Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 11. september 2020 - Gestahöfundur er Hálfdan Henrysson, stjórnarformaður Sjómannadagsráðs

Föstudagspistill 11. september 2020

 

Senn líður að hausti og undir venjulegum kringumstæðum værum við að búa okkur undir haust og vetur með eðlilegum hætti. Svo er því miður ekki og enn lætur kórónu vírusinn á sér kræla. Samt sem áður verður ekki annað sagt en að Hrafnistufólk hafi sýnt afar mikla ábyrgð og tekið á ástandinu að undanförnu af mikilli festu og dug svo athygli hefur vakið víða.  Það hefur margoft, frá því þetta ástand hófst, komið í ljós að starfsfólk Hrafnistuheimilanna hefur sýnt mikið áræði og lagt sig fram um að allt væri mögulega  gert til að koma í veg fyrir að sýking bærist inn á heimilin. Það hefur að sjálfsögðu verið erfitt þegar þurft hefur að taka á málum með þeim hætti að meina heimilisfólki okkar að hitta ættingja sína og venslafólk. Sem betur fer þegar á leið reyndist unnt að slaka aðeins  á umgengnisreglum og hefur það reynst vel þrátt fyrir að hættan sé fyrir hendi. Það er þó ekki eingöngu  okkar starfsfólk sem hefur þurft að taka á þessum vágesti. Öll hjúkrunarheimili víðs vegar um landið hafa þurft að setja reglur um skerta umgengni og starfsfólk þeirra hefur líka staðið sig vel við þessar erfiðu aðstæður.

Það var ekki bara vágesturinn sem hafði áhrif á líf og starf hér á heimilunum. Forstjóri okkar Pétur Magnússon ákvað að skipta um hest í miðri ánni og ganga til liðs við endurhæfinguna á Reykjalundi.  Pétur hafði verið forstjóri Hrafnistu í tólf ár og skilað góðu starfi og var vinsæll bæði meðal starfsfólks og íbúa. Honum eru færðar góðar kveðjur og óskir um velfarnað í nýju starfi.

Eins og fram hefur komið var það ætlun mín að hætta sem stjórnarformaður í Sjómannadagsráði síðastliðið vor og hafði ég tilkynnt það með löngum fyrirvara. Örlögin höguðu því á annan hátt en ég hafði ætlað. Á aðalfundi sem haldinn var í maí sl. var skorað á mig vegna sérstakra aðstæðna að halda áfram við stjórnvölinn í Sjómannadagsráði. Þar sannaðist hið fornkveðna að enginn ræður sínum næturstað. Um sinn verð ég hér og reyni að láta gott af mér leiða.  Ég hef reyndar notið þess mjög að vinna með því góða fólki sem starfar á Hrafnistuheimilunum, Sjómannadagsráði og happdrætti DAS og vona að svo verði  áfram.

Þegar Pétur ákvað skyndilega að hætta störfum stóðum við uppi án forstjóra og þess er leitt hafði starfið á Hrafnistu í langan tíma.  Það varð að ráði að fá Maríu Fjólu Harðardóttur framkvæmdastjóra heilbrigðissviðs Hrafnistu og Sigurð Garðarsson framkvæmdastjóra Sjómannadagsráðs til að stýra starfi Hrafnistu meðan unnið væri að framtíðarlausn og leitun að nýjum stjórnanda. Það varð síðan í ágúst sl. að ákveðið var af stjórn Sjómannadagsráðs að ráða Maríu Fjólu sem forstjóra Hrafnistu frá 1. sept. sl. Henni og Sigurði Garðarssyni eru þökkuð störf í erfiðu millibilsástandi sem skapaðist eftir að Pétur hætti með stuttum fyrirvara. Þau leystu það með miklum sóma. Sigurður verður áfram í sínu ábyrga starfi sem framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs.

Við horfum fram á veginn. Nýja hjúkrunarheimilið við Sléttuveg hefur tekið til starfa og íbúar að flytja í nýjar leiguíbúðir Sjómannadagsráðs við Sléttuveg. Milli hjúkrunarheimilisins og leiguíbúðanna er  þjónustubygging aldraðra með ýmsa þjónustu.  Þar er eitt nýjasta kaffihús borgarinnar ásamt skemmtilegu útivistarsvæði þar sem hægt er að njóta útiveru þegar vel viðrar.  Þjónustubyggingin er rekin í samvinnu við Reykjavíkurborg og Sjómannadagsráðs en er í eigu Sjómannadagsráðs. Mikil og góð samvinna hefur verið milli borgarinnar og ráðsins um þennan nýja þjónustuþátt. Það má einnig segja það um samvinnu Sjómannadagsráðs og heilbrigðisráðuneytis varðandi rekstur hjúkrunarheimilisins og þar á borgin einnig þátt.  Okkur var falið að sjá um byggingu hjúkrunarheimilisins og það tókst að reisa þessa glæsilegu byggingu undir áætluðu kostnaðarverði og á áætluðum tíma. Við erum hreykin af þessum árangri og væntum þess að okkur verði falin slík verkefni í framtíðinni.  Árangurinn á Sléttuvegi má þakka starfsfólki okkar á Hrafnistu og Sjómannadagsráðs sérstaklega fyrir framúrskarandi árangur. 

Eins og fram kom í pistli mínum hér að ofan réðum við Maríu Fjólu Harðardóttur í starf forstjóra Hrafnistuheimilanna. Hennar bíður mikið starf á erfiðum tímum en hún hefur sér til halds og trausts frábæra stjórnendur á hjúkrunarheimilunum að ógleymdu öllu starfsfólki Hrafnistuheimilanna og Sjómannadagsráðs. Við óskum henni allra heilla og gæfu i þessu mikilvæga starfi.

 

Hálfdan Henrysson.

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur