Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 17. apríl 2015 - Gestaskrifari er Alma Birgisdóttir

Fyrsti dagurinn á Hrafnistu
Fyrir rúmum þrjátíu árum eða þann 4. júli 1983 var fyrsti dagurinn minn á Hrafnistu. Ekki datt mér í hug þann dag að Hrafnista ætti eftir að verða jafn stór hluti af mínu lífi næstu 32 árin og raun ber vitni. Ég var rétt skriðin yfir þrítugt og nýútskrifuð úr sérnámi í öldrunarhjúkrun. Þennan dag mætti ég til  vinnu sem hjúkrunarfræðingur á deild 3-B á Hrafnistu í Hafnarfirði í hvítum slopp, hvítum sportsokkum og í hvítum klossum. Síðan eru liðin mörg ár og störfin á Hrafnistu hafa verið ótrúlega mörg. Ég hef gegnt stöðu hjúkrunarfræðings, deildarstjóra, fræðslustjóra, framkvæmdastjóra hjúkrunar á Hrafnistu Hafnarfirði, aðstoðarhjúkrunarforstjóra og síðustu 10 árin hef ég gegnt starfi hjúkrunarforstjóra Hrafnistuheimilanna og var með því starfi líka forstöðumaður Hrafnistu í Reykjavík í 8 ár. Ég er mjög þakklát og stolt að mér hafi verið treyst fyrir þessum störfum.
 
Breytingar og uppbygging á Hrafnistuheimilunum
Það hafa verið forréttindi að sinna þessum störfum og fá að taka þátt í þeim breytingum og uppbyggingu á Hrafnistuheimilunum sem hafa orðið á þessum árum. Breytingar á Hrafnistu í Reykjavík standa upp úr. Gömlu herbergjunum var gjörbreytt og allur aðbúnaður bættur til muna, bæði fyrir starfsfólk og heimilisfólk. Einnig stendur upp úr að hafa fengið að taka þátt í hönnun á  Hrafnistu í Kópavogi frá byrjun og innleiða þar nýja hugmyndafræði í þjónustu við aldraða. Síðast en ekki síst fannst mér áhugavert og lærdómsríkt að taka þátt í því þegar Hrafnista tók að sér rekstur hjúkrunarheimila í Reykjanesbæ og fá að kynnst því góða fólki sem þar starfar.
 
Hjúkrun 
Þegar ég lít til baka má samt segja að stærsta verkefnið og mesta áskorunin hafi legið í verkefnum varðandi hjúkrun á Hrafnistu. Þegar ég byrjaði á Hrafnistu var ekki formleg hjúkrunarskráning en við hjúkrunarfræðingar sem þar unnum á þeim tíma tókum okkur saman og hönnuðum sjálfar ýmis eyðublöð og skema fyrir hjúkrunarskráningu. Þá var ekki hægt að fara í tölvu og búa til eyðublað, allt var gert með reglustiku, klippt út, límt saman og ljósritað. Útkoman var oft skrautleg en þetta var skemmtileg vinna. Mörg af þessum eyðublöðum og skemum voru notuð við hjúkrunarskráningu í fjöldamörg ár.
 
Það var ekki fyrr en árið 1998 sem við hönnuðum ný hjúkrunareyðublöð og í „tölvu“ . Fengum leyfi hjá LSH til að nota þeirra hjúkrunareyðublöð en aðlögðum þau að okkar starfsemi. Embætti landlæknis mælti síðar með við önnur hjúkrunarheimili á landinu að þau tækju upp sömu eyðublöð, sem þau fengu mörg að nota með okkar leyfi. Síðan varð bylting í allri faglegri skráningu á Hrafnistu með tilkomu Sögukerfisins en árið 2014 voru öll Hrafnistuheimilin búin að innleiða það kerfi. Með tilkomu Rai mælingtækisins 1994 varð einnig mikil breyting á allri faglegri vinnu á öllum hjúkrunarheimilum á Íslandi og þar var gerð krafa um faglega skráningu.  Þar höfum við fengið tæki til að sýna svart á hvítu þá faglegu vinnu sem unnin er á Hrafnistu, ekki bara við hjúkun heldur í allri starfseminni.
 
Í úttekt sem Embætti landlæknis gerði árið 2012 á Hrafnistu í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi fengum við topp einkunn. Það var sérstaklega ánægjulegt að sjá það álit embættisins að „hjúkrunarskráning, hjúkrunargreiningar, tillögur um meðferð og framvindumat er allt vel skráð og reglulega uppfært.“ 
Þessi úttekt er gerð áður en öll okkar heimili höfuð innleitt rafræna skráningu (Sögukerfið). 
Lokaorð úttektarinnar voru „ Augljóst er að starfsfólk lætur sér annt um vellíðan og velferð heimilismanna og metnaður er til að gera vel. Hugmyndafræði Hrafnistu byggir á virðingu fyrir einstaklingnum og allt kapp er lagt á að að stuðla að vellíðan heimilismanna.“ Varla er hægt að fá betri einkunn frá þeim sem hafa eftirlit með faglegri starfssemi á hjúkrunarheimilum á Íslandi.
 
Lokaorð 
Í dag er Hrafnista leiðandi í þjónustu við aldraða á Íslandi. Ég er stolt af því að hafa komið að uppbyggingunni. Það hefur ávallt verið gæfa Hrafnistu hversu gott starfsfólk hefur valist þangað inn. Það hafa verið forréttindi að fá að vinna með öllu því góða fólki. Ég læt nú af störfum um næstu mánaðamót og veit að Hrafnista er í góðum höndum. Takk fyrir ánægjulegt samstarf og samvinnuna öll þessi ár.
 
Alma Birgisdóttir
 
 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur