Top header icons

COVID spurt og svaraðRannsóknarsjóður HrafnistuHrafnista á Facebook

 
 

Allir í stíl eins og Alma

b_250_250_16777215_00_images_frettir_2019_2020-emadagar-Hraunvangi.jpeg

 

Í Morgunblaðinu í dag er umfjöllun um starfið okkar og rætt við Árdísi Huldu Eiríksdóttur forstöðumann á Hrafnistu Hraunvangi í Hafnarfirði.

 

Föstudagar eru þemadagar á Hrafnistu í Hafnarfirði.

„Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af gamla fólkinu okkar þó svo það sé ekki hægt að heimsækja það“, segir Kristrún Steinarsdóttir í pósti til Morgunblaðsins og vekur athygli á góðu starfi starfsfólks Hrafnistu í Hafnarfirði.

Árdís Hulda Eiríksdóttir, hjúkrunarfræðingur og forstöðumaður á Hrafnistu, segir að í þessu erfiða ástandi, þegar þurft hafi að loka heimilinu vegna samkomubanns á meðan kórónuveiran raskar lífi fólks, sé reynt að brjóta upp alla daga. „Það er auðvitað gríðarlega erfitt fyrir alla að aðstandendur megi ekki koma í heimsókn og því ákváðum við strax að leggja aukalega í hvern dag.“

Auk hefðbundinnar dagskrár, sem samanstendur meðal annars af öflugu félagsstarfi, iðjuþjálfun og sjúkraþjálfun, hefur einkum verið lagt upp úr því að gera kaffitímana ánægjulega með sérstökum glaðningi. Árdís Hulda segir að til dæmis hafi verið boðið upp á sherrýstaup með kaffinu, ís og ávexti. „Eitthvað sem vekur ánægju,“ eins og hún orðar það.

Gleðinni deilt til aðstandenda

Stefnt er að því að vera með sérstakan þemadag fyrir íbúa og starfsmenn á föstudögum. Fyrir viku var ákveðið að allt starfsfólk mætti til vinnu í litríkum fötum og íbúar tóku virkan þátt í glensinu rétt eins og föstudaginn þar á undan þegar haldinn var sérstakur hattadagur. Í dag verður þemað helgað stíl Ölmu Möller landlæknis. „Alma er ekki bara glæsileg kona sem er flott í fatavali heldur einnig framúrskarandi í sínu starfi og hver vill ekki vera eins og Alma á þessum tímum,“ segir Árdís Hulda. „Þessi nýbreytni hefur vakið mikla ánægju og aukið gleðina.“

Í salnum á jarðhæðinni er hljóðkerfi og þrátt fyrir samkomubannið hefur listafólk getað komið á svæðið og notað kerfið. Listamennirnir standa fyrir framan myndavél og míkrófón, við tökum upp og vörpum á öll sjónvarpstæki hjá okkur, „segir Árdís Hulda og leggur áherslu á að allt listafólkið geri þetta endurgjaldslaust. Auk þess hafi mörg fyrirtæki tekið mjög vel í að gleðja íbúa og starfsmenn með gjöfum eins og gosdrykkjum og sælgæti. „Þessi glaðningur hefur vakið mjög mikla ánægju og ekki síst rausnarleg gjöf frá Lionsklúbbnum Ásbirni og Kaldá, sem færðu okkur 16 spjaldtölvur, heyrnartól og magnara fyrir þá sem eru með mikið skerta heyrn, um liðna helgi. Tölvurnar eru komnar í notkun og íbúar geta notað þær til þess að tala við sitt fólk.“

Þrátt fyrir mikla röskun er grunntónninn á Hrafnistu að halda uppi gleði og deila henni til aðstandenda. Heimilið er með Facebook-síðu, handverksheimilið Hrafnista. Þar eru birtar fréttir af starfinu og hvað er á dagskrá. Hver deild er auk þess með lokaða aðstandendasíðu. Árdís Hulda segir vegna persónuverndarlöggjafarinnar hafi verið þrengt að þessum upplýsingasíðum en í ljósi breyttra aðstæðna hafi með samkomulagi við ættingja og íbúa verið opnað meira á síðurnar, sem séu áfram lokaðar fyrir alla nema þá. „Þarna setjum við inn myndir daglega, hvað við erum að gera og höfum ekki fundið fyrir neinu nema þakklæti vegna þessa. „segir Árdís Hulda. „Það er ekki þannig að við sitjum bara og gerum ekki neitt.“ Allir leggjast á árarnar, jafnt íbúar sem starfsmenn. „Allir eru svo samtaka og jákvæðir í að láta hlutina ganga vel„ áréttar Árdís Hulda.

 

Meðfylgjandi myndir voru teknar á Hrafnistu Hraunvangi í Hafnarfirði í dag.

  • Til baka takki

    Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
    Samþykkja kökur