Föstudagsmolar 27. feb 2015. Gestaskrifari er Rebekka Ingadóttir
Frábært Árshátíð Hrafnistu síðasta laugardag
Mig langar til að byrja þennan pistil á að minnast á frábæra og vel heppnaða árshátíð heimila Hrafnistu síðastliðinn laugardag. Árshátíðin fór fram í Gullhömrum og satt best að segja var stemningin svo rosaleg að ég beið eftir að þakið rifnaði af húsinu. Stuðið var rafmagnað enda saman komnir rúmlega 500 starfsmenn Hrafnistu sem eru allir svo skemmtilegir.
Við á Hrafnistu Kópavogi byrjuðum í árshátíðarskapi í byrjun febrúar. Við ræddum hin margumtöluðu kjólakaup, skyrtukaup og hvort við ætluðum að halda fyrirpartí í heimahúsi eða eitt stórt partí í Boðaþinginu. Jú það var margt sem þurfti að ræða. Kunnum við ekki öll lögin með Stjórninni? Hvaða ár fór „nei eða já“ í Eurovision ? Ætluðum við að fara í förðun? Það var mikil tilhlökkun í hópnum.
Kvöldið sjálft samanstóð af vináttu, kærleik, hlátri og samveru. Ég vil hrósa árshátíðarnefnd fyrir þeirra undirbúning og miklu vinnu. Án þeirra hefði þetta kvöld ekki verið svona eftirminnilegt.
Gleðin er smitandi!
Starfsmannahópurinn var allur svo ánægður með kvöldið og við skemmtum okkur öll svo vel saman. Þegar við komum til vinnu aftur eftir helgi voru íbúarnir forvitnir hvernig árshátíðin hefði lukkast. Þeir fengu að heyra hvað maturinn hefði verið góður og að við hefðum dansað svo mikið að við værum með harðsperrur í mjöðmunum. Íbúarnir smituðust af þeirri gleði sem var enn ríkjandi í hópnum eftir helgina. Það má því segja að við höfum smitað íbúana af gleði. Við fórum að ræða böllin í gamla daga, Gúttó, danssporin og kjólavalið. Það voru ekki bara við, starfsmenn Hrafnistu sem skemmtum okkur þetta kvöld, íbúarnir nutu kvöldsins með okkur…………..í sögunum og þeirri gleði sem ríkir ennþá eftir þetta frábæra kvöld.
Höldum áfram að skemmta okkur með samstarfsfólki, íbúum og með minningum okkar og gleði í hjarta
Rebekka Ingadóttir
Deildarstjóri Hrafnistu Kópavogi