Top header icons

COVID spurt og svarað Hrafnista á Facebook
 

Föstudagsmolar 7.ágúst 2020 - María Fjóla Harðardóttir

„Það þarf fólk eins og þig fyrir fólk eins og mig.“ Þetta lag og þessi setning, sem Rúnar Júlíusson söng svo fallega, hefur verið mér ofarlega í huga síðastliðnu daga og vikur. Þessi setning er skrifuð á vegginn inni á Hrafnistu á Nesvöllum og Hlévangi og ég held ég viti hvers vegna hún er mér svona ofarlega í huga. Við erum í sérstökum aðstæðum líkt og þið vitið, í heimsfaraldri, aðstæðum sem enginn okkar hefur upplifað áður. Aðstæðum sem við þurfum að læra að lifað með. Það er magnað að sjá hversu einstakt starfsfólk vinnur á Hrafnistu. Hvernig hver einasti starfsmaður Hrafnistu drekkur daglega í sig þekkingu og beitir öllum brögðum við að draga úr líkum á því að Covid-19 komi inn á Hrafnistu. Þetta er árangur sem er á heimsmælikvarða og er ykkur, hverju og einu ykkar, að þakka. Aldrei gleyma því að þið eruð heimsmeistarar ⯑ Spáið í því?
 
Starfið okkar
Í mínum huga, þá eru það forréttindi að starfa á hjúkrunarheimili. Ég hef persónulega nokkrum sinnum á mínum starfsferil haldið að nú væri komið nóg og ég þyrfti að skoða hvernig sé að vinna í öðrum geirum, algerlega ótengt öldrun. Ég hef alltaf komið til baka þar sem að mínu mati er þetta eitt það merkilegasta starf sem til er.
 
Við komum inn í þennan heim og kveðjum þennan heim. Þetta er eitt af stóru steinununum í lífinu. Hversu merkilegt er að taka á móti nýjum einstaklingum og hversu merkilegt er að fá að fylgja þeim síðustu vikur, mánuði eða ár í þeim tilgangi að gera allt sem í okkar valdi stendur til að okkar heldra fólki líði eins vel og hægt er. Ég veit að við tengjumst mörgum sterkum böndum og lærum mikið af samskiptum okkar við fólk sem kallar ekki allt ömmu sína.
 
Önnur bylgja Covid-19 smita
Síðustu daga og vikur höfum við á Hrafnistu verið að herða reglur um sóttkví og aðgengi í því skyni að reyna að draga úr líkum á því að okkar íbúar, starfsfólk og aðstandendur smitist eða beri smit inn á heimilin. Þó svo að mörgu megi líkja við viðbrögð okkar í vor, þá erum við komin svo miklu lengra í dag en við vorum þá. Í vor vissum við að það væri á leiðinni til okkar heimsfaraldur sem engin okkar vissi nákvæmlega hvernig best væri að taka á og verjast. Við vorum komin á stríðsástand við veiru sem smitast auðveldlega á milli manna og getur valdið miklum skaða. Vissum samt ekki hve miklum.
 
Hjúkrunarheimilin og Hrafnista tóku þá afdrifaríku ákvörðun að loka heimilunum fyrir utanaðkomandi gestum. Að mínu mati var það hárrétt ákvörðun Á ÞEIM TÍMA. Við þurftum svigrúm til að átta okkur á því hvað væri að gerast, breyta verkferlum, fræða starfsfólk og aðstandendur og reyna að hugsa fyrir því sem mögulega gæti gerst og undirbúið okkur. Við urðum að skoða alla þætti sem við gætum breytt til þess að halda þessari óværu fjarri Hrafnistu.
 
Þegar við svo aftur göngum nú í gegnum aðra bylgju af fjölgun Covid-19 smita hér á landi þá er alveg ljóst að við erum betur undirbúin, fróðari og í góðum tengslum við ytri aðila sem eru önnur hjúkrunarheimili í gegnum Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, Almannavarnir, Landspítala, Embætti landlæknis og heilbrigðisráðuneytið. Eftir að Neyðarstjórn Hrafnistu kom aftur saman nú í breyttum aðstæðum og ákvað að herða reglurnar, vann starfsfólk Hrafnistu við að breyta verklagi eins og vel smurð vél á rólegan og yfirvegaðan hátt, þrátt fyrir að stór hluti starfsfólks Hrafnistu væri enn í sumarfríi. Þið eigið þakkir skilið fyrir og það er ástæðan fyrir að íbúar Hrafnistu, aðstandendur og stjórn Hrafnistu eru svo þakklát að eiga fólk eins og þig fyrir fólk eins og mig ⯑
 
Baráttukveðja til ykkar,
María Fjóla Harðardóttir,
Framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs/starfandi forstjóri Hrafnistu
 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur