Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 7. október 2016 - Gestaskrifari er Harpa Gunnarsdóttir, fjármálastjóri Hrafnistuheimilanna

Mynd: Jón Önfjörð Arnarsson
Lesa meira...

Það haustar að

Það hefur gustað um okkur síðustu dagana og ótrúlegt hvað getur rignt mikið á stuttum tíma ef náttúran er í þeim ham.  Fallegu haustlitirnir á laufum trjánna fuku út í veður og vind á einu augabragði.  Þannig gengur þetta fyrir sig, skin og skúrir. Eftir einmuna veðurblíðu í allt sumar þar sem lognið lék við okkur dag eftir dag, veður var hlýtt og sólríkt og gróðurinn uppá sitt allra besta, þá koma haustlægðirnar núna hver af annarri og minna okkur á að við búum eftir sem áður á Íslandi. 

Það eru forréttindi að búa á Íslandi, þrátt fyrir rok og rigningu af og til.  Landið og náttúran leikur við okkur og gefur af sér á óteljandi vegu.  Ferðamenn hópast til landsins sem aldrei fyrr og flestir þeirra eru agndofa yfir tæra loftinu, hreina vatninu, náttúrufegurðinni, birtunni og víðáttunni.  Að ekki sé nú minnst á norðurljósin.  Undanfarnar vikur hafa norðurjósin leikið sér á heiðskýrum himni kvöld eftir kvöld.  Sjónarspilið ótrúlegt.  Eitt kvöldið þegar ég var að koma heim og sá hversu stórfengleg ljósadýrðin var, kallaði ég á fjölskylduna og sagði þeim að koma og sjá  - sjá hvað? var kallað af efri hæðinni.  Norðurljósin svaraði ég.  Æ ég er búin að sjá þau svo oft var þá svarað.  Ég fór að velta fyrir mér að í raun erum við Íslendingar, mörg hver,  orðin svo góðu vön að við tökum varla eftir þeim gæðum og einstöku auðlindum sem við búum við hér á landi.  Meira að segja norðurljósin eru orðin svo hversdagsleg að við nennum varla að horfa á þau.  Útlendingar borga stórfé fyrir að koma til landsins í þeirri von að fá að sjá norðurljós – og sumir þeirra gráta þegar þeir sjá dýrðina.

Það er margt sem minnir okkur á að haustið er komið og því fylgja ákveðin verkefni í umfangsmiklum rekstri Hrafnistuheimilanna.  Hefðbundið er á þessum tíma að rýna í tölur eftir rekstur fyrstu 9 mánuði ársins og stilla af strengi fyrir síðasta ársfjórðunginn, til að leitast við að heildarniðurstaða ársins verði ásættanleg.  Áætlanagerð fyrir rekstur komandi árs er sett í gang og legið yfir leiðum til að ná endum saman á heimilunum. 

Nú eru aðstæður þó mjög sérstakar og í sjálfu sér alls ekki ásættanlegar fyrir það umfangsmikla verkefni sem rekstur 5 hjúkrunarheimila er.  Þó liðið sé á októbermánuð liggur ekki enn fyrir hver raunveruleg daggjöld verða þetta árið!  Það er því ekki hægt að gera upp þá 9 mánuði sem liðnir eru með neinni vissu og heldur ekki tímabært að leggjast yfir áætlanir á meðan tekjugrunnurinn er enn óljós.  Ástæða þessa er sú að allt frá árinu 2008 hefur verið stefnt að því að gera þjónustusamninga milli Sjúkratrygginga Íslands og hjúkrunarheimila, sem flest hafa verið án þjónustusamnings allt til þessa dags.  Fjórum sinnum hefur þeim áformum verið frestað, síðast til ársins 2015.  Á því ári stóð til að klára þjónustusamningana en þrátt fyrir stífa fundarsetu og miklar umræður tókst það ekki.  Haldið var áfram samningaviðræðum á árinu 2016 og loks sér fyrir endann á verkefninu og rammasamningur um þjónustu hjúkrunarheimila mun að öllum líkindum verða gefinn út á allra næstu dögum.   Eins og gengur og gerist í samningaviðræðum náðust ekki fram öll þau áhersluatriði sem Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV), fyrir hönd hjúkrunarheimila, vildu ná fram en samt sem áður mun þessi nýji samningur veita betri leiðbeiningar en hafa verið til, um hvaða þjónustu ríkið er að greiða fyrir með daggjöldum.  Ýmsar jákvæðar breytingar eru gerðar með samningnum frá því sem verið hefur og fjármagni bætt í málaflokkinn.  Því ber að fagna. 

Stærsta verkefnið framundan hjá Hrafnistuheimilunum er að stilla af áherslur og rekstur miðað við nýja samninginn og það fjármagn sem honum fylgir.   Þetta horfir því allt til betri vegar og vonandi skýrist á næstu vikum hvernig tekjugrunnur ársins verður, og  horfur næsta árs, svo hægt verði að einhenda sér í hefðbundin haustverkefni rekstrarsviðs Hrafnistuheimilanna.

Framundan er spennandi vetur,  hlaðinn verkefnum sem miða að því að gera þjónustuna við heimilisfólk og aðra skjólstæðinga Hrafnistuheimilanna betri og skilvirkari.  Það er okkar helsta markmið og það má alltaf gera betur.  Miklu betur.

 

Góða helgi
Harpa Gunnarsdóttir
fjármálastjóri Hrafnistuheimilanna.

Síða 262 af 330

Til baka takki