Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 2. júní 2023 - Gestahöfundur er Bryndís Rut Logadóttir, þjónustustjóri Sléttunnar lífsgæðakjarna

Sumarið er komið. Eða hvað? Er ekki örugglega spáð Bongó næstu vikur? Ég er allavega á leiðinni í sumarfrí og hlakka mikið til. En ég bý líka við þau forréttindi að vinna á skemmtilegum vinnustað þar sem ég tekst á við skemmtileg verkefni með frábæru samstarfsfólki. Það blundar því líka smá söknuður, þegar maður fer í frí, að hitta ekki allt góða fólkið sem maður vinnur með dagsdaglega svo ekki sé nú talað um alla yndislegu skjólstæðingana sem manni fer að þykja svo vænt um. Það eru því vissulega forréttindi að hlakka til að koma aftur til vinnu eftir sumarfrí.

Síðastliðinn febrúar voru liðin þrjú ár frá því að Hrafnista opnaði hér á Sléttuvegi. Ég tók til starfa í janúar 2020 og byrjuðum við undirbúningsvinnuna með aðstöðu á Hrafnistu í Laugarási þar sem Sléttuvegurinn var ekki tilbúinn. Við reyndum að undirbúa okkur eins og hægt var og sjá fyrir öll þau verkefni sem koma skyldi. Okkur óraði ekki fyrir því sem svo í raun beið okkar daginn sem fyrsti íbúinn flutti inn á hjúkrunarheimili Sléttunnar. Við tóku tvö strembin ár þar sem við tókumst á við heimsfaraldur með fjölbreyttum áskorunum sem vonandi á aldrei eftir að endurtaka sig. Það má því segja að eðlileg starfsemi hafi ekki komist á fyrr en fyrir rúmu ári síðan. Fram að því var skipulagið endurskipulagt og afturkallað og endurheimt fram og til baka eins og svo margir muna of vel eftir.

Þrátt fyrir þessar miklu áskoranir sem oft á tíðum virtust óyfirstíganlegar þá er margt gott sem skapaðist af þeim. Stuðningur og samstaða gerði starfsmannahópinn enn þéttari og helgaðri vinnustaðnum og það er eitt af því sem ég held að sé kjarninn í þeim starfsanda sem ríkir hér á Sléttuveginum. Við stóðum af okkur storminn með því að standa saman, finna lausnir og vinna í takt.

Traust og samstaða gerir það að verkum að ég get farið afslöppuð inn í sumarfríið vitandi að samstarfsfólk mitt á Sléttunni stígur í takt og vinnur að heilindum. Síðan kem ég endurnærð til baka full af tilhlökkun að halda áfram því góða starfi sem fer fram á Sléttunni.

Njótið sumarsins og góða helgi!

Bryndís Rut Logadóttir, hjúkrunarfræðingur og þjónustustjóri Sléttunnar - lífsgæðakjarna.

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur