Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 1. maí 2015 - Pétur Magnússon forstjóri

Gleðilegt sumar!
Mig langar til að nota þetta tækifæri og óska ykkur öllum gleðilegs sumars!
Jafnframt þakka ég kærlega fyrir samstarfið í vetur. Þrátt fyrir þungan vetur frá veðurfarslegu sjónarhorni, var venju samkvæmt alltaf líf og fjör á Hrafnistuheimilunum. Það er því kærkomin hvíld framundan fyrir okkur öll en betur hefur gengið að ráða í sumarafleysingar en í fyrra þannig við ákveðum bara hér með að það sé frábært sumar framundan.
 
Hve mikið eru íbúarnir okkar að greiða fyrir að vera á Hrafnistu?
Nýlega fengum við fyrirspurn frá fjölmiðli hve mikið íbúar á Hrafnistu væru að greiða fyrir veru sína á heimilunum okkar. Við ákváðum að taka þetta saman og hér koma niðurstöðurnar ykkur til fróðleiks.
Ríkið á að greiða öldrunarheimilum ákveðið gjald fyrir hvern íbúa til að sinna allri þjónustu við viðkomandi aðila. Þessi upphæð kallast daggjald. Íbúi getur þurft að greiða hluta af þessu gjaldi, misjafnt hversu hátt hlutfall það er. Ríkið greiðir það sem á vantar til heimilisins til að ná heildardaggjaldinu.
Ef íbúi greiðir ekki sinni hluta er það skuld við heimilið og tekjutap fyrir heimilið ef skuldin er ekki greidd. Tryggingastofnun eða aðrir opinberir aðila bæta öldrunarheimilunum þetta ekki.
Hjúkrunarheimilið sér því um innheimtu á greiðsluþátttökunni fyrir TR en kemur ekki að útreikningi kostnaðarþátttökunnar sem er alfarið í höndum TR. Við á Hrafnistu getum því ekki gefið upplýsingar um forsendur greiðsluþátttöku en útreikningurinn byggir meðal annars á skattframtali. Hægt er að staðfesta að enginn íbúi greiðir meira en kr. 354.902 sem er hámarksgjald samkvæmt reglum TR
Á Hrafnistuheimilunum fimm eru tæplega 600 íbúar. Í mars 2015 tóku 58% íbúa þátt í kostnaði sem var á bilinu kr. 823 til kr. 34.904 þannig að bilið er breytt. Til fróðleiks fylgir hér skipting (mánaðargreiðslur):
42% heimilismanna greiðir ekkert.
21% heimilismanna greiðir undir kr. 49.000
18% heimilismanna greiðir á bilinu kr.50.000 – 99.000
6% heimilismanna greiðir á bilinu kr.100.000 – 149.000
5% heimilismanna greiðir á bilinu kr.150.000 – 199.000
4% heimilismanna greiðir á bilinu kr.200.000 – 249.000
1% heimilismanna greiðir á bilinu kr.250.000 – 299.000
3% heimilismanna greiðir á bilinu kr.300.000 – 354.902
 
Siðasta endurhæfingarrýmið orðið tómt
Á þriðjudaginn gerðist sá sögulegi atburður að útskrifað var úr síðasta endurhæfingarýminu á Hrafnistu í Reykjavík. Þar með lýkur 6 ára sögu endurhæfingarýma þar, en eins og frægt er orðið var ákveðið að samningur um 20 endurhæfingarrými á Hrafnistu í Reykjavík yrði ekki endurnýjaður. Þetta er auðvitað mjög miður en við þessu er ekkert að gera og við nýtum rýmin í annað. Frá því að þetta var tilkynnt í janúar höfum við verið að fækka rýmunum smá saman.
Nú er semsagt þessum kafla lokið í sögu Hrafnistu – í bili amk - en endurhæfing er mjög spennandi þjónusta sem gaman væri að skoða betur síðar þegar tækifæri gefast.
 
Íbúi á Hrafnistu vann 4 milljónir í Happdrætti DAS!
Eins og þið þekkið gengur allur ágóði af Happdrætti DAS til uppbyggingar Hrafnstuheimilanna. Við höfum notið góðs af þessari „mjólkurkú" í 60 ár en meðal annars allar breytingarnar sem gerðar voru á Hrafnistu í Reykjavík á árunum 2007-2013 voru að mestu greiddar með hagnaði Happdrættisins. Hraði á fyrirhugðum breytingum í Hafnarfirði (sem vonandi byrja innan fárra ára) mun ráðast af gengi Happdrættisins.
Nú er einmitt að fara hefjast nýtt happdrættisár sem vonandi á eftir að ganga glæsilega vel!
Einn íbú hjá okkur datt í lukkupottinn nú á dögunum. Frásögn af þessu er svohljóðandi á heimasíðu Happdrættis DAS:
Sumir eru vissir um að vinningarnir gangi aldrei út eða að miðinn þeirra hafi týnst því þeir fái aldrei vinning en við drögum svo sannarlega út vinninga. Síðastliðinn fimmtudag vildi svo skemmtilega til að íbúi á Hrafnistu vann 4 milljónir, sem var aðalvinningur, þar sem hann var með tvöfaldan miða.
Það hefur verið draumur hans um lengri tíma að fá rafmagnshjólastól til að létta sér lífið og komast um. Vinningurinn kemur sér því afar vel og að sjálfssögðu ætlar hann að láta drauminn rætast. Átt þú þér draum kannski rætist? Við drögum á fimmtudaginn um 2 milljónir í aðalvinning á einfaldan og 4 milljónir á tvöfaldan!
 
Gleðilegan baráttudag og góða helgi!
Pétur

Síða 320 af 330

Til baka takki