Top header icons

Ábendingar Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 

Aríel Pétursson tekinn við formennsku í Sjómannadagsráði

b_250_250_16777215_00_images_frettir_2021_Hlfdan--Arel-copy_resize.jpeg

 

Aríel Pétursson, varaformaður Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins frá síðasta aðalfundi sem fram fór í vor, tók í dag, 1. september, við formennsku í ráðinu í stað Hálfdans Henryssonar sem starfað hefur óslitið með Sjómannadagsráði í 34 ár. Hálfdan var kosinn í ráðið 1987 þar sem hann tók að sér ritnefndarstörf fyrir Sjómannadagsblaðið og gegndi því embætti í um aldarfjórðung. Hálfdan var síðan kjörinn í stjórn Sjómannadagsráðs 1993 og hefur síðan þá gegnt starfi ritara og gjaldkera Sjómannadagsráðs auk varaformennsku sem hann gegndi um árabil, eða allt þar til hann tók við sem formaður í maí 2017.

Aríel er 34 ára, fæddur í Reykjavík 22. nóvember 1987. Aríel er menntaður í skipstjórnarfræðum frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík og frá Sjóliðsforingjaskóla danska sjóhersins í Kaupmannahöfn þaðan sem hann útskrifaðist 2020. Aríel er kvæntur Hrefnu Marín Sigurðardóttur, dönskukennara og eiga þau þrjú börn; Jökul Orra (7 ára), Esju Marín (5 ára) og Eld Hrafn (2 ára). Aríel og Hrefna eru búsett í Garðabæ. Aríel hefur hingað til starfað sem yfirstýrimaður á freigátum danska sjóhersins, en starfaði áður á togurum íslenskra útgerða, m.a. sem stýrimaður, auk skipa Landhelgisgæslunnar þar sem hann var einnig stýrimaður.

Málefni hjúkrunarheimila í deiglunni

Aríel tekur við formennsku í stjórn Sjómannadagsráðs á ákveðnum tímamótum, þar sem málefni hjúkrunarheimila og búsetuúrræði aldraðra á Íslandi eru mjög í deiglunni um þessar mundir. Sjómannadagsráð er m.a. eigandi Hrafnistuheimilanna sem starfrækir í dag átta hjúkrunarheimili í fimm sveitarfélögum á suðvesturhorni landsins, og íbúðaleigufélagsins Naustavarar, sem á og rekur ríflega 260 leiguíbúðir fyrir sextíu ára og eldri á höfuðborgarsvæðinu. Hrafnistaer ein stærsta heilbrigðisstofnun landsins og rekur um fjórðung allra hjúkrunarrýma á landinu. Íbúar heimilanna eru alls um 800 og dagdvalargestir á fjórða hundrað. Um 1.700 manns vinna á Hrafnistu sem skipar henni á bekk með fjölmennari vinnustöðum landsins þar sem þjónusta er veitt allan sólarhringinn alla daga ársins.

 

Meðfylgjandi mynd var tekin þegar Hálfdan Henrysson fráfarandi formaður afhenti í gær, 31. ágúst, Aríel Péturssyni lyklavöldin að skrifstofu Sjómannadagsráðs sem er til húsa að Hrafnistu í Laugarási Reykjavík.

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur