Í gær fékk Hrafnista afhentan veglegan styrk að upphæð 11 milljónir króna frá fagráði Fléttunnar til að styðja við innleiðingu smáforritsins Iðunnar á öllum Hrafnistuheimilunum. Fléttan eru styrkir sem veittir eru til nýsköpunarfyrirtækja sem skapað hafa áhugaverðar lausnir til að bæta þjónustu við sjúklinga, stytta biðlista og auka skilvirkni kerfisins. Heilbrigðissvið Hrafnistu sótti um styrkinn en í ár bárust 42 umsóknir um styrk og 12 verkefni fengu úthlutað.
Hrafnista setur sér það markmið að vera leiðandi í umönnun og þjónustu við aldraða. Að stuðla að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan heimilisfólks. Að efla faglega þekkingu starfsfólks og auka starfsánægju og bæta starfsumhverfi starfsfólks. Iðunn smáforritið er því eitt af þeim verkefnum sem mun færa okkur nær markmiði Hrafnistu.
Iðunn leiðbeinir starfsmönnum hvernig á að þjónusta hvern og einn íbúa og ávinningurinn verður m.a. betri yfirsýn á þarfir hvers og eins, auk ýmissa annarra þátta. Iðunn mun þ.a.l. auka öryggi og gæði í þjónustunni. Þróunin á Iðunni er samstarfsverkefni Hrafnistu og Origo. Hjúkrunardeildin Foss á Hrafnistu Sléttuvegi hefur stutt við að prófa smáforritið og aðlaga það að þörfum hjúkrunarheimila. Hrafnista fagnar framsýni fagráðs Fléttunnar í að styðja við tækniþróun á hjúkrunarheimilunum og þakkar fyrir kærkominn styrk.
Þær Gunnur Helgadóttir framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs Hrafnistuheimilanna og Harpa Hrund Albertsdóttir hjúkrunarfræðingur og sérfræðingur á heilbrigðissviði veittu styrknum viðtöku fyrir hönd Hrafnistu í gær en Harpa Hrund hefur unnið ötullega að þróun smáforritsins ásamt starfsfólki á Fossi Hrafnistu Sléttuvegi og Origo undanfarna mánuði.
Meðfylgjandi myndir eru frá afhendingunni. Á fyrri myndinni eru frá vinstri Harpa Hrund Albertsdóttir og Gunnur Helgadóttir ásamt Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur ráðherra. Hópmyndin er af þeim sem hlutu styrki frá Fléttunni þetta árið en alls var tólf styrkjum úthlutað til nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu.
Ljósmyndir: Golli