Top header icons

Ábendingar Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 

Föstudagsmolar 19. febrúar 2021 - Gestahöfundur er Svanborg Guðmundsdóttir, deildarstjóri iðjuþjálfunar Hrafnistu í Boðaþingi

Lífshlaupið, ferfættur vinur og samvinna.

Nú er blessuð veiran á undanhaldi og okkur, sem höfum verið bólusett, fjölgar jafnt og þétt. Þá fer maður að sjá fyrir endann á þessu tímabili. Þetta eru tímar sem enginn bjóst við að upplifa en flestir hafa tekist á við af æðruleysi. Fyrir ári síðan, þegar ég hafði aldrei heyrt minnst á Covid-19 og hafði ekki trú á að einhver veira myndi hafa mikil áhrif á líf mitt, var ég að taka þátt í Lífshlaupinu. Þeir sem tóku þátt í Lífshlaupinu í fyrra muna kannski að veðrið er mun hagstæðara í ár. Það var slagveður og suddi mest allt tímabilið. Ég er mikil keppnismanneskja og fór því í mína völdu hreyfingu (sem er ganga) alveg sama hvernig viðraði. Áður en lengra er haldið vil ég kynna til sögunnar starfsmann í Boðaþingi sem er ferfætlingurinn Kátur. Hann er yfirleitt mjög kátur og gefur mikið af sér í starfi. Stundum grípur mig afbrýðisemi þegar hann virðist geta glatt íbúa meira á 20 mínútum en ég allt árið en hann er of sætur til að ég geti verið fúl lengi.  Þessi mikli gleðigjafi er einnig göngufélagi minn og ætti með réttu að vera skráður í Lífshlaupið ekki síður en ég. Sér í lagi lagði hann mikið á sig í Lífshlaupinu 2020 og ekki alltaf að eigin frumkvæði. Þegar veðrið var þannig að það var erfitt að standa uppréttur úti, er erfitt að vera þriggja kg hundur og mig grunaði að ég væri að ganga of langt þegar Kátur faldi sig þegar ég dró fram gönguskóna. Ég lét þó ekki segjast og tók hann með út, það vita jú allir að hundar elska göngutúra. Eftir 10 mínútna barning úti, mátti ég ekki hægja á mér þá sneri Kátur við og í lokin þá dró ég hann áfram á maganum (það er til myndband). En að sjálfsögðu fyllti ég upp í nauðsynlegan tíma fyrir Lífshlaupið, þetta er nefnilega keppni þið skiljið? Það eru margar fleiri sögur sem ég get sagt af baráttu minni í Lífshlaupinu 2020, og ekki allar mér til sóma. Þrátt fyrir þennan mikla metnað fékk ég ekki nein fyrstu verðlaun, var langt frá að ná því og liðið mitt vann ekki. Lítill gróði það árið enda sagði ég samstarfsfólki mínu að ég myndi aldrei aftur taka þátt í þessari vitleysu. Það má finna jákvæðar hliðar á öllu og eitt af því sem ég tók eftir þegar Covid-19 skall á er fjöldinn sem ég hitti í reglulegum göngum mínum á Úlfarsfell. Þar var ég vön að hitta nokkra en ekkert í líkingu við þann fjölda sem birtist þar eftir að veiran skall á. Þetta var oft eins og ættarmót, gamlir skólafélagar og samstarfsfólk af öðrum heimilum og svo fjöldinn allur af bláókunnugu fólki. Það er í raun alveg frábært hvað landinn hefur hópast í alls konar útivist og heyrst hefur að sala á gönguskíðum hafi slegið öll met.  En aftur að Lífshlaupinu, þetta árið var ég alveg ákveðin að taka ekki þátt en af einhverjum orsökum þá fannst mér ég verða að vera með. Ég setti mér þá skilmála samt að það mætti ekki bitna á Kát. Það varð að persónulegu markmiði að taka þátt í Lífshlaupinu án þess að ógna lífi og limum manna og dýra. Ég skráði mig til leiks aftur í ár og hef haft fullan hemil á keppnisskapinu. Það mega koma hreyfingarlausir dagar og það má leyfa hundinum að vera heima. Það er gaman að fara út og njóta, prófa nýjar leiðir, ganga til vina og sníkja kaffi. Fjöldinn sem uppgötvaði Úlfarsfell er nú horfinn að miklu leyti þó enn séu fleiri en áður að njóta  og hvet ég ykkur öll til að koma á fellið góða, þar er pláss fyrir alla. Nú er ég að njóta en ekki þjóta og hundurinn er farinn að vilja koma með mér þegar ég fer út, svona flesta daga alla vega. Við höfum lært að ganga betur í takt og ég ber hann í þar til gerðum bakpoka þegar á þarf að halda. Þannig fæst hann til að koma með mér hvernig sem viðrar þar sem hann veit að hann fær skjól í pokanum góða. Á meðfylgjandi myndum erum við Kátur að ganga á fellin. 

Samvinna okkar Káts er lýsandi fyrir mína upplifun af starfinu eftir að veiran vonda birtist. Stundum er maður að bugast og sér ekki úr augunum út, en þá er nauðsynlegt að finna nýjar lausnir til að klára verkefnin. Við þurfum að standa saman og nýta styrkleika hvors annars, stundum þurfum við að styðja og stundum þurfum við stuðning. Allir þurfa stundum hjálp og samvinna skilar okkur lengra en við hefðum annars komist. Við getum lært af hvort öðru og það er margt sem þetta skrítna tímabil hefur kennt okkur. Vonandi náum við að taka það góða frá þessari reynslu og nýta hana áfram. Ekki má þó gleyma því sem var betra fyrir Covid-19 og það er ærið verkefni sem bíður okkar að setja þetta allt saman á ný, í starfi og einkalífinu. Það er enginn að keppa í ár í Lífshlaupinu, alla vega ekki iðjuþjálfinn í Boðaþingi. Lífshlaupið kemur alltaf aftur, kannski með enn betra veðri og dásamlegum samverustundum. Ég ætla alla vega að vera bjartsýn og vona það besta. Það gerir Kátur líka.

 

Góða helgi!

Svanborg Guðmundsdóttir,

Deildarstjóri iðjuþjálfunar Hrafnistu í Boðaþingi.

 

  • Til baka takki

    Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
    Samþykkja kökur