Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 30. september 2016 - Pétur Magnússon forstjóri

Old letter
Lesa meira...

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 30. september 2016.

 

Ágæta samstarfsfólk,

Gjafir og framlög til Hrafnistu.

Í vikunni fengum við á Hrafnistu fyrirspurn frá fjölmiðli um umfang gjafa og framlaga til hjúkrunarheimila. Til að svara fyrirspurninni þurftum við að taka saman ýmis gögn sem er áhugavert að skoða. Sem betur fer höfum við hér á Hrafnistu verið svo heppinn að eiga mikið af velunnurum, bæði einstaklingum, félagasamtökum og fyrirtækjum, sem leggja ómæld framlög til starfseminnar. Til frekari fróðleiks langar mig að hafa hér samantektina okkar um þessi mál.

 

Við getum eiginlega skipt framlögum til okkar í fimm flokka en í heild má segja að þetta hjálpi verulega til í rekstrinum þó heildin sé kannski varla 1% af heildarstarfseminni. Við erum gríðarlega þakklát fyrir öll framlög af þessu tagi.

1. Gjafir frá félagasamtökum og fyrirtækjum.

Til dæmis lækningatæki, þjálfunartæki eða hjúkrunartæki. Fjöldi og andvirði þessara gjafa er mjög misjafnt milli ára en verðmætið er 1-5 milljónir á ári að meðaltali á hverju heimili.

2. Gjafir frá íbúum og ættingjum

Íbúar Hrafnistu gefa heimilunum stundum gjafir sem getur verið allt frá hekluðum dúkum upp í húsgögn eða dýr málverk. Einnig er töluvert um að við andlát íbúa séu heimilunum færðar gjafir úr dánarbúinu. Oft húsgögn, bókasöfn, málverk eða jafnvel fatnaður.

Þetta er ekki alltaf skráð nákvæmlega og mjög erfitt að verðmeta margar gjafirnar þó þær nýtist vel. En er örugglega töluvert þegar allt er lagt saman.

3. Stærri gjafir frá einstaklingum

Áður fyrr þekktist að Hrafnista fékk verulegan arf úr dánarbúum einstaklinga eða hjóna. Gátu stundum verið heilu íbúðirnar og húsin. Þetta er sjaldgæft núorðið en gerist þó einstaka sinnum.

4. Minningakort Hrafnistu

Á heimasíðu Hrafnistu er hægt að kaupa minningakort. Sala á þeim er um 0,5-1 milljón á ári.

5. Vinna sjálfboðaliða.

Á hverju ári leggja félagasamtök og sjálfboðaliðar fram töluverða vinnu í þágu íbúa Hrafnistuheimilanna. Þetta getur verið í formi félagsstarfs - sem við sleppum þá við að greiða starfsfólki laun í staðinn og hjálpar því auðvitað við reksturinn.

 

Starfsafmæli í september

Venju samkvæmt fagnar fjöldi starfsmanna formlegu starfsafmæli nú í september. Þetta eru:

3 ára starfsafmæli: Hjördís Þórisdóttir á Vitatorgi í Reykjavík og Birta Mjöll Klemensdóttir á Sjávar- og Ægishrauni og Þórdís Eiríksdóttir á Báruhrauni, báðar í Hafnarfirði.

5 ára starfsafmæli: Rakel Birna Þorsteinsdóttir á Sjávar- og Ægishrauni í Hafnarfirði, Dané Ambrulaitiené í Kópavogi og Thelma Rut Jónsdóttir á Lækjartorgi og Anna Margrét Vignisdóttir á Miklatorgi, báðar í Reykjavík.

10 ára starfsafmæli: Í Reykjavík eru það Saliha Lirache í eldhúsi, Elisabeth Maro á Mánateigi, Emilía Sveinsdóttir í sjúkraþjálfun og Rita Svedaite og Slawomir Jozwiar í ræstingu. Í Hafnarfirði er það Helga Halldórsdóttir á Sjávar- og Ægishrauni.

15 ára starfsafmæli: Helena Björk Jónasdóttir íþróttakennari og Nilanka I. Dewage á Ölduhrauni, báðar í Hafnarfirði. Í Reykjavík er það Cristito de la Cruz í ræstingu.

20 ára starfsafmæli: Kristjana E. Kristjánsdóttir á Lækjartorgi í Reykjavík.

25 ára starfsafmæli: Guðrún Magný Jakobsdóttir í ræstingu í Reykjavík og Kristín Bjarnadóttir á Ölduhrauni í Hafnarfirði.

Síðast en ekki síst er það Guðrún Erna Sigurðardóttir á Báruhrauni í Hafnarfirði sem fagnar 30 ára starfsafmæli.

Hjartanlega til hamingju öll og kærar þakkir fyrir ykkar góðu störf í þágu Hrafnistu.

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

Síða 263 af 330

Til baka takki