Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 10. júní 2016 - Pétur Magnússon forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 10. júní 2016.

 

Ágæta samstarfsfólk,

 

Glæsilegur Sjómannadagur á Hrafnistu!

Á sunnudaginn var Sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur á Hrafnistuheimilunum. Almennt gekk þetta mjög vel og vil ég nota þetta tækifæri og þakka þeim fjölmörgu sem lögðu hönd á plóginn við að gera þetta allt jafn glæsilegt og raun bar vitni!

Myndir og frekari umfjöllun um dagskrá dagsins má finna hér á heimasíðunni og á facebook-síðum Hrafnistuheimilanna.

 

Kosningar á Hrafnistu!

Það hefur varla farið framhjá neinum að forsetakosningar nálgast. Undanfarið hafa frambjóðendur eitthvað verið að heimsækja Hrafnistuheimilin og hefur það bara gengið vel.

Venju samkvæmt fer fram utankjörstaða-kosning á Hrafnistuheimilunum á höfuðborgarsvæðinu. Á miðvikudaginn var kosning í Kópavogi og á morgun verður kosningin í Reykjavík. Miðvikudaginn 15. júní er svo kosning hjá okkur í Hafnarfirði. Loks verður svo kosið á Reykjanesbæjarheimilunum okkar 20. og 21. júní.

Þetta verður allt auglýst betur á hverju heimili en rétt er að geta þess að þessi kosning er aðeins fyrir íbúa Hrafnistuheimilanna. Gestir dagdvala, í hvíldarinnlögn, íbúar í nærliggjandi húsum eða starfsfólk getur ekki greitt atkvæði.

Það er um að gera að hvetja fólkið okkar til að fara á kjörstað og nýta atkvæðisréttinn. Þetta er líka tilvalin samverustund fyrir ættingja að aðstoða sitt fólk.

Svo er bara að krossa fingur að allir kjósi rétt! 

 

EM veislan byrjar í dag!

…og ef það skildi hafa farið framhjá einhverjum þá byrjar Evrópukeppnin í fótbolta í kvöld. Úrslitakeppnin fer fram í Frakklandi og er helst merkileg fyrir það að Íslandi tókst að tryggja sér þátttökurétt í fyrsta sinn í sögunni (karla megin). Það verður auðvitað mikið um dýrðir en talið er að um 8.000 Íslendingar verði á hverjum leik íslenska liðsins. Aldrei í Íslandssögunni hafa jafnmargir Íslendingar verið samankomnir á einum stað utan Íslands (þjóðhátíð í Vestmannaeyjum ekki talin með).

Leikir íslenska liðsins verða sýndir á RÚV en almennt eru aðrir leikir EKKI sýndir á RÚV, heldur á sérstakri EM-rás sem send er gegnum Sjónvarp Símans og þarf að kaupa í áskrift og einnig eitthvað á Skjá 1. Ánægjulegt er að segja frá því að Síminn hefur boðið Hrafnistuheimilunum aðgang að útsendingum á leikjum á EM í sumar, endurgjaldslaust. Síminn þarf að opna fyrir það í gegnum alla myndlykla – hvort sem þeir eru frá Vodafone, Símanum eða Stöð 2.

Endilega verið í sambandi við húsverði og/eða rafvirkja á ykkar heimilum til að láta opna fyrir þetta.

Við hér á Hrafnistu höfum oft gert einhverja skemmtun tengda þessari keppni og vil ég hér með hvetja alla til að skoða með að halda EM-partý þegar leikir Íslands fara fram; skreyta með fánum, baka, poppa og skapa stemningu. Hugmyndirnar eru óþrjótandi.

Leikir Íslands eru eftirfarandi:

Þriðjudagur 14. júní kl 19:00 Portúgal – Ísland

Laugardagur 18. júní kl 16:00 Ísland – Ungverjaland

Miðvikudagur 22. júní kl 16:00 Ísland – Austurríki

…svo er bara um að gera að njóta.

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur