Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Kótilettudagur Hrafnistu haldinn á öllum Hrafnistuheimilunum

 

Hinn árlegi kótilettudagur var haldinn hátíðlegur á öllum Hrafnistuheimilunum átta í dag. Dagurinn er haldinn sem næst stofndegi Sjómannadagsráðs, eiganda Hrafnistuheimilanna en Sjómannadagsráð var stofnað þann 25. nóvember 1937, eða fyrir 83 árum. Í hádeginu var boðið upp á þjóðarrétt Hrafnistu, kótlettur í raspi með brúnuðum kartöflum, grænum baunum og rauðkáli að ógleymdu hinu eina og sanna malti og appelsíni. Þessi matur rennur ávallt jafn ljúflega ofan í bæði íbúa og starfsfólk, allir kunna vel að meta og virðast aldrei fá nóg af enda kótilettur í raspi herramannsmatur og víða að mörgum kunnar þeim gestum sem hafa fengið að smakka hér hjá okkur á Hrafnistu.  

Íbúar og starfsfólk á Hrafnistu Hraunvangi í Hafnarfirði fengu til sín góða gesti, þau Siggu Beinteins og Jógvan sem héldu uppi stuðinu í hádeginu og á Hrafnistu í Skógarbæ spilaði Bragi Fannar ljúfa tóna á harmonikku. Íbúar og starfsfólk var hvatt til að klæða sig í sparifötin í tilefni dagsins.

Kótilettukappát á kótilettudaginn

Síðustu tvö ár hefur farið fram æsispennandi keppni í kótilettukappáti á þessum degi en hún felst í því að keppendur borða eins margar kótilettur og þeir geta á einungis 5 mínútum. Þetta hefur verið stórskemmtileg keppni, sem vakið hefur mikla athygli og bindum við miklar vonir við að geta flautað til leiks á ný á næsta ári.

 

Um Sjómannadagsráð

Sjómannadagsráð var stofnað af sjómannafélögum í Reykjavík og Hafnarfirði 25. nóvember 1937. Í fyrstu var tilgangurinn að standa fyrir árlegum sjómannadegi, en mikill stuðningur almennings við samtökin strax í upphafi leiddi fljótlega til þeirrar ákvörðunar (1939) að ráðið skyldi beita sér fyrir byggingu dvalarheimilis fyrir aldraða sjómenn (DAS).

Í dag er tilgangur félagins tvíþættur, annarsvegar að standa að hátíðarhöldum Sjómannadagsins árlega og gefa honum verðugan sess í íslensku þjóðlífi. Hins vegar felst meginþungi starfseminnar í að veita öldruðum húsaskjól og daglega öldrunarþjónustu. Félagið rekur átta Hrafnistuheimili í fimm sveitarfélögum.

Naustavör, dótturfélag Sjómannadagsráðs, rekur um 340 leiguíbúðir á fimm stöðum sem eru staðsettar við Hrafnistuheimilin í þremur sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi. Leiguíbúðir Naustavarar eru afar góður kostur fyrir 60 ára og eldri. Þar býðst fólki að búa í sjálfstæðri búsetu í sérhönnuðum íbúðum. Stutt er í þjónustu og skipulagt félags- og tómstundastarf.

Starfmenn eru um 1500 og húsakostur um 90 þúsund fermetrar. Þjónustuþegar eru vel á annað þúsund.

 

  • Til baka takki

    Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
    Samþykkja kökur