Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 25. nóvember 2016 - Pétur Magnússon forstjóri

Old letter
Lesa meira...

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 25. nóvember 2016.

 

Ágæta samstarfsfólk,

Samþykkt að fara í viðræður við Garðabæ um rekstur Ísafoldar

Stjórn Sjómannadagsráðs hefur samþykkt þá beiðni Garðabæjar sem barst á dögunum, um að hefja viðræður um að Hrafnista taki yfir rekstur hjúkrunarheimilisins Ísafoldar í Garðabæ.

Hjúkrunarheimilið Ísafold opnaði í Garðabæ vorið 2013. Á heimilinu eru er 60 hjúkrunarrými og 16 dagdvalarrými. Húsnæðið er á fjórum hæðum og hannað af THG arkitektum. Hjúkrunarrýmin eru á þremur efstu hæðum hússins í sex einingum með tíu rýmum hver, mjög svipað skipulag og hjá okkur á Nesvöllum. Á neðstu hæð eru dagdvöl, hárgreiðsla, fótsnyrting,sjúkraþjálfun og starfsemi á vegum Garðabæjar. Frá opnun hefur reksturinn verið sveitarfélaginu erfiður.

Nýlega hafði bæjarstjóri Garðabæjar samband við Hrafnistu til að kanna áhuga á viðræðum um hvort Hrafnista tæki að sér rekstur Ísafoldar. Aðkoma að slíkum viðræðum hefur nú verið samþykkt í stjórn Sjómannadagsráðs enda byggi slíkt á sambærilegum þáttum og samstarfssamningurinn við Reykjanesbæ um Nesvelli.

Á fundi bæjarráðs Garðabæjar 8. nóvember 2016 kemur eftirfarandi fram:

Bæjarráð ítrekar fyrri samþykkt um að ríkið yfirtaki starfsemi hjúkrunarheimilisins og felur bæjarstjóra jafnframt að kanna möguleika á að þriðji aðili sem hefur reynslu á þessum vettvangi yfirtaki reksturinn.

Fyrsti fundur formlegra viðræðna fór fram í gær og gekk ágætlega.

Rétt er að taka fram að þó viðræður fari í gang er ekkert sjálfgefið að samningar náist. Þetta er þó spennandi verkefni og ætti að skýrast á næstu vikum hvort af samstarfi verður eða ekki.

 

Fundað með trúnaðarmönnum

Þessa dagana erum við Lucia, mannauðsstjóri, að funda með trúnaðarmönnum Hrafnistuheimilanna, ásamt forstöðumanni á hverju heimili. Síðustu ár hefur skapast sá skemmtilegi siður að við boðum alla trúnaðarmenn á hverju heimili til fundar (alls 4 fundir) að vori og hausti. Tilefnið er ekkert sérstakt heldur er farið yfir það sem er á döfinni í „Hrafnistulífinu“ en einnig er gott að heyra í fólki um helstu málefni sem brenna á fólki. Það er mjög mikilvægt fyrir stórt fyrirtæki eins og okkar að hjá okkur sé virkt og öflugt net trúnaðarmanna. Það nýtist bæði starfsfólk og fyrirtækinu sjálfu.

Dagsetningarnar eru eftirfarandi og eiga allir trúnaðarmenn að hafa fengið boð á fundina:

24. nóvember – Kópavogur

28. nóvember - Hafnarfjörður

1. desember – Reykjavík

12. desember - Reykjanesbær

 

Nýtt Hrafnistu-bréf að komið út

Þessa dagana er að berast á öll heimilin okkar nýtt eintak að Hrafnistubréfinu. Eins og þið kannski þekkið kemur þetta tímarit okkar út tvisvar á ári í um tvöþúsund eintökum. Auk þess að vera dreift til heimilismanna Hrafnistuheimilanna fer það um víðan völl. Blaðið verður með hefðbundnu sniði og bið ykkur að dreifa því fljótt og vel til heimilisfólks þegar það berst inn á deildir til ykkar. Sjálfsagt er líka að leyfa því að liggja frammi í öllum setustofum sem og annars staðar þar sem fólk kemur saman. Ef ykkur vantar aukaeintök er ykkur velkomið að snúa ykkur til Huldu S. Helgadóttur.

 

Starfsafmæli í nóvember

Nú í nóvember fagna nokkrir úr okkar glæsta starfsmannahópi, formlegu starfsafmæli hér á Hrafnistu. Þetta eru:

3 ára starfsafmæli: Ásgerður Guðjónsdóttir á Vitatorgi í Reykjavík.

5 ára starfsafmæli: Hulda S. Helgadóttir á skrifstofu í Reykjavík og Anna Ásdís Björnsdóttir í iðjuþjálfun í Hafnarfirði.

10 ára starfsafmæli: Teresa Pellowska í ræstingu í Reykjavík og Calsilita V. Snorrason á Bylgjuhrauni í Hafnarfirði.

15 ára starfsafmæli: Cherry Gaviola Malana á Sólteigi, Dalla Gunnlaugsdóttir á Lækjartorgi og Edward Polejowski aðstoðarræstingarstjóri, öll í Reykjavík. Í Hafnarfirði eru það Ólöf B. Sveinsdóttir á Ölduhrauni og Elín Sigríður Jónsdóttir aðstoðardeildarstjóri í sjúkraþjálfun.

Síðast en ekki síst fagnar Dagbjört Michaelsdóttir á Báruhrauni í Hafnarfirði 25 ára starfsafmæli.

Hjartanlega til hamingju öll og kærar þakkir fyrir ykkar dyggu störf fyrir Hrafnistu!

 

Góða helgi og njótið aðventunnar!

Bestu kveðjur,

Pétur

Síða 255 af 330

Til baka takki