Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 4. september 2020 - María Fjóla Harðardóttir, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 4. september 2020.

 

Kæra samstarfsfólk,

 

Eins og þið flest hafið orðið áskynja birtist á sunnudag frétt á vef Fréttablaðsins og DV sem unnin var upp úr FB-færslu starfsmanns í dagdvöl Hrafnistu við Sléttuveg. Þar lýsir færsluhöfundur upplifun sinni af slæmri umönnun á hjúkrunarheimilum sem viðkomandi hafði starfað á. Óhætt er að segja að þessi umfjöllun hafi komið mér og flestum á Hrafnistu í opna skjöldu. Fyrsta tilfinning mín var sú að mér sárnaði. Mér sárnaði fyrir hönd okkar allra, bæði starfsmanna, íbúa og aðstandenda þó það hafi verið tekið fram að færslan ætti ekki við Hrafnistu á Sléttuvegi.

Ég vil árétta það, svo það fari ekki á milli mála, að stjórn Hrafnistu, framkvæmdastjórn og allir stjórnendur vita hvaða gull við höfum að geyma í formi starfsfólks. Við vitum hvaða starf er verið að vinna á Hrafnistu og við vitum að hjá Hrafnistu starfar upp til hópa einstaklega faglegur og góður hópur fólks sem leggur mikla alúð við íbúa og aðra þjónustuþega. Það er því eðlilegt að starfsfólk taki umræðu af þessu tagi alvarlega og nærri sér. Ég vil nota tækifærið og minna ykkur á öll fallegu orðin í ykkar garð frá bæði íbúum og aðstandendum sem ég veit að eru mörg.

Þó að við vöndum okkur í okkar störfum og leitumst alltaf við að bæta gæði þjónustunnar sem við veitum er mikilvægt að við séum gagnrýnin á okkar störf. Til að auka gæði eru margar leiðir farnar. Hér eru dæmi um nokkrar leiðir:

- Á Hrafnistu er ítarlegt og virkt gæðakerfi

- Starfsfólki stendur til boða að senda ábendingar um það sem betur má fara í gegnum netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

- Starfandi er umboðsmaður íbúa og aðstandenda

- Reglulega eru gerðar innri úttektir auk þess sem heimilin eru tekin út af Embætti landlæknis.

Mig langar að nota þetta tækifæri til að biðja allt starfsfólk Hrafnistu um að hjálpa okkur að auka gæði þjónustunnar með því að vera dugleg að koma ábendingum og hugmyndum á framfæri, bæði um það sem betur má fara og það jákvæða sem aðrir geta lært af. Hægt er að leita til stjórnenda deilda og heimila, mannauðssviðs og heilbrigðissviðs auk þess sem hægt er að senda á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eins og áður hefur komið fram. Mikilvægt er að starfsfólk viti að öll atvik fá númer, eru skráð og fá meðferð. Engin atvik eru óathuguð.

Ég hlakka til að vinna áfram með ykkur það góða starf sem við veitum í þágu íbúa og bið ykkur að vera vakandi fyrir þeim tækifærum sem geta leitt til frekari framfara hjá okkur á Hrafnistu.

Að endingu læt ég fylgja með viðtal sem ég fór í á Bylgjunni í vikunni vegna þessa máls:

„Reykjavík síðdegis – Starfsfólkið sárt vegna umræðu um illa meðferð á íbúum“

 

Kær kveðja til ykkar,

María Fjóla

Forstjóri Hrafnistu

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur