Top header icons

Ábendingar Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 

Eitt ár frá opnun Hrafnistu á Sléttuvegi

b_250_250_16777215_00_images_frettir_2020_Slttuvegur-opnun.-20301_innri.jpeg

 

Fyrir ári síðan eða þann 28. febrúar 2020 var merkisdagur í sögu Hrafnistu en þann dag opnaði hjúkrunarheimilið á Sléttuvegi með pompi og prakt að viðstöddu fjölmenni. Hjúkrunarheimilið er í eigu ríkissjóðs (85%) og Reykjavíkurborgar (15%) sem samdi við Sjómannadagsráð og Hrafnistu um reksturinn. Sjómannadagsráð og Hrafnista höfðu jafnframt umsjón með framkvæmdum, sáu um allan undirbúning, skipulagsmál, útboð og samninga við hönnuði, verktaka og birgja.

Heimilið er með rými fyrir 99 íbúa og þegar það var vígt í lok febrúar 2020 voru fjórir einstaklingar fluttir inn og áætlað hafði verið að í vikunni á eftir yrðu íbúarnir orðnir 30 talsins en með opnun hjúkrunarheimilisins var kærkomin fjölgun hjúkrunarrýma að veruleika því erfitt ástand í starfsemi Landspítala hafði ekki síst stafað af miklum skorti á slíkum rýmum.

En skjótt skipast veður í lofti því undir ræðuhöldum við opnun heimilsins fékk heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, tilkynningu um það að fyrsta staðfesta Covid-19 smitið hefði greinst á Íslandi og framhaldið þekkjum við öll.

Vegna mikils viðbúnaðar á Landspítalanum vegna Covid-19 var sú ákvörðun tekin sunnudaginn 1. mars 2020 að spítalinn hefði forgang í þau hjúkrunarrými sem verið var að opna á Sléttuveginum og því þurfti starfsfólk á Sléttuvegi að setja sig í stellingar og hafa hraðar hendur við að taka á móti um 60 manns með litlum sem engum fyrirvara, sem lýsir ágætlega þeirri stöðu sem heilbrigðisstarfsfólk var í sl. ár. Stórar ákvarðanir og síbreytilegt umhverfi með litlum sem engum fyrirvara.

Að kvöldi dags, föstudaginn 6. mars 2020 sendi Hrafnista svo frá sér tilkynningu þess efnis að ákvörðun hefði verið tekin af neyðarstjórn Hrafnistu að banna allar heimsóknir til íbúa Hrafnistuheimilanna frá og með laugardeginum, 7. mars 2020. „Aldrei í 60 ára sögu Hrafnistu hefur viðlíka ákvörðun verið tekin.“  Segir jafnframt í tilkynningunni.

Þetta fyrsta ár hjúkrunarheimilisins á Sléttuvegi hefur því verið mjög frábrugðið því sem væntingar starfsfólks stóðu til við opnun heimilisins en starfsfólk, íbúar og aðstandendur hafa unnið þrekvirki við að halda starfseminni gangandi eins og önnur hjúkrunarheimili á landinu en horfa nú fram á bjartari tíma við að byggja upp starfsemina eins og vonir stóðu til fyrir sléttu ári síðan, með fjölbreyttum uppákomum og viðburðum og að geta nýtt alla þá skemmtilegu möguleika sem húsnæðið býður svo vel upp á.

 

Frétt frá 28. febrúar 2020 - Nýtt hjúkrunarheimili Hrafnistu fyrir 99 manns vígt í dag við Sléttuveg í Fossvogi

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur