið ekki eftir því!

 

Árdís Hulda Eiríksdóttir

Forstöðumaður

Hrafnistu Hafnarfirði

Síða 268 af 330

Til baka takki