Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 16. september 2016 - Gestaskrifari er Sigrún Stefánsdóttir, forstöðumaður Hrafnistu í Reykjavík

Haustið er komið

Eftir hreint út sagt frábært sumar, a.m.k. hér á suðvesturhorninu, þá er haustið farið að minna á sig með hinum hefðbundu tilkynningum veðurfræðinga að lægðirnar bíði í röðum. Það eru óvenju margir vel útiteknir eftir sumarið eða eins og ein orðaði það við mig í sumar þegar ég sat stóran fund úti í bæ að þetta væri eins og að ganga inn á spænskan bar og vitnaði þar í öll sólgleraugun, léttan klæðnað, sandala og hörundslit fundarmanna, nei ég var ekki að vísa í skreytta drykki ef einhver hélt það.  Það er alltaf viss sjarmi við haustið finnst mér. Ég veit hins vegar að mörgum finnst það ekki spennandi, að sumri sé lokið og langt í næsta sumarfrí og að kuldi, trekkur og skammdegi að taka við. Það er nú bara svo að þetta fylgir okkur sem hér búum stóran hluta ársins og fátt við þessu að gera. Ég var með langan lista fyrir sumarfrí yfir það hvað ég ætlaði að gera heimavið í sumarfríinu en hef sjaldan haft eins góða afsökun fyrir því að slaufa þeim fyrirætlunum vegna þess hve veðrið var gott. Réttlætti það þannig  fyrir mér að það ættu alveg örugglega eftir að koma rigningardagar, sem ég vissi að stæðist og nú eru þeir komnir og ég búin að tína listanum. Það sem mér finnst gott við haustið er ekki rigningin eða skammdegið, heldur það að lífið fer í sinn vanagang. Ég í vinnu, krakkarnir í skóla  og ég kann eitthvað svo vel við að fá  „gammeldags“ heimilismat aftur. Var orðin frekar leið á þessum eilífu salathrúgum og allt var grillað (já, það er hægt að grilla bjúgu ef þið vissuð það ekki, mæli hins vegar ekki með því). Ég var Guðsfegin að fá saltkjöt og baunir í vinnunni um daginn og miðað við biðröðina í matsalnum þá var ég ekki sú eina.

Eitt af haustverkefnum okkar hér á Hrafnistu er bólusetning við inflúensu. Við höfum hingað til haft tímann fyrir okkur en nú er hún óvenju snemma á ferðinni og við erum því byrjuð að bólusetja heimilisfólk og starfsfólk. Ég vil hvetja alla starfsmenn að láta bólusetja sig til að verja þá heimilismenn sem af einhverjum ástæðum geta ekki látið bólusetja sig og verja sjálfan sig fyrir því ömurlega hlutskipti að liggja pödduveikur heima og geta ekki komið í vinnu og missa af t.d. námskeiðinu, skólanum, prófinu, afmælisveislunni, ferðalaginu,  ræktinni, íþróttaleiknum, utanlandsferðinni, partýinu eða brúðkaupinu.

Þannig ég vil hvetja alla starfsmenn til að láta bólusetja sig.

 

Góða helgi

 

Sigrún Stefánsdóttir

Forstöðumaður

Hrafnistu í Reykjavík

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur