Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 10. júní 2022 - Gestahöfundur er Aríel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs

b_250_250_16777215_00_images_frettir_2022_000-Ariel-T-22032_resize.jpeg

 

Eins og flestum er eflaust kunnugt - en kannski  ekki öllum - er Sjómannadagsráð frumkvöðull Hrafnistuheimilanna og hefur frá upphafi verið fjárhagslegur bakhjarl og rekstraraðili þeirra. Ég geri þetta að umtalsefni í þessum föstudagspistli vegna þess að nk. sunnudag er sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur og auðvitað snýst hann um margt fleira en skemmtunina eingöngu, hátíðina úti á Granda, koddaslaginn og kappróðurinn, kandíflosið og kruðeríið og allt hitt sem hefur í gegnum árin gert daginn að álíka viðburði í huga þjóðarinnar eins og þjóðhátíðardaginn, fullveldisdaginn, baráttudag verkalýðsins fyrir utan auðvitað jólin og páskana og margt fleira sem ávallt tengir okkur við tilefni og þýðingu hvers hátíðardags.

Sjómannadagurinn hefur sína afdráttarlausu sérstöðu. Hann er fyrst og fremst óður til sjómennskunnar, harðfylgis íslenskra sjómanna í gegnum aldirnar og mikilvægi þeirra í verðmætasköpun þjóðarinnar. Hann er um leið óður til auðlindar sjávarins og þeirra fjölmörgu sem leggja hönd á plóg við nýtingu hennar. Okkur hefur lengi greint á um fyrirkomulag fiskveiðanna og gjaldtöku fyrir nýtingu þessarar takmörkuðu auðlindar okkar. Ekki verður samt um það deilt að í aðalatriðum er fiskveiðistjórnunarkerfi okkar Íslendinga á margan hátt farsælt og vonandi náum við fljótlega að skapa um það djúpstæða sátt.

Þessi mál eru ekki á borðum Sjómannadagsráðs nema með óbeinum hætti. Verkefni þess voru í upphafi tengd hátíðarhöldum til þess að minna á mikilvægt hlutverk sjómanna í samfélaginu. Fljótlega var stefnan sett á það til viðbótar að tryggja sjómönnum, eiginkonum þeirra og ekkjum áhyggjulaust ævikvöld. Í þeirri stefnumörkun var mikil og metnaðarfull framtíðarsýn fólgin. Og þegar okkar öldnu kempur settu kúrsinn á notalegt „elliheimili“ eins og það hét á þeim árum hefur þá væntanlega fæsta órað fyrir því fyrir 80 árum síðan að sprotaverkefni þess tíma myndi leiða til þess að þjónusta Sjómannadagsráðs við aldraða yrði rekin í dag á tæplega eitt hundrað þúsund fermetrum. Við veitum hátt í 900 íbúum skjól á hjúkrunarheimilum okkar, þjónustum um 350 aðra íbúa í leiguíbúðum SDR og að auki mikinn fjölda fólks í eigin íbúðum í nágrenni þjónustu- og lífsgæðakjarna starfseminnar. Sjómannadagsráð er atvinnuveitandi yfir 1.700 starfsmanna og veltir árlega yfir 13 milljörðum króna. 

Hrafnistuheimilin, þjónustuíbúðir Naustavarar, happdrætti DAS, Hraunborgir og fasteign Laugarásbíós eru allt öflugar rekstrareiningar innan Sjómannadagsráðs. Hrafnistuheimilin eru auðvitað flaggskipið og ekki aðeins vegna þess að þau voru upphaflega markmiðið heldur líka hins að þau eru langstærsta rekstrareiningin á vegum ráðsins og án nokkurs vafa í afar mikilvægu forystuhlutverki í þessari mikilvægu tegund öldrunarþjónustu. Sjómannadagsráð er hreykið af frammistöðu sinni á þessu sviði og vill gjarnan undirstrika að ekki einni krónu í rekstrarafgang er ráðstafað í annað en áframhaldandi uppbyggingu fyrir aldrað fólk og þjónustu fyrir það á ævikvöldinu.

Ég er hreykinn af forystuhlutverki og framlagi íslenskra sjómanna til umönnunar aldraðs fólks á Íslandi. Þess vegna er ég líka hreykinn af sjómannadeginum og þætti hans í menningu þjóðarinnar.

 

Aríel Pétursson

formaður Sjómannadagsráðs

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur