Föstudagsmolar 13.mars 2015. Gestaskrifari er Valgeir Elíasson.
Hátækni hjúkrunarheimili?
Ekki hefði ég trúað því fyrr en á reyndi hvað það er erfitt að reka nútíma hjúkrunarheimili án þess að hafa tölvur tiltækar. Það prófuðu starfsmenn Hrafnistu á tímabili í þessari og síðustu viku. Segja má að tölvukerfi Hrafnistu hafi verið meira og minna óvirkt frá fimmtudegi fram til mánudags. Á þessum tíma hafði þetta mikil áhrif á alla starfsemi og þurftu mörg verkefni að bíða, bæði á hjúkrunar- og stoðdeildum, þangað til tölvurnar komust aftur í gagnið. Þegar þetta er skrifað seinnapart fimmtudags er kerfið að verða stöðugt og verður vonandi áfram.
Tölvudeild Hrafnistu
Frá árinu 2010 hefur tölvudeild Hrafnistu verið Síminn, núna Sensa dótturfyrirtæki Símans. Tölvudeildinni er úthýst til aðila sem sérhæfa sig í rekstri tölvukerfa. Þetta er gert til að lágmarka kostnað við tölvurekstur og reyna að hámarka rekstraröryggi. Með þessu móti þarf Hrafnista ekki að hafa dagsdaglega áhyggjur af netþjónum, afritunartöku og varaaflstöðvum. Ef starfmann Hrafnistu vantar tölvuaðstoð þá hringir hann eða sendir tölvupóst á þjónustuborð Sensa sem tekur að sér málið. Þegar tölvumaður kemur á staðinn þá er það starfsmaður Sensa.
Tímabærar breytingar
Í nokkurn tíma hafði verið ljóst að staða tölvukerfa var ekki ásættanleg en kerfið hafði ekki þróast eða stækkað í takt við Hrafnistu. Þegar farið var af stað með fyrra kerfi, 2X tenginguna árið 2010, voru Hrafnistuheimilin tvö, í tveimur bæjarfélögum. Í dag eru heimilin fimm í fjórum bæjarfélögum og erum við ekkert á leiðinni að minnka að ég best veit.
Dæmi um þessa óásættanlegu stöðu voru „hraðavandamálin“ og fleiri truflanir sem höfðu þær afleiðingar að suma daga var varla hægt að vinna í tölvum. Með nýrri uppsetningu á netþjónum og annarri tengingu, Citrix, telur Sensa að hraðavandamálið verði úr sögunni og rekstraröryggi aukist. Síðan að allir komnir með nýja útgáfu af Office pakkanum þannig að unnið er með nýjustu tækni.
Uppfærslan
Á bakvið uppfærsluna á fimmtudaginn var margra mánaða undirbúningur Sensa sem átti að skila hnökra lítilli uppfærslu. Raunin varð því miður önnur og voru margir starfsmenn ekki með með tölvutengingu dögum saman. Þrátt fyrir undirbúning virkuðu ekki mörg lykilatriði í uppsetningu þegar á reyndi. Hvernig þetta fór úrskeiðis og af hverju verður skoðað seinna með það að markmiði að forðast svipaðar aðstæður í framtíðinni. Núna er markmiðið að koma tölvukerfunum í lag, að því hafa stjórnendur Hrafnistu unnið með tæknimönnum Sensa.
Einn lærdómurinn af þessu er að tölvur eru mikilvægari þáttur í daglegu starfi Hrafnistu en margir áttuðu sig á. Nútíma hjúkrunarheimili reiða sig mikið á tölvutækni í allri starfsemi hvort sem um er að ræða hefðbundnar tölvur með hugbúnaði eins og t.d. Sögukerfinu eða önnur kerfi. Dæmi um önnur tölvukerfi í umhverfi okkar er sjúkrakallkerfið, skráning vinnutíma, matarpöntunarkerfi, myndavélakerfi. Sum þessara kerfa eru í öðrum búningi en við þekkjum tölvur af dagsdaglega en öll kerfin eru í grunninn tölvur. Til gamans má geta þess að snjallasíminn sem þú ert með er öflugri tölva en tölvurnar í geimskutlunum Bandaríkjamanna á sínum tíma.
Kannski er réttara að kalla Hrafnistu hátækni hjúkrunarheimili?
Valgeir Elíasson
Deildarstjóri bókhalds- og launadeildar