Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 5. mars 2021 - Gestahöfundur er Íris Huld Hákonardóttir deildarstjóri sjúkraþjálfunar Hrafnistu Hraunvangi

Rútínupepp

Ég er með alls konar rútínur í lífinu mínu. Sumar rútínur eru að hjálpa mér en aðrar kannski ekki og er gott að skoða hvort hægt sé að laga þær til svo þær séu að hjálpa frekar en ekki.

Morgunrútínan mín er til dæmis að hjálpa mér mikið og ég legg mikið á mig til að hún gangi upp. Ef morgunrútínan mín gengur upp þá finnst mér dagurinn einfaldlega betri. Til þess að auðveldara sé að láta morgunrútínuna ganga upp þá finnst mér mikilvægt að kvöldrútínan sé í lagi líka.

Ok, ég skal skrifa hvernig besta rútínan er fyrir mig svo allt gangi „smooth“. Mér finnst best að fara að sofa um tíuleitið, ég sofna vel þegar ég fer í rúmið á þessum tíma. Ég næ þá líka átta tíma svefni ef ég ætla að vakna klukkan sex, sem mér finnst einnig besti tíminn fyrir mig að vakna því þá hef ég góðan tíma fyrir sjálfa mig á morgnana. Ég hef tíma til að fara út með hundinn, ég hef tíma til að fá mér morgunverð í rólegheitunum og man eftir að taka vítamínin mín og allt það, auk þess verða morgunverkin oft ansi drjúg.

Nú í dag er mikið verið að tala um mikilvægi góðs svefns og nægs svefns og það er mjög mikilvægt að hlusta á það og skoða hjá sjálfum sér hvort svefninn sé nægur og einnig hvort hann sé góður. Ert þú að ná 8 tímum?

Líkaminn okkar og heilinn hefur ótrúlega aðlögunarhæfni og getur ..... allavega í ákveðið langan tíma þolað að sofa lítið og sofa illa. En einhverntímann kemur að því að hann segir stopp með einhverjum hætti. Ég mæli með bókinni Þess vegna sofum við, sem er á Storytel, og fjallar um mikilvægi svefns.

Það er hægt að vera með alls konar rútínu. Sem dæmi get ég tekið, auk morgun- og kvöldrútínunnar, matmálsrútínu, æfingarrútínu, helgarrútínu, innkauparútínu og fleira.

Innkauparútínaner til dæmis eitthvað sem gott væri fyrir mig að setja í gang. Ég er ekki svo skipulögð varðandi hvað ég ætla að hafa í kvöldmatinn. Ef ég væri með góða rútínu varðandi mat og innkaup myndi það lagast til muna. Ég gæti búið mér til rútínu sem væri að gera lista yfir hvað ég ætli að hafa í matinn fyrir vikuna og hafa einn innkaupadag á viku. Það myndi spara mér bæði tíma og pening, já og líka höfuðverkinn sem ég fæ á hverjum degi yfir því hvað ég eigi að hafa í matinn.....korter í sjö HRIKALEGT. Líklega myndi það einnig verða til þess að maturinn yrði hollari þannig að það er margir kostir við að laga þessa rútínu.

Svo er það æfingarrútínan sem einnig er gott að hafa í gangi hjá sér allt árið. Það er nefnilega svo skrítið að þegar æfingarnar eru ekki í föstum skorðum þá líður allt í einu mánuður án þess að æfingaskórnir hafi verið notaðir.

Gott er að búa til rútínu sem felur í sér að hitta vin/vini á ákveðnum dögum og tímum vikunnar. Ég hitti til dæmis systir mína tvo daga í viku, á morgnana, áður en við förum í vinnuna og við skokkum einn hring saman. Við viljum sko hvorugar beila þannig að við mætum alltaf. Það er svo miklu erfiðara að beila á aðra en sjálfan sig. Svo fer ég á hjólaæfingar líka sem eru einnig í föstum skorðum þannig að strax og rútínan dettur út þá fæ ég áminningu um að ég hafi ekki mætt. Það verður þá til þess að ég held frekar dampi yfir árið og missi kannski eina eða tvær æfingar í stað þess að líði margar vikur án hreyfingar.

Einnig er góð hugmynd að skokka, ganga eða til dæmis synda á meðan börnin eru á æfingu ef erfitt er að finna tíma fyrir sjálfan sig. Þá er er ekki bara verið að skutla þeim á æfingu heldur gefa sjálfum sér tíma í leiðinni og tekur þau svo með sér aftur til baka þegar þau eru búin.

Já það er ýmislegt hægt ef viljinn er fyrir hendi.... JUST DO IT!

 

Íris Huld Hákonardóttir,

deildarstjóri sjúkraþjálfunar á Hrafnistu Hraunvangi.

 

  •  

    Til baka takki

    Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
    Samþykkja kökur