Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 20. febrúar 2015

Flottur öskudagur á Hrafnistu!

Ég vil byrja á því að lýsa yfir mikill ánægju með hversu vel tókst til hjá öllum Hrafnistuheimilunum á öskudaginn. Á síðustu árum höfum við verið að vinna markvisst í því að skapa skemmtilega hatta- og búningastemningu á þessum degi. Þetta hefur aukist jafnt og þétt á hverju ári og töluvert um að heilu deildirnar taki sig saman. Á miðvikudaginn náði ég bæði að heimsækja Hafnarfjörð og Reykjavík og þar var fjöldi fólks í skemmtilegum búningum. Einnig hef ég séð flottar myndir bæði úr Kópavogi og Reykjanesbænum. Það er alltaf gaman að rækta barnið í sjálfum sér og slá á létta strengi. Þetta styrkir bara andan á vinnustaðnum og gerir andrúmsloftið skemmtilegra – það var sannarlega mikið hlegið á Hrafnistuheimilunum á öskudaginn.

Svo má ekki gleyma því að þetta vekur ómælda kátínu og virkni hjá íbúunum okkar og gestum sem sækja okkur heim. Einnig hefur öskudagur á Hrafnistu vakið skemmtilega athygli á starfseminni en ljósmyndarar frá bæði Morgunblaðinu (mbl.is) og Fréttablaðinu (visir.is) voru í heimsókn hjá okkur og birtu myndir í sínum fjölmiðlum.

Mig langar sérstaklega að hrósa öllum fyrir glæsilega framgöngu í þessum málum því mörg ykkar voruð búin að leggja töluvert í búningana ykkar – meiriháttar flott, og þetta framlag ykkar við að gera góða Hrafnistu ennþá skemmtilegri skal ekki vera vanmetið!

 

Undirritun samnings um 30 rými í dagdvöl.

Mér er ánægja að segja ykkur frá því heilbrigðisráðherra hefur undirritað við okkur nýjan samning um rekstur 30 rýma dagdvalar með endurhæfingu (dagþjálfunar) á Hrafnistu í Reykjavík. Við höfum um rúmlega 5 ára skeið starfrækt 30 rýma dagþjálfun með sérstakri endurhæfingu á Hrafnistu í Reykjavík með góðum árangri. Þessi þjónusta okkar hefur verið mjög vinsæl og hjálpað mörgum öldruðum að takast betur á við daglega líf heima fyrir eftir þjálfunina hjá okkur. Það er því ánægjulegt og töluverður léttir að þessi samningur er í höfn og gildir hann til næstu 3 ára.

Eins og þið munið var ákveðið að samningur um 20 endurhæfingarrými á Hranfistu í Reykjavík yrði ekki endurnýjaður og þar verður enginn breyting á. Þeim rýmum sem voru notuð fyrir þessa þjónustu verður breytt í varanleg hjúkrunarrými og hvíldarrými á næstu vikum og mánuðum.

 

500-600 manns að fara á dúndrand árshátíð á morgun!

Það er gaman að segja frá því að það er aldeilis dúndrandi stemning fyrir árshátíðinni okkar á morgun. Vel yfir 500 miðar eru nú þegar seldir og einhverjum var verið að bjarga í gær. Síðustu daga hefur verið skreytt á flestum heimilanna til að koma öllum í rétta gírinn og mikil eftirvænting ríkir í loftinu.

Árshátíðin fer fram annað kvöld í Gullhömrum í Grafarholti þar sem Felix Bergsson verður veislustjóri og stórsveitin Stjórnin með Grétari Örvars og Siggu Beinteins í fararbroddi heldur upp fjörinu fram á nótt.

Mjög margar deildir hafa þegar skipulagt forpartý og veit ég að sumstaðar er búið að græja rútur til að sækja mannskapinn og koma upp í Gullhamra.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka skemmtinefndinni okkar fyrir alla vinnuna í kringum þetta en árshátíðin er sameiginlegt verkefni starfsmannafélaganna á Hrafnistuheimilunum. Viðburðir eins og árshátíð hafa gríðarmikið að segja upp á samheldni, starfsánægju og starfsandann hjá okkur og því er mjög gaman að sjá hversu margir ætla að taka þátt!

 

Sjáumst í Gullhömrum annað kvöld – í banastuði!!!

 

Góða helgi!

Pétur

Síða 328 af 330

Til baka takki