Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 29.apríl 2016 - Pétur Magnússon forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 29. apríl 2016.

 

Ágæta samstarfsfólk,

Gleðilegt sumar!

Ný auglýsing Happdrættis DAS – heimilisfólk Hrafnistu í aðalhlutverkum

Nú um helgina verða frumsýndar nýjar auglýsingar fyrir Happdrætti DAS. Flestum er eflaust ennþá í fersku minni síðasta auglýsing, þar sem hress kór eldri borgara söng og dansaði lagið „DAS, DAS, DAS og aftur DAS.“

Í nýju auglýsingunni verða íbúar okkar hér á Hrafnsitu í forgrunni. Nokkrir þeirra voru valdir til að leika í auglýsingaherferðinni og voru auglýsingarnar teknar upp á Hrafnistu í Reykjavík fyrir tveimur vikum.

Það verður spennandi að sjá nýju auglýsingaherferðina sem vonandi skilar sér vel til landsmanna, en rétt er að minna á að ágóði Happdrættisins, rennur til uppbyggingar Hrafnistuheimilanna.

Tannheilsa eldri borgara – stefna Hrafnistu í skoðun

Tannheilsa eldri borgara hefur verið nokkuð í fréttum undanfarið, sérstaklega í framhaldi af umfjöllun Kastljóss um málið fyrir nokkru. Mér finnst mikilvægt að upplýsa ykkur um að þessi mál hafa verið í skoðun hjá Framkvæmdaráði Hrafnistu undanfarið.

Eins og þið þekkið hafa orðið miklar breytingar á tannheilsu aldraðra undanfarin ár. Þeim sem flytja inn á hjúkrunarheimili og hafa eigin tennur fjölgar sífellt. Tannburstun og almenn tannhirða getur verið mjög erfið, sérstaklega hjá fólki með heilabilun og öll þekkjum við að sterkt samhengi er milli almennrar líðan og tannheilsu.

Tannlækningar er eitt að fáum atriðum sem skýrt er tekið fram í lögum að íbúar okkar eiga að sjá um sjálfir, ekki ósvipað og hárgreiðsla og fótsnyrting. Við höfum þó verið vakandi fyrir þessu og viljað þjónusta okkar fólk. Rétt er að minna á að fyrir nokkrum mánuðum opnaði Kristinn Þorbergsson, tannlæknastofu á Hrafnistu Hafnarfirði, en slík stofa hefur verið til í Reykjavík um árabil (samvinnuverkefni Skjóls og Hrafnistu) en Kristinn er einmitt að taka við því verkefni þessa dagana. Það eru auðvitað gríðarlega mikil þægindi og lífsgæði fyrir íbúa okkar að geta farið innanhúss til tannlæknis en þurfa ekki að vera fara í bílferð út í bæ til að heimsækja tannlækni.

Næstu skref verða að setja verklagsreglur fyrir Hrafnistuheimilin um tannhirðu og tannheilsu og koma eftirliti með tannheilsu og umhirðumálum, í enn markvissari farveg gagnvart íbúum okkar á öllum heimilum.

Þetta verður kynnt betur þegar málin eru komin lengra.

Olís-tilboð: verum hvetjandi fyrirmyndir!

Nýlega kynnti Halldór innkaupastjóri mjög áhugavert afsláttartilboð á bensíni/dísel frá Olís en tilboðið gildir fyrir allt starfsfólk Hrafnistu og maka þeirra. Markmiðið með þessu er að leggja lítið lóð á vogarskálina til auðvelda ykkur lífið. 9 króna afsláttur er alveg umtalsverður, sérstaklega fyrir þá sem keyra mikið.

Ég vil hér með hvetja ykkur til að nýta ykkur þetta mjög flotta tilboð.

 

Starfsafmæli í apríl!

Nú í apríl eiga fjöldamargir starfsmenn Hrafnistu formleg starfsafmæli. Þetta eru:

3 ára starfsafmæli: Í Reykjavík eru það Stefanía Kolbrún Ásbjörnsdóttir á Mánateig og Helga Sigurbjörg Árnadóttir í bókhalds- og launadeild. Í Hafnarfirði eru það Sigrún Ösp Barkardóttir á Bylgjuhrauni, Sóldögg Hafliðadóttir á Öldruhrauni, Ína Salome Sturludóttir á Báruhrauni og Valentina Vrinceanu.

5 ára starfsafmæli: Lena Karen Andreasdóttir á Ölduhrauni í Hafnarfirði.

10 ára starfsafmæli: Lea K. Jónsson á Mánateig og Steinunn Leifsdóttir íþróttakennari, báðar í Reykjavík.

15 ára starfsafmæli: Regieline Paran Sellote á Lækjartorgi í Reykjavík.

20 ára starfsafmæli: Emely Rós Paran á Lækjartorgi í Reykjavík.

25 ára starfsafmæli: Lilja H. Halldórsdóttir í sjúkraþjálfun í Reykjavík og Ágústa Hinriksdóttir á Ölduhrauni í Hafnarfirði.

Hjartanlega til hamingju öll og kærar þakkir fyrir ykkar tryggð og frábært vinnuframlag í þágu Hrafnistu og íbúana okkar!

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur